15:1 Ég minni yður, bræður, á fagnaðarerindi það, sem ég boðaði yður, sem þér og veittuð viðtöku og þér einnig standið stöðugir í.
15:2 Fyrir það verðið þér og hólpnir ef þér haldið fast við orðið, fagnaðarerindið, sem ég boðaði yður, og hafið ekki ófyrirsynju trúna tekið.
15:3 Því það kenndi ég yður fyrst og fremst, sem ég einnig hef meðtekið, að Kristur dó vegna vorra synda samkvæmt ritningunum,
15:4 að hann var grafinn, að hann reis upp á þriðja degi samkvæmt ritningunum
15:5 og að hann birtist Kefasi, síðan þeim tólf.
15:6 Því næst birtist hann meira en fimm hundruð bræðrum í einu, sem flestir eru á lífi allt til þessa, en nokkrir eru sofnaðir.
15:7 Síðan birtist hann Jakobi, því næst postulunum öllum.
15:8 En síðast allra birtist hann einnig mér, eins og ótímaburði.
15:9 Því ég er sístur postulanna og er ekki þess verður að kallast postuli, með því að ég ofsótti söfnuð Guðs.
15:10 En af Guðs náð er ég það sem ég er, og náð hans við mig hefur ekki orðið til ónýtis, heldur hef ég erfiðað meira en þeir allir, þó ekki ég, heldur náð Guðs, sem með mér er.
15:11 Hvort sem það því er ég eða þeir, þá prédikum vér þannig, og þannig hafið þér trúna tekið.
15:12 En ef nú er prédikað, að Kristur sé upprisinn frá dauðum, hvernig geta þá nokkrir yðar sagt, að dauðir rísi ekki upp?
15:13 Ef ekki er til upprisa dauðra, þá er Kristur ekki heldur upprisinn.
15:14 En ef Kristur er ekki upprisinn, þá er ónýt prédikun vor, ónýt líka trú yðar.
15:15 Vér reynumst þá vera ljúgvottar um Guð, þar eð vér höfum vitnað um Guð, að hann hafi uppvakið Krist, sem hann hefur ekki uppvakið, svo framarlega sem dauðir rísa ekki upp.
15:16 Því að ef dauðir rísa ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn.
15:17 En ef Kristur er ekki upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar,
15:18 og þá eru einnig þeir, sem sofnaðir eru í trú á Krist, glataðir.
15:19 Ef von vor til Krists nær aðeins til þessa lífs, þá erum vér aumkunarverðastir allra manna.
15:20 En nú er Kristur upprisinn frá dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru.
15:21 Því að þar eð dauðinn kom fyrir mann, kemur og upprisa dauðra fyrir mann.
15:22 Því að eins og allir deyja fyrir samband sitt við Adam, svo munu allir lífgaðir verða fyrir samfélag sitt við Krist.
15:23 En sérhver í sinni röð: Kristur sem frumgróðinn, því næst, við komu hans, þeir sem honum tilheyra.
15:24 Síðan kemur endirinn, er hann selur ríkið Guði föður í hendur, er hann hefur að engu gjört sérhverja tign, sérhvert veldi og kraft.
15:25 Því að honum ber að ríkja, uns hann leggur alla fjendurna undir fætur hans.
15:26 Dauðinn er síðasti óvinurinn, sem verður að engu gjörður.
15:27 ,,Allt hefur hann lagt undir fætur honum.`` Þegar stendur, að allt hafi verið lagt undir hann, er augljóst, að sá er undan skilinn, sem lagði allt undir hann.
15:28 En þegar allt hefur verið lagt undir hann, þá mun og sonurinn sjálfur leggja sig undir þann, er lagði alla hluti undir hann, til þess að Guð sé allt í öllu.
15:29 Til hvers eru menn annars að láta skírast fyrir hina dánu? Ef dauðir menn rísa alls ekki upp, hvers vegna láta menn þá skíra sig fyrir þá?
15:30 Hvers vegna erum vér líka að stofna oss í hættu hverja stund?
15:31 Svo sannarlega, bræður, sem ég get hrósað mér af yður í Kristi Jesú, Drottni vorum: Á degi hverjum vofir dauðinn yfir mér.
15:32 Hafi ég eingöngu að hætti manna barist við villidýr í Efesus, hvaða gagn hefði ég þá af því? Ef dauðir rísa ekki upp, etum þá og drekkum, því að á morgun deyjum vér!
15:34 Vaknið fyrir alvöru og syndgið ekki. Nokkrir hafa enga þekkingu á Guði. Yður til blygðunar segi ég það.
15:35 En nú kynni einhver að segja: ,,Hvernig rísa dauðir upp? Hvaða líkama hafa þeir, þegar þeir koma?``
15:36 Þú óvitri maður! Það sem þú sáir lifnar ekki aftur nema það deyi.
15:37 Og er þú sáir, þá er það ekki sú jurt, er vex upp síðar, sem þú sáir, heldur bert frækornið, hvort sem það nú heldur er hveitikorn eða annað fræ.
15:38 En Guð gefur því líkama eftir vild sinni og hverri sæðistegund sinn líkama.
15:39 Ekki eru allir líkamir eins, heldur hafa mennirnir einn, kvikféð annan, fuglarnir einn og fiskarnir annan.
15:40 Til eru himneskir líkamir og jarðneskir líkamir. En vegsemd hinna himnesku er eitt og hinna jarðnesku annað.
15:41 Eitt er ljómi sólarinnar og annað ljómi tunglsins og annað ljómi stjarnanna, því að stjarna ber af stjörnu í ljóma.
15:42 Þannig er og um upprisu dauðra. Sáð er forgengilegu, en upp rís óforgengilegt.
15:43 Sáð er í vansæmd, en upp rís í vegsemd. Sáð er í veikleika, en upp rís í styrkleika.
15:44 Sáð er jarðneskum líkama, en upp rís andlegur líkami. Ef jarðneskur líkami er til, þá er og til andlegur líkami.
15:45 Þannig er og ritað: ,,Hinn fyrsti maður, Adam, varð að lifandi sál,`` hinn síðari Adam að lífgandi anda.
15:46 En hið andlega kemur ekki fyrst, heldur hið jarðneska, því næst hið andlega.
15:47 Hinn fyrsti maður er frá jörðu, jarðneskur, hinn annar maður er frá himni.
15:48 Eins og hinn jarðneski var, þannig eru og hinir jarðnesku og eins og hinn himneski, þannig eru og hinir himnesku.
15:49 Og eins og vér höfum borið mynd hins jarðneska, munum vér einnig bera mynd hins himneska.
15:50 En það segi ég, bræður, að hold og blóð getur eigi erft Guðs ríki, eigi erfir heldur hið forgengilega óforgengileikann.
15:51 Sjá, ég segi yður leyndardóm: Vér munum ekki allir sofna, en allir munum vér umbreytast
15:52 í einni svipan, á einu augabragði, við hinn síðasta lúður. Því lúðurinn mun gjalla og þá munu hinir dauðu upp rísa óforgengilegir, og vér munum umbreytast.
15:53 Þetta forgengilega á að íklæðast óforgengileikanum og þetta dauðlega að íklæðast ódauðleikanum.
15:54 En þegar hið forgengilega íklæðist óforgengileikanum og hið dauðlega ódauðleikanum, þá mun rætast orð það, sem ritað er: Dauðinn er uppsvelgdur í sigur.
15:55 Dauði, hvar er sigur þinn? Dauði, hvar er broddur þinn?
15:56 En syndin er broddur dauðans og lögmálið afl syndarinnar.
15:57 Guði séu þakkir, sem gefur oss sigurinn fyrir Drottin vorn Jesú Krist!
15:58 Þess vegna, mínir elskuðu bræður, verið staðfastir, óbifanlegir, síauðugir í verki Drottins. Þér vitið að erfiði yðar er ekki árangurslaust í Drottni.