13:1 Í söfnuðinum í Antíokkíu voru spámenn og kennarar. Þar voru þeir Barnabas, Símeon, nefndur Níger, Lúkíus frá Kýrene, Manaen, samfóstri Heródesar fjórðungsstjóra, og Sál.
13:2 Eitt sinn er þeir voru að þjóna Drottni og föstuðu sagði heilagur andi: ,,Skiljið frá mér til handa þá Barnabas og Sál til þess verks, sem ég hef kallað þá til.``
13:3 Síðan föstuðu þeir og báðust fyrir, lögðu hendur yfir þá og létu þá fara.
13:4 Þeir fóru nú, sendir af heilögum anda, til Selevkíu og sigldu þaðan til Kýpur.
13:5 Þegar þeir voru komnir til Salamis, boðuðu þeir orð Guðs í samkunduhúsum Gyðinga. Höfðu þeir og Jóhannes til aðstoðar.
13:6 Þeir fóru um alla eyna, allt til Pafos. Þar fundu þeir töframann nokkurn og falsspámann, Gyðing, er hét Barjesús.
13:7 Hann var hjá landstjóranum Sergíusi Páli, hyggnum manni, sem hafði boðað þá Barnabas og Sál á fund sinn og fýsti að heyra Guðs orð.
13:8 Gegn þeim stóð Elýmas, töframaðurinn, en svo er nafn hans útlagt. Reyndi hann að gjöra landstjórann fráhverfan trúnni.
13:9 En Sál, sem og er nefndur Páll, hvessti á hann augun og sagði, fylltur heilögum anda:
13:10 ,,Þú djöfuls sonur, fullur allra véla og flærðar, óvinur alls réttlætis, ætlar þú aldrei að hætta að rangsnúa réttum vegum Drottins?
13:11 Nú er hönd Drottins reidd gegn þér, og þú munt verða blindur og ekki sjá sól um tíma.`` Jafnskjótt féll yfir hann þoka og myrkur, og hann reikaði um og leitaði einhvers til að leiða sig.
13:12 Þegar landstjórinn sá þennan atburð, varð hann gagntekinn af kenningu Drottins og tók trú.
13:13 Þeir Páll lögðu út frá Pafos og komu til Perge í Pamfýlíu, en Jóhannes skildi við þá og sneri aftur til Jerúsalem.
13:14 Sjálfir héldu þeir áfram frá Perge og komu til Antíokkíu í Pisidíu, gengu á hvíldardegi inn í samkunduhúsið og settust.
13:15 En eftir upplestur úr lögmálinu og spámönnunum sendu samkundustjórarnir til þeirra og sögðu: ,,Bræður, ef þér hafið einhver hvatningarorð til fólksins, takið þá til máls.``
13:16 Þá stóð Páll upp, benti til hljóðs með hendinni og sagði: ,,Ísraelsmenn og aðrir þér, sem óttist Guð, hlýðið á.
13:17 Guð lýðs þessa, Ísraels, útvaldi feður vora og hóf upp lýðinn í útlegðinni í Egyptalandi. Með upplyftum armi leiddi hann þá út þaðan.
13:18 Og um fjörutíu ára skeið fóstraði hann þá í eyðimörkinni.
13:19 Hann stökkti burt sjö þjóðum úr Kanaanslandi og gaf þeim land þeirra til eignar.
13:20 Svo stóð um fjögur hundruð og fimmtíu ára skeið. Eftir þetta gaf hann þeim dómara allt til Samúels spámanns.
13:21 Síðan báðu þeir um konung, og Guð gaf þeim Sál Kísson, mann af Benjamíns ætt. Hann ríkti í fjörutíu ár.
13:22 Þegar Guð hafði sett hann af, hóf hann Davíð til konungs yfir þeim. Um hann vitnaði hann: ,Ég hef fundið Davíð, son Ísaí, mann eftir mínu hjarta, er gjöra mun allan vilja minn.`
13:23 Af kyni hans sendi Guð Ísrael frelsara, Jesú, samkvæmt fyrirheiti.
13:24 En áður en hann kom fram, boðaði Jóhannes öllum Ísraelslýð iðrunarskírn.
13:25 Þegar Jóhannes var að enda skeið sitt, sagði hann: ,Hvern hyggið þér mig vera? Ekki er ég hann. Annar kemur eftir mig, og er ég eigi verður þess að leysa skó af fótum honum.`
13:26 Bræður, niðjar Abrahams, og aðrir yðar á meðal, sem óttist Guð, oss er sent orð þessa hjálpræðis.
13:27 Þeir, sem í Jerúsalem búa, og höfðingjar þeirra þekktu hann eigi né skildu orð spámannanna, sem upp eru lesin hvern hvíldardag, en uppfylltu þau með því að dæma hann.
13:28 Þótt þeir fyndu enga dauðasök hjá honum, báðu þeir Pílatus að láta lífláta hann.
13:29 En er þeir höfðu fullnað allt, sem um hann var ritað, tóku þeir hann ofan af krossinum og lögðu í gröf.
13:30 En Guð vakti hann frá dauðum.
13:31 Marga daga birtist hann þeim, sem með honum fóru frá Galíleu upp til Jerúsalem, og eru þeir nú vottar hans hjá fólkinu.
13:32 Og vér flytjum yður þau gleðiboð,
13:33 að fyrirheitið, sem Guð gaf feðrum vorum, hefur hann efnt við oss börn þeirra með því að reisa Jesú upp. Svo er ritað í öðrum sálminum: Þú ert sonur minn, í dag hef ég fætt þig.
13:34 En um það, að hann reisti hann frá dauðum, svo að hann hverfur aldrei aftur í greipar dauðans, hefur hann talað þannig: Yður mun ég veita heilögu, óbrigðulu fyrirheitin, sem Davíð voru gefin.
13:35 Á öðrum stað segir: Eigi munt þú láta þinn heilaga verða rotnun að bráð.
13:36 Davíð þjónaði sinni kynslóð að Guðs ráði. Síðan sofnaði hann, safnaðist til feðra sinna og varð rotnun að bráð.
13:37 En sá, sem Guð uppvakti, varð ekki rotnun að bráð.
13:38 Það skuluð þér því vita, bræður, að yður er fyrir hann boðuð fyrirgefning syndanna
13:39 og að sérhver, er trúir, réttlætist í honum af öllu því, er lögmál Móse gat ekki réttlætt yður af.
13:40 Gætið nú þess, að eigi komi það yfir yður, sem sagt er hjá spámönnunum:
13:41 Sjáið, þér spottarar, undrist, og verðið að engu, því að verk vinn ég á dögum yðar, verk, sem þér alls ekki munduð trúa, þótt einhver segði yður frá því.``
13:42 Þegar þeir gengu út, báðu menn um, að mál þetta yrði rætt við þá aftur næsta hvíldardag.
13:43 Og er samkomunni var slitið, fylgdu margir Gyðingar og guðræknir menn, sem tekið höfðu trú Gyðinga, þeim Páli og Barnabasi. En þeir töluðu við þá og brýndu fyrir þeim að halda sér fast við náð Guðs.
13:44 Næsta hvíldardag komu nálega allir bæjarmenn saman til að heyra orð Drottins.
13:45 En er Gyðingar litu mannfjöldann, fylltust þeir ofstæki og mæltu gegn orðum Páls með guðlasti.
13:46 Páll og Barnabas svöruðu þá einarðlega: ,,Svo hlaut að vera, að orð Guðs væri fyrst flutt yður. Þar sem þér nú vísið því á bug og metið sjálfa yður ekki verða eilífs lífs, þá snúum vér oss nú til heiðingjanna.
13:47 Því að svo hefur Drottinn boðið oss: Ég hef sett þig til að vera ljós heiðinna þjóða, að þú sért hjálpræði allt til endimarka jarðar.``
13:48 En er heiðingjar heyrðu þetta, glöddust þeir og vegsömuðu orð Guðs, og allir þeir, sem ætlaðir voru til eilífs lífs, tóku trú.
13:49 Og orð Drottins breiddist út um allt héraðið.
13:50 En Gyðingar æstu upp guðræknar hefðarkonur og fyrirmenn borgarinnar og vöktu ofsókn gegn Páli og Barnabasi og ráku þá burt úr byggðum sínum.
13:51 En þeir hristu dustið af fótum sér móti þeim og fóru til Íkóníum.
13:52 En lærisveinarnir voru fylltir fögnuði og heilögum anda.