12:1 Þessir eru þeir, er komu til Davíðs í Siklag, er hann var landflótta fyrir Sál Kíssyni. Voru og þeir meðal kappanna, er veittu honum vígsgengi.
12:2 Höfðu þeir boga að vopni og voru leiknir að slöngva steinum með hægri og vinstri hendi og að skjóta örvum af boga: Af frændum Sáls, af Benjamínítum:
12:3 Ahíeser höfuðsmaður og Jóas, Hassemaasynir frá Gíbeu, Jesíel og Pelet Asmavetssynir, Beraka og Jehú frá Anatót,
12:4 Jismaja frá Gíbeon, kappi meðal þeirra þrjátíu og foringi þeirra þrjátíu, Jeremía, Jehasíel, Jóhanan og Jósabad frá Gedera,
12:5 Elúsaí, Jerímót, Bealja, Semarja og Sefatja frá Haríf,
12:6 Elkana, Jissía, Asareel, Jóeser og Jasóbeam Kóraítar,
12:7 Jóela og Sebadja Jeróhamssynir frá Gedór.
12:8 Af Gaðítum gengu kappar miklir, hermenn, búnir til bardaga, er skjöld báru og spjót, í lið með Davíð í fjallvíginu í eyðimörkinni. Voru þeir ásýndum sem ljón og fráir sem skógargeitur á fjöllum.
12:9 Var Eser höfðingi þeirra, annar var Óbadía, þriðji Elíab,
12:10 fjórði Mismanna, fimmti Jeremía,
12:11 sjötti Attaí, sjöundi Elíel,
12:12 áttundi Jóhanan, níundi Elsabad,
12:13 tíundi Jeremía, ellefti Makbannaí.
12:14 Þessir voru af niðjum Gaðs, og voru þeir hershöfðingjar. Var hinn minnsti þeirra einn saman hundrað manna maki, en hinn mesti þúsund.
12:15 Þessir voru þeir, er fóru yfir Jórdan í fyrsta mánuðinum, er hún flóði yfir alla bakka, og stökktu burt öllum dalbyggjum til austurs og vesturs.
12:16 En nokkrir af Benjamíns- og Júdaniðjum komu til Davíðs í fjallvígið.
12:17 Gekk Davíð þá út til þeirra, tók til máls og sagði við þá: ,,Ef þér komið til mín með friði til þess að veita mér lið, þá vil ég fúslega gjöra bandalag við yður, en ef þér komið til að svíkja mig í hendur óvinum mínum, þótt ég hafi ekkert illt aðhafst, þá sjái Guð feðra vorra það og hegni.``
12:18 Þá kom andi yfir Amasaí, höfðingja fyrir hinum þrjátíu, og mælti hann: ,,Þínir erum vér, Davíð, og með þér, þú Ísaísonur. Heill, heill sé þér, og heill liðsmönnum þínum, því að Guð þinn hjálpar þér.`` Tók þá Davíð við þeim og gjörði þá að foringjum fyrir sveit sinni.
12:19 Af Manasse gengu í lið með Davíð, þá er hann fór með Filistum til bardaga við Sál _ þó liðsinntu þeir þeim ekki, því að höfðingjar Filista réðu ráðum sínum, sendu hann burt og sögðu: ,,Hann kynni að ganga í lið með Sál, herra sínum, og gæti það orðið vor bani`` _
12:20 þegar hann kom til Siklag, þá gengu í lið með honum af Manasse: Adna, Jósabad, Jedíael, Míkael, Jósabad, Elíhú og Silletaí, þúsundhöfðingjar Manasse.
12:21 Veittu þessir Davíð lið gegn ræningjaflokkum, því að allir voru þeir kappar miklir, og urðu þeir foringjar í hernum.
12:22 Því að dag frá degi komu menn til liðs við Davíð, uns herinn var mikill orðinn sem guðsher.
12:23 Þetta er manntal á höfðingjum þeirra hertygjaðra manna, er komu til Davíðs í Hebron til þess að fá honum í hendur konungdóm Sáls eftir boði Drottins:
12:24 Júdamenn, er skjöld báru og spjót, voru 6.800 herbúinna manna.
12:25 Af Símeonsniðjum 7.100 hraustir hermenn.
12:26 Af Levíniðjum: 4.600
12:27 og auk þess Jójada, höfðingi Aronsættar, og 3.700 manns með honum.
12:28 Og Sadók, ungur maður, hinn mesti kappi. Voru 22 herforingjar í ætt hans.
12:29 Af Benjamínsniðjum, frændum Sáls, voru 3.000, en allt til þessa héldu flestir þeirra trúnað við ætt Sáls.
12:30 Af Efraímsniðjum 20.800 nafnkunnra manna í ættum sínum.
12:31 Af hálfri Manassekynkvísl 18.000 manna, er nafngreindir voru til þess að fara og taka Davíð til konungs.
12:32 Af Íssakarsniðjum, er báru skyn á tíðir og tíma, svo að þeir vissu, hvað Ísrael skyldi hafast að, 200 höfðingjar, og lutu allir frændur þeirra boði þeirra.
12:33 Af Sebúlon gengu í herinn 50.000 vígra manna, er höfðu alls konar hervopn, allir með einum huga til þess að hjálpa.
12:34 Af Naftalí fóru þúsund höfðingjar og með þeim 37.000 manna, er skjöld báru og spjót.
12:35 Af Dansniðjum 28.600 manna, er búnir voru til bardaga.
12:36 Af Asser gengu í herinn 40.000 vígra manna.
12:37 Af þeim hinumegin Jórdanar, af Rúbensniðjum, Gaðsniðjum og hálfri ættkvísl Manasse: 120.000 manna, með alls konar vopn til hernaðar.
12:38 Allir þessir hermenn, er skipaðir voru í fylkingu, komu samhuga til Hebron til þess að taka Davíð til konungs yfir allan Ísrael. Voru og allir aðrir Ísraelsmenn samhuga í því að taka Davíð til konungs.
12:39 Og þeir dvöldust þar þrjá daga hjá Davíð og neyttu matar og drykkjar, því að frændur þeirra höfðu búið þeim beina.
12:40 Auk þess færðu þeir, er bjuggu í nágrenni við þá, allt að Íssakar, Sebúlon og Naftalí, vistir á ösnum, úlföldum, múlum og nautum, mjölmat, fíkjukökur, rúsínukökur, vín, olíu og naut og sauði í ríkum mæli, því að gleði var í Ísrael.