Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - 1SAMUEL 14

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    14:1 Svo bar við einn dag, að Jónatan sonur Sáls sagði við skjaldsvein sinn: ,,Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks Filista, sem er þarna hinumegin.`` En hann sagði ekki föður sínum frá því.

    14:2 En Sál sat utanvert við Gíbeu undir granateplatrénu, sem er hjá Mígron, og liðið, sem hann hafði með sér, var hér um bil sex hundruð manns.

    14:3 Og Ahía, sonur Ahítúbs, bróður Íkabóðs, Pínehassonar, Elísonar, prests Drottins í Síló, bar hökulinn. En liðið vissi ekki, að Jónatan hafði farið.

    14:4 Á milli klifanna, sem Jónatan vildi um fara yfir til varðflokks Filistanna, var hvor hamarinn sínum megin. Hét annar Bóses, en hinn Sene.

    14:5 Annar hamarinn var að norðanverðu og var brattur, gegnt Mikmas, en hinn að sunnanverðu, gegnt Geba.

    14:6 Jónatan sagði við skjaldsvein sinn: ,,Kom þú, við skulum fara yfir til varðflokks þessara óumskornu manna. Vera má, að Drottinn framkvæmi eitthvað oss í hag, því að ekkert getur tálmað Drottni að veita sigur, hvort heldur er með mörgum eða fáum.``

    14:7 Skjaldsveinninn svaraði honum: ,,Gjör þú öldungis eins og þér leikur hugur á, sjá, ég mun fylgja þér. Vil ég það eitt, er þú vilt.``

    14:8 Jónatan mælti: ,,Sjá, við förum nú yfir til mannanna og látum þá sjá okkur.

    14:9 Ef þeir þá kalla til okkar: ,Nemið staðar, þangað til vér komum til ykkar!` þá skulum við standa kyrrir, þar sem við erum staddir, og eigi fara upp til þeirra.

    14:10 En ef þeir kalla: ,Komið hingað upp til vor!` þá skulum við fara upp þangað, því að þá hefir Drottinn gefið þá í okkar hendur. Skulum við hafa það að marki.``

    14:11 Síðan létu þeir báðir varðflokk Filistanna sjá sig, og Filistar sögðu: ,,Sjá, Hebrear koma fram úr holunum, sem þeir hafa falið sig í.``

    14:12 Þá kölluðu varðmennirnir til Jónatans og skjaldsveins hans: ,,Komið hingað upp til vor, og skulum vér segja ykkur tíðindi.`` Þá sagði Jónatan við skjaldsvein sinn: ,,Kom nú upp á eftir mér, því að Drottinn hefir gefið þá í hendur Ísraels.``

    14:13 Og Jónatan klifraði upp á höndum og fótum og skjaldsveinn hans á eftir honum. Þá lögðu þeir á flótta fyrir Jónatan. En hann felldi þá, og skjaldsveinn hans vann á þeim á eftir honum.

    14:14 Og þeir sem Jónatan og skjaldsveinn hans lögðu að velli í þessu fyrsta áhlaupi, voru um tuttugu manns, eins og þegar plógur flettir sundur sverðinum á dagplægi lands.

    14:15 Þá sló ótta yfir herbúðirnar á völlunum og yfir allt liðið. Varðsveitin og ránsflokkurinn urðu einnig skelkaðir, og landið nötraði, og varð það að mikilli skelfingu.

    14:16 Sjónarverðir Sáls í Gíbeu í Benjamín lituðust um, og sjá, þá var allt á tjá og tundri í herbúðum Filista.

    14:17 Og Sál sagði við mennina, sem með honum voru: ,,Kannið nú liðið og hyggið að, hver frá oss hefir farið.`` Könnuðu þeir þá liðið, og vantaði þá Jónatan og skjaldsvein hans.

    14:18 Þá mælti Sál við Ahía: ,,Kom þú með hökulinn!`` _ því að hann bar þá hökulinn frammi fyrir Ísraelsmönnum.

    14:19 En meðan Sál var að tala við prestinn, varð ysinn í herbúðum Filista æ meiri og meiri, svo að Sál sagði við prestinn: ,,Hættu við það!``

    14:20 Og Sál og allt liðið, sem með honum var, safnaðist saman. En er þeir komu í orustuna, sjá, þá reiddi þar hver sverð að öðrum, og allt var í uppnámi.

    14:21 En Hebrear þeir, er að undanförnu höfðu lotið Filistum og farið höfðu með þeim í stríðið, snerust nú og í móti þeim og gengu í lið með Ísraelsmönnum, þeim er voru með Sál og Jónatan.

    14:22 Og er allir Ísraelsmenn, þeir er falið höfðu sig á Efraímfjöllum, fréttu, að Filistar væru lagðir á flótta, þá veittu þeir þeim og eftirför til þess að berjast við þá.

    14:23 Þannig veitti Drottinn Ísrael sigur á þeim degi. Orustan þokaðist fram hjá Betaven,

    14:24 og Ísraelsmenn voru mæddir orðnir þann dag. Þá gjörði Sál mikið glappaverk. Hann lét liðið vinna svolátandi eið: ,,Bölvaður sé sá, sem neytir matar áður en kveld er komið og ég hefi hefnt mín á óvinum mínum!`` Fyrir því bragðaði enginn af liðinu mat.

    14:25 En nú voru hunangsbú á völlunum.

    14:26 Og er liðið kom að hunangsbúunum, sjá, þá voru býflugurnar flognar út, en þrátt fyrir það bar enginn hönd að munni, því að liðið hræddist eiðinn.

    14:27 En Jónatan hafði eigi hlýtt á, þá er faðir hans lét liðið vinna eiðinn. Hann rétti því út enda stafsins, sem hann hafði í hendinni, og dýfði honum í hunangsseiminn og bar hönd sína að munni sér. Urðu augu hans þá aftur fjörleg.

    14:28 Þá tók einn úr liðinu til máls og sagði: ,,Faðir þinn hefir látið liðið vinna svolátandi eið: ,Bölvaður sé sá, sem matar neytir í dag!``` En liðið var þreytt.

    14:29 Jónatan svaraði: ,,Faðir minn leiðir landið í ógæfu. Sjáið, hversu fjörleg augu mín eru, af því að ég bragðaði ögn af þessu hunangi.

    14:30 Hversu miklu meira mundi mannfallið hafa verið meðal Filista en það nú er orðið, ef liðið hefði etið nægju sína í dag af herfangi óvinanna, er það náði.``

    14:31 Og þeir felldu Filista á þeim degi frá Mikmas til Ajalon, og liðið var mjög þreytt.

    14:32 Og liðið fleygði sér yfir herfangið, og tóku þeir bæði sauðfé, naut og kálfa og slátruðu á jörðinni, og fólkið át kjötið með blóðinu.

    14:33 Og menn sögðu Sál frá því og mæltu: ,,Sjá, fólkið syndgar móti Drottni með því að eta kjötið með blóðinu.`` Sál sagði: ,,Þér drýgið glæp. Veltið hingað til mín stórum steini.``

    14:34 Og Sál mælti: ,,Gangið út meðal fólksins og segið þeim: ,Hver og einn af yður komi til mín með sinn uxa og sína sauðkind og slátrið þeim hér og etið, svo að þér syndgið ekki á móti Drottni með því að eta það með blóðinu.``` Þá kom hver og einn af liðinu um nóttina með það, er hann hafði, og þeir slátruðu því þar.

    14:35 Og Sál reisti Drottni altari. Það var fyrsta altarið, sem hann reisti Drottni.

    14:36 Og Sál mælti: ,,Vér skulum fara á eftir Filistum í nótt og ræna meðal þeirra, þar til er birtir af degi, og engan af þeim láta eftir verða.`` Þeir sögðu: ,,Gjör þú allt, sem þér gott þykir.`` En presturinn sagði: ,,Vér skulum ganga hér fram fyrir Guð.``

    14:37 Sál gekk þá til frétta við Guð: ,,Á ég að fara á eftir Filistum? Munt þú gefa þá í hendur Ísrael?`` En hann svaraði honum engu þann dag.

    14:38 Þá sagði Sál: ,,Gangið hingað, allir höfðingjar fólksins, og grennslist eftir og komist að raun um, hver drýgt hefir þessa synd í dag.

    14:39 Því að svo sannarlega sem Drottinn lifir, sá er veitt hefir Ísrael sigur, þó að það væri Jónatan sonur minn, sem hefði drýgt hana, þá skyldi hann láta lífið.`` En enginn svaraði honum af öllu fólkinu.

    14:40 Þá sagði hann við allan Ísrael: ,,Verið þér öðrumegin, en ég og Jónatan sonur minn skulum vera hinumegin.`` Lýðurinn sagði við Sál: ,,Gjör þú sem þér gott þykir.``

    14:41 Þá mælti Sál: ,,Drottinn, Ísraels Guð, hví svaraðir þú ekki þjóni þínum í dag? Ef þessi misgjörð hvílir á mér eða Jónatan syni mínum, Drottinn, Ísraels Guð, þá lát þú úrím koma upp, en ef hún hvílir á lýð þínum Ísrael, þá lát þú túmmím koma upp.`` Þá kom upp hlutur Jónatans og Sáls, en fólkið gekk undan.

    14:42 Og Sál mælti: ,,Hlutið með mér og Jónatan syni mínum!`` Kom þá upp hlutur Jónatans.

    14:43 Og Sál sagði við Jónatan: ,,Segðu mér, hvað hefir þú gjört?`` Þá sagði Jónatan honum frá því og mælti: ,,Ég bragðaði aðeins ögn af hunangi á stafsendanum, sem ég hafði í hendinni. Sjá, hér er ég, fyrir það á ég að láta lífið?``

    14:44 Sál svaraði: ,,Guð gjöri við mig það, er hann vill: lífið verður þú að láta, Jónatan!``

    14:45 En lýðurinn sagði við Sál: ,,Á Jónatan að láta lífið, hann sem unnið hefir þennan mikla sigur í Ísrael? Fjarri sé það! Svo sannarlega sem Drottinn lifir, skal ekki eitt höfuðhár hans falla til jarðar, því að með Guðs hjálp hefir hann unnið í dag.`` Og fólkið leysti Jónatan út undan lífláti.

    14:46 Og Sál kom aftur, er hann hafði elt Filista, en Filistar fóru heim til sín.

    14:47 Þá er Sál hafði hlotið konungdóm yfir Ísrael, háði hann ófrið við alla óvini sína allt í kring: við Móab, við Ammóníta, við Edóm, við konunginn í Sóba og við Filista, og hvert sem hann sneri sér, vann hann sigur.

    14:48 Hann sýndi og hreysti og vann sigur á Amalek og frelsaði Ísrael af hendi þeirra, er rændu hann.

    14:49 Synir Sáls voru Jónatan, Jísví og Malkísúa; og dætur hans tvær hétu: hin eldri Merab og hin yngri Míkal.

    14:50 Og kona Sáls hét Ahínóam, dóttir Ahímaas. Og hershöfðingi hans hét Abner, sonur Ners, föðurbróður Sáls.

    14:51 Því að Kís, faðir Sáls, og Ner, faðir Abners, voru synir Abíels.

    14:52 Og ófriðurinn við Filista var harður alla ævi Sáls, og sæi Sál einhvern kappa eða eitthvert hraustmenni, þá tók hann þann mann í sína sveit.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine