5:1 Ávíta þú ekki aldraðan mann harðlega, heldur áminn hann sem föður, yngri menn sem bræður,
5:2 aldraðar konur sem mæður, ungar konur sem systur í öllum hreinleika.
5:3 Heiðra ekkjur, sem í raun og veru eru ekkjur.
5:4 En ef einhver ekkja á börn eða barnabörn, þá læri þau fyrst og fremst að sýna rækt eigin heimili og endurgjalda foreldrum sínum, því að það er þóknanlegt fyrir augliti Guðs.
5:5 Sú sem er í raun og veru ekkja og er orðin munaðarlaus, festir von sína á Guði og er stöðug í ákalli og bænum nótt og dag.
5:6 En hin bílífa er dauð, þó að hún lifi.
5:7 Brýn þetta fyrir þeim, til þess að þær séu óaðfinnanlegar.
5:8 En ef einhver sér eigi fyrir sínum, sérstaklega heimilismönnum, þá hefur hann afneitað trúnni og er verri en vantrúaður.
5:9 Ekkja sé ekki tekin á skrá yfir ekkjur nema hún sé orðin fullra sextíu ára, eingift
5:10 og lofsamlega kunn að góðum verkum. Hún verður að hafa fóstrað börn, sýnt gestrisni, þvegið fætur heilagra, hjálpað bágstöddum og lagt stund á hvert gott verk.
5:11 En tak ekki við ungum ekkjum. Þegar þær verða gjálífar afrækja þær Krist, vilja giftast
5:12 og gerast þá sekar um að brjóta sitt fyrra heit.
5:13 Og jafnframt temja þær sér iðjuleysi, rápandi hús úr húsi, ekki einungis iðjulausar, heldur einnig málugar og hlutsamar og tala það, sem eigi ber að tala.
5:14 Ég vil því að ungar ekkjur giftist, ali börn, stjórni heimili og gefi mótstöðumanninum ekkert tilefni til illmælis.
5:15 Nokkrar hafa þegar horfið frá til fylgis við Satan.
5:16 Ef trúuð kona á fyrir ekkjum að sjá, skal hún sjá fyrir þeim, og eigi hafi söfnuðurinn þyngsli af, til þess að hann geti veitt hjálpina þeim, sem ekkjur eru og einstæðar.
5:17 Öldungar þeir, sem veita góða forstöðu, séu hafðir í tvöföldum metum, allra helst þeir sem erfiða í orðinu og í kennslu.
5:18 Því að ritningin segir: ,,Þú skalt ekki múlbinda uxann, er hann þreskir`` og ,,verður er verkamaðurinn launa sinna.``
5:19 Tak þú ekki við kæru gegn öldungi, nema tveir eða þrír vottar beri.
5:20 Ávíta brotlega í viðurvist allra, til þess að hinir megi hafa ótta.
5:21 Ég heiti á þig fyrir augliti Guðs og Krists Jesú og hinna útvöldu engla, að þú gætir þessa án nokkurs fordóms og gjörir ekkert af vilfylgi.
5:22 Eigi skalt þú fljótráðið leggja hendur yfir nokkurn mann. Tak eigi heldur þátt í annarra syndum, varðveit sjálfan þig hreinan.
5:23 Ver þú ekki lengur að drekka vatn, heldur skalt þú neyta lítils eins af víni vegna magans og veikinda þinna, sem eru svo tíð.
5:24 Syndirnar hjá sumum mönnum eru í augum uppi og eru komnar á undan, þegar dæma skal. En hjá sumum koma þær líka á eftir.
5:25 Á sama hátt eru góðverkin augljós, og þau, sem eru það ekki, munu ekki geta dulist.