12:1 Samúel mælti til alls Ísraels: ,,Sjá, ég hefi látið að orðum yðar í öllu því, sem þér hafið beiðst af mér, og ég hefi sett yfir yður konung.
12:2 Og sjá, nú gengur konungurinn frammi fyrir yður, en ég er orðinn gamall og grár fyrir hærum, og synir mínir eru meðal yðar. En ég hefi gengið fyrir augliti yðar frá barnæsku fram á þennan dag.
12:3 Hér er ég, vitnið á móti mér frammi fyrir Drottni og hans smurða: Hvers uxa hefi ég tekið? Og hvers asna hefi ég tekið? Og hvern hefi ég féflett? Hverjum hefi ég sýnt ofríki? Og af hverjum hefi ég þegið mútu eða jafnvel eina skó? Vitnið móti mér, og mun ég gjalda yður það aftur.``
12:4 Þeir svöruðu: ,,Eigi hefir þú féflett oss, og eigi hefir þú sýnt oss ofríki, og við engu hefir þú af nokkurs manns hendi tekið.``
12:5 Hann sagði við þá: ,,Drottinn sé vitni móti yður, og hans smurði sé vitni í dag, að þér hafið ekkert fundið í minni hendi.`` Og þeir sögðu: ,,Já, þeir skulu vera vitni!``
12:6 Þá sagði Samúel við lýðinn: ,,Drottinn sé vitni, hann sem skóp Móse og Aron og leiddi feður yðar út af Egyptalandi.
12:7 Gangið nú fram, til þess að ég deili á yður frammi fyrir Drottni og minni yður á allar velgjörðir Drottins, sem hann hefir auðsýnt yður og feðrum yðar.
12:8 Þegar Jakob var kominn til Egyptalands, þjáðu Egyptar þá. Þá hrópuðu feður yðar til Drottins, og Drottinn sendi Móse og Aron, og þeir leiddu feður yðar út af Egyptalandi, og hann fékk þeim bústað í þessu landi.
12:9 En þeir gleymdu Drottni, Guði sínum. Þá seldi hann þá í hendur Sísera, hershöfðingja Jabíns konungs í Hasór, og í hendur Filistum og í hendur Móabskonungi, svo að þeir herjuðu á þá.
12:10 En þeir hrópuðu til Drottins og sögðu: ,Vér höfum syndgað, þar sem vér höfum yfirgefið Drottin og þjónað Baölum og Astörtum; en frelsa oss nú af hendi óvina vorra, þá skulum vér þjóna þér.`
12:11 Þá sendi Drottinn Jerúbbaal, Barak, Jefta og Samúel og frelsaði yður af hendi óvina yðar allt í kring, svo að þér bjugguð óhultir.
12:12 En er þér sáuð, að Nahas, konungur Ammóníta, fór í móti yður, þá sögðuð þér við mig: ,Nei, konungur skal drottna yfir oss!` _ en Drottinn, Guð yðar, er þó konungur yðar.
12:13 Þarna er nú konungurinn, sem þér hafið valið, sem þér hafið beðið um. Drottinn hefir nú sett yfir yður konung.
12:14 Ef þér óttist Drottin og þjónið honum og hlýðið hans raustu og óhlýðnist ekki skipun Drottins, og ef þér, bæði þér sjálfir og konungurinn, sem ríkir yfir yður, fylgið Drottni, Guði yðar, þá fer vel,
12:15 en ef þér hlýðið ekki raustu Drottins og óhlýðnist skipun Drottins, þá mun hönd Drottins vera á móti yður og konungi yðar.
12:16 Gangið nú fram og sjáið þann mikla atburð, er Drottinn lætur verða fyrir augum yðar.
12:17 Er nú ekki hveitiuppskera? Ég ætla að biðja Drottin að senda þrumur og regn. Þá skuluð þér kannast við og skilja, hversu mikið illt þér gjörðuð í augum Drottins, er þér beiddust að fá konung.``
12:18 Og Samúel ákallaði Drottin, og Drottinn sendi þrumur og regn þennan sama dag. Þá varð lýðurinn mjög hræddur við Drottin og við Samúel.
12:19 Og allur lýðurinn sagði við Samúel: ,,Bið til Drottins Guðs þíns fyrir þjónum þínum, svo að vér deyjum ekki, því að vér höfum bætt þeirri misgjörð ofan á allar syndir vorar, að vér höfum beiðst konungs.``
12:20 Samúel sagði við lýðinn: ,,Óttist ekki. Þér hafið að vísu framið þessa misgjörð, en víkið nú ekki frá Drottni og þjónið Drottni af öllu hjarta yðar
12:21 og eltið ekki fánýtin, sem að engu liði eru og eigi frelsa, því að fánýt eru þau.
12:22 Því að Drottinn mun eigi útskúfa lýð sínum vegna síns mikla nafns, af því að Drottni hefir þóknast að gjöra yður að sínum lýð.
12:23 Og fjarri sé það mér að syndga á móti Drottni með því að hætta að biðja fyrir yður. Ég vil kenna yður hinn góða og rétta veg.
12:24 Óttist aðeins Drottin og þjónið honum trúlega af öllu hjarta yðar, því sjáið, hversu mikið hann hefir fyrir yður gjört.
12:25 En ef þér breytið illa, þá verður bæði yður og konungi yðar í burtu kippt.``