3:1 Sveinninn Samúel gegndi þjónustu Drottins hjá Elí. Orð frá Drottni var sjaldgæft á þeim dögum, vitranir voru þá fátíðar.
3:2 Þá bar svo til einn dag, að Elí svaf á sínum vanalega stað. En augu hans voru tekin að daprast, svo að hann var hættur að sjá,
3:3 og enn var ekki slokknað á Guðs lampa, en Samúel svaf í musteri Drottins, þar sem Guðs örk var.
3:4 Þá kallaði Drottinn á Samúel. Hann svaraði: ,,Hér er ég.``
3:5 Og hann hljóp til Elí og sagði: ,,Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.`` En Elí sagði: ,,Ég hefi ekki kallað. Far þú aftur að sofa.`` Fór hann þá og lagðist til svefns.
3:6 En Drottinn kallaði enn að nýju: ,,Samúel!`` Og Samúel reis upp og fór til Elí og sagði: ,,Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.`` En hann sagði: ,,Ég hefi ekki kallað, sonur minn. Leggst þú aftur til svefns.``
3:7 En Samúel þekkti ekki enn Drottin, og honum hafði ekki enn birst orð frá Drottni.
3:8 Þá kallaði Drottinn enn á Samúel, í þriðja skiptið. Og hann reis upp og fór til Elí og sagði: ,,Hér er ég, því að þú kallaðir á mig.`` Þá skildi Elí, að það var Drottinn, sem var að kalla á sveininn.
3:9 Fyrir því sagði Elí við Samúel: ,,Far þú og leggstu til svefns, og verði nú á þig kallað, þá svara þú: ,Tala þú, Drottinn, því að þjónn þinn heyrir.``` Fór Samúel þá og lagðist til svefns á sínum stað.
3:10 Þá kom Drottinn og gekk fram og kallaði sem hin fyrri skiptin: ,,Samúel! Samúel!`` Og Samúel svaraði: ,,Tala þú, því að þjónn þinn heyrir.``
3:11 Drottinn mælti þá við Samúel: ,,Þá hluti mun ég gjöra í Ísrael, að óma mun fyrir báðum eyrum allra þeirra, er það heyra.
3:12 Á þeim degi mun ég láta fram koma á Elí allt það, er ég hefi talað um hús hans _ frá upphafi til enda.
3:13 Því að ég hefi kunngjört honum, að ég muni dæma hús hans að eilífu vegna misgjörðar þeirrar, er honum var kunn, að synir hans leiddu bölvun yfir sig, og þó hafði hann ekki taum á þeim.
3:14 Og fyrir því hefi ég svarið húsi Elí: Sannlega skal eigi verða friðþægt fyrir misgjörð Elí húss með sláturfórn eða matfórn að eilífu.``
3:15 Lá Samúel nú kyrr allt til morguns. Og um morguninn reis hann árla og lauk upp dyrunum á húsi Drottins. En Samúel þorði ekki að segja Elí frá sýninni.
3:16 Elí kallaði á Samúel og sagði: ,,Samúel, sonur minn!`` Hann svaraði: ,,Hér er ég.``
3:17 Elí sagði: ,,Hvað var það, sem hann talaði við þig? Leyndu mig því ekki. Guð láti þig gjalda þess nú og síðar, ef þú leynir mig nokkru af því, sem hann talaði við þig.``
3:18 Þá sagði Samúel honum allt saman og leyndi hann engu. En Elí sagði: ,,Hann er Drottinn. Gjöri hann það, sem honum þóknast!``
3:19 Samúel óx, og Drottinn var með honum og lét ekkert af því, er hann hafði boðað, falla til jarðar.
3:20 Og allur Ísrael frá Dan til Beerseba kannaðist við, að Samúel væri falið að vera spámaður Drottins.
3:21 Og Drottinn hélt áfram að birtast í Síló, og Drottinn opinberaðist Samúel í Síló með orði sínu.