15:1 Davíð byggði hús handa sér í Davíðsborg, og hann bjó stað handa örk Guðs og reisti tjald fyrir hana.
15:2 Þá sagði Davíð: ,,Enginn má bera örk Guðs nema levítarnir, því að þá hefir Drottinn valið til þess að bera örk Guðs og til þess að þjóna sér að eilífu.``
15:3 Síðan stefndi Davíð öllum Ísrael saman til Jerúsalem til þess að flytja örk Drottins á sinn stað, þann er hann hafði búið handa henni.
15:4 Og Davíð stefndi saman niðjum Arons og levítunum:
15:5 Af Kahatsniðjum: Úríel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tuttugu alls.
15:6 Af Meraríniðjum: Asaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð og tuttugu alls.
15:7 Af Gersómsniðjum: Jóel, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og þrjátíu alls.
15:8 Af Elísafansniðjum: Semaja, er var þeirra helstur, og frændum hans, tvö hundruð alls.
15:9 Af Hebronsniðjum: Elíel, er var þeirra helstur, og frændum hans, áttatíu alls.
15:10 Af Ússíelsniðjum: Ammínadab, er var þeirra helstur, og frændum hans, hundrað og tólf alls.
15:11 Síðan kallaði Davíð á Sadók og Abjatar presta og Úríel, Asaja, Jóel, Semaja, Elíel og Ammínadab levíta,
15:12 og mælti við þá: ,,Þér eruð ætthöfðingjar levíta. Helgið yður og frændur yðar og flytjið örk Drottins, Ísraels Guðs, á þann stað, er ég hefi búið handa henni.
15:13 Af því að þér voruð eigi við hið fyrra skipti, hefir Drottinn Guð vor lostið oss, af því að vér leituðum hans eigi svo sem vera bar.``
15:14 Þá helguðu prestarnir og levítarnir sig til þess að flytja örk Drottins, Ísraels Guðs, upp eftir.
15:15 Síðan báru niðjar levíta örk Guðs, eins og Móse hafði fyrirskipað eftir boði Drottins, á stöngum á herðum sér.
15:16 Því næst bauð Davíð höfðingjum levíta að setja frændur þeirra, söngmennina, með hljóðfærum þeirra, hörpum, gígjum og skálabumbum, til þess að þeir skyldu láta fagnaðarglaum kveða við.
15:17 Settu levítar til þess Heman Jóelsson, og af frændum hans Asaf Berekíason, og af Meraríniðjum, frændum sínum, Etan Kúsajason,
15:18 og með þeim frændur þeirra af öðrum flokki: Sakaría Jaasíelsson, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Benaja, Maaseja, Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm og Jeíel hliðverði.
15:19 Auk þess söngvarana Heman, Asaf og Etan með skálabumbum úr eiri, til þess að syngja hátt,
15:20 og Sakaría, Asíel, Semíramót, Jehíel, Únní, Elíat, Maaseja og Benaja með hörpur, til þess að syngja háu raddirnar,
15:21 og Mattitja, Elífelehú, Mikneja, Óbeð Edóm, Jeíel og Asaja með gígjur, til þess að syngja lægri raddirnar.
15:22 Kenanja, er var helstur levítanna við arkarburðinn, sá um arkarburðinn, því að hann bar skyn á það.
15:23 Berekía og Elkana voru hliðverðir arkarinnar.
15:24 Sebanja, Jósafat, Netaneel, Amasaí, Sakaría, Benaja og Elíeser prestar þeyttu lúðra frammi fyrir örk Guðs, og Óbeð Edóm og Jehía voru hliðverðir arkarinnar.
15:25 Davíð og öldungar Ísraels og þúsundhöfðingjarnir fóru til þess að flytja sáttmálsörk Drottins með fögnuði úr húsi Óbeð Edóms.
15:26 Og er Guð hjálpaði levítunum, er báru sáttmálsörk Drottins, fórnuðu þeir sjö nautum og sjö hrútum.
15:27 Og Davíð var klæddur baðmullarkyrtli, svo og allir levítarnir, er örkina báru, og söngmennirnir og Kenanja, burðarstjóri, æðstur söngmannanna, en Davíð bar línhökul.
15:28 Og allur Ísrael flutti sáttmálsörk Drottins upp eftir með fagnaðarópi og lúðurhljómi, með lúðrum og skálabumbum, og létu hljóma hörpur og gígjur.
15:29 En er sáttmálsörk Drottins kom í Davíðsborg, leit Míkal, dóttir Sáls, út um gluggann. Og er hún sá Davíð konung vera að hoppa og dansa, fyrirleit hún hann í hjarta sínu.