3:3 kærleikslausir, ósáttfúsir, rógberandi, taumlausir, grimmir, ekki elskandi það sem gott er,
3:4 sviksamir, framhleypnir, ofmetnaðarfullir, elskandi munaðarlífið meira en Guð.
3:5 Þeir hafa á sér yfirskin guðhræðslunnar, en afneita krafti hennar. Snú þér burt frá slíkum!
3:6 Úr hópi þeirra eru mennirnir, sem smeygja sér inn á heimilin og ná á band sitt kvensniftum, sem syndum eru hlaðnar og leiðast af margvíslegum fýsnum.
3:7 Þær eru alltaf að reyna að læra, en geta aldrei komist til þekkingar á sannleikanum.
3:8 Eins og þeir Jannes og Jambres stóðu í gegn Móse, þannig standa og þessir menn í gegn sannleikanum. Þeir eru menn hugspilltir og óhæfir í trúnni.
3:9 En þeim mun ekki verða ágengt, því að heimska þeirra mun verða hverjum manni augljós, eins og líka heimska hinna varð.
3:10 Þú hefur breytt eftir mér í kenningu, hegðun, ásetningi, trú, langlyndi, kærleika, þolgæði,
3:11 í ofsóknum og þjáningum, slíkum sem fyrir mig komu í Antíokkíu, í Íkóníum og í Lýstru. Slíkar ofsóknir þoldi ég, og Drottinn frelsaði mig úr þeim öllum.
3:12 Já, allir, sem lifa vilja guðrækilega í samfélagi við Krist Jesú, munu ofsóttir verða.
3:13 En vondir menn og svikarar munu magnast í vonskunni, villandi aðra og villuráfandi sjálfir.
3:14 En halt þú stöðuglega við það, sem þú hefur numið og hefur fest trú á, þar eð þú veist af hverjum þú hefur numið það.
3:15 Þú hefur frá blautu barnsbeini þekkt heilagar ritningar. Þær geta veitt þér speki til sáluhjálpar fyrir trúna á Krist Jesú.
3:16 Sérhver ritning er innblásin af Guði og nytsöm til fræðslu, til umvöndunar, til leiðréttingar, til menntunar í réttlæti,
3:17 til þess að sá, sem tilheyrir Guði, sé albúinn og hæfur gjör til sérhvers góðs verks.