Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - 2KINGS 15

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    15:1 Á tuttugasta og sjöunda ríkisári Jeróbóams Ísraelskonungs tók ríki Asaría sonur Amasía Júdakonungs.

    15:2 Hann var sextán vetra gamall, er hann varð konungur, og fimmtíu og tvö ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jekolja og var frá Jerúsalem.

    15:3 Hann gjörði það sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Amasía faðir hans.

    15:4 Þó voru fórnarhæðirnar eigi afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum.

    15:5 Og Drottinn sló konung, svo að hann varð líkþrár til dauðadags. Bjó hann kyrr í höll sinni, einn sér, en Jótam konungsson veitti forstöðu höllinni og dæmdi mál landsmanna.

    15:6 Það sem meira er að segja um Asaría og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

    15:7 Og Asaría lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í Davíðsborg. Og Jótam sonur hans tók ríki eftir hann.

    15:8 Á þrítugasta og áttunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Sakaría Jeróbóamsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti sex mánuði.

    15:9 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, svo sem gjört höfðu forfeður hans. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

    15:10 Sallúm Jabesson hóf samsæri gegn honum og drap hann í Jibleam og tók ríki eftir hann.

    15:11 Það sem meira er að segja um Sakaría, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

    15:12 Rættist þannig orð Drottins, það er hann hafði talað til Jehú: ,Niðjar þínir í fjórða lið skulu sitja í hásæti Ísraels.` Og það varð svo.

    15:13 Sallúm Jabesson varð konungur á þrítugasta og níunda ríkisári Ússía Júdakonungs og ríkti mánaðartíma í Samaríu.

    15:14 Þá fór Menahem Gadíson frá Tirsa, kom til Samaríu og drap Sallúm Jabesson í Samaríu og tók ríki eftir hann.

    15:15 Það sem meira er að segja um Sallúm og samsærið, sem hann hóf, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

    15:16 Þá eyddi Menahem Tappúa og öllu, sem í henni var, og allt landið umhverfis hana frá Tirsa, af því að menn höfðu eigi lokið borgarhliðum upp fyrir honum, og allar þungaðar konur í borginni lét hann rista á kvið.

    15:17 Á þrítugasta og níunda ríkisári Asaría Júdakonungs varð Menahem Gadíson konungur yfir Ísrael og ríkti tíu ár í Samaríu.

    15:18 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af neinum syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

    15:19 Á hans dögum réðst Púl Assýríukonungur inn í landið, og Menahem gaf Púl þúsund talentur silfurs til liðsinnis við sig og til þess að tryggja konungdóm sinn.

    15:20 Bauð Menahem öllum Ísrael, öllum auðmönnum, að greiða Assýríukonungi féð: fimmtíu sikla silfurs hverjum. Sneri þá Assýríukonungur heim aftur og hafði eigi lengri dvöl þar í landi.

    15:21 Það sem meira er að segja um Menahem og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

    15:22 Og Menahem lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum, og Pekaja sonur hans tók ríki eftir hann.

    15:23 Á fimmtugasta ríkisári Asaría Júdakonungs varð Pekaja Menahemsson konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tvö ár.

    15:24 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét eigi af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

    15:25 Peka Remaljason riddari hans hóf samsæri gegn honum og drap hann í Samaríu, í vígi konungshallarinnar, ásamt Argób og Arje, og voru fimmtíu manns af Gíleaðítum með honum. Og er hann hafði stytt honum aldur, tók hann ríki eftir hann.

    15:26 Það sem meira er að segja um Pekaja og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

    15:27 Á fimmtugasta og öðru ríkisári Asaría Júdakonungs varð Peka Remaljason konungur yfir Ísrael í Samaríu og ríkti tuttugu ár.

    15:28 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins. Hann lét ekki af syndum Jeróbóams Nebatssonar, þeim er hann hafði komið Ísrael til að drýgja.

    15:29 Á dögum Peka Ísraelskonungs kom Tíglat Píleser Assýríukonungur og tók Íjón, Abel Bet Maaka, Janóa, Kedes, Hasór, Gíleað og Galíleu, allt Naftalíland, og herleiddi íbúana til Assýríu.

    15:30 Þá hóf Hósea Elason samsæri gegn Peka Remaljasyni, drap hann og tók ríki eftir hann, á tuttugasta ríkisári Jótams Ússíasonar.

    15:31 Það sem meira er að segja um Peka og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Ísraelskonunga.

    15:32 Á öðru ríkisári Peka Remaljasonar Ísraelskonungs tók ríki Jótam, sonur Ússía Júdakonungs.

    15:33 Hann var tuttugu og fimm ára gamall, þá er hann varð konungur, og sextán ár ríkti hann í Jerúsalem. Móðir hans hét Jerúsa Sadóksdóttir.

    15:34 Hann gjörði það, sem rétt var í augum Drottins, með öllu svo sem gjört hafði Ússía faðir hans.

    15:35 Þó voru fórnarhæðirnar ekki afnumdar. Enn þá fórnaði lýðurinn sláturfórnum og reykelsisfórnum á hæðunum. Hann reisti efra hliðið á musteri Drottins.

    15:36 Það sem meira er að segja um Jótam og allt, sem hann gjörði, það er ritað í Árbókum Júdakonunga.

    15:37 Um þær mundir tók Drottinn að hleypa þeim Resín Sýrlandskonungi og Peka Remaljasyni á Júda.

    15:38 Og Jótam lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var grafinn hjá feðrum sínum í borg Davíðs forföður síns. Og Akas sonur hans tók ríki eftir hann.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine