Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - DEUTERONOMY 12

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    12:1 Þetta eru lög þau og ákvæði, sem þér skuluð gæta að breyta eftir í landi því, sem Drottinn, Guð feðra þinna, gefur þér til eignar, alla þá daga sem þér lifið á jörðinni.

    12:2 Þér skuluð gjöreyða alla þá staði, þar sem þjóðirnar, er þér leggið undir yður, hafa dýrkað guði sína, á háum fjöllum, á hæðum og undir hverju grænu tré.

    12:3 Þér skuluð rífa niður ölturu þeirra, brjóta í sundur merkissteina þeirra, brenna asérur þeirra í eldi, höggva sundur skurðlíkneski guða þeirra og afmá nafn þeirra úr þeim stað.

    12:4 Eigi skuluð þér svo breyta við Drottin Guð yðar,

    12:5 heldur skuluð þér leita til þess staðar, sem Drottinn Guð yðar mun til velja úr öllum kynkvíslum yðar til þess að láta nafn sitt búa þar, og þangað skalt þú fara.

    12:6 Þangað skuluð þér færa brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það, sem þér færið að fórnargjöf, heitfórnir yðar og sjálfviljafórnir, og frumburði nautgripa yðar og sauðfénaðar.

    12:7 Og þar skuluð þér halda fórnarmáltíð frammi fyrir Drottni Guði yðar og gleðja yður ásamt fjölskyldum yðar yfir öllu því, er þér hafið aflað, yfir því, sem Drottinn Guð þinn hefir blessað þig með.

    12:8 Þér megið ekki hegða yður þá eins og vér hegðum oss hér nú, er hver gjörir það, sem honum gott þykir,

    12:9 því að þér eruð ekki enn komnir á hvíldarstaðinn né til arfleifðarinnar, sem Drottinn Guð þinn gefur þér.

    12:10 En þegar þér eruð komnir yfir Jórdan og hafið setst að í landinu, sem Drottinn Guð yðar lætur yður fá til eignar, og þegar hann hefir veitt yður frið fyrir öllum óvinum yðar allt í kring og þér búið óhultir,

    12:11 þá skal sá staður, er Drottinn Guð yðar velur til þess að láta nafn sitt búa þar, vera staðurinn, sem þér færið til allt sem ég býð yður: brennifórnir yðar og sláturfórnir, tíundir yðar og það sem þér færið að fórnargjöf og allar útvaldar heitfórnir yðar, er þér heitið Drottni.

    12:12 Og þér skuluð gleðjast frammi fyrir Drottni Guði yðar, þér og synir yðar og dætur, þrælar yðar og ambáttir, ásamt levítunum, sem eru innan borgarhliða yðar, því að þeir hafa eigi hlutskipti né óðal með yður.

    12:13 Gæt þín, að þú fórnir ekki brennifórnum þínum á hverjum þeim stað, er þér ræður við að horfa,

    12:14 heldur á þeim stað, er Drottinn velur í einhverri af kynkvíslum þínum. Þar skalt þú fórna brennifórnum þínum og þar skalt þú gjöra allt það, sem ég býð þér.

    12:15 Þó mátt þú slátra og eta kjöt eftir eigin vild þinni innan allra borgarhliða þinna, eftir þeirri blessun, er Drottinn Guð þinn gefur þér. Bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það, sem væri það skógargeit eða hjörtur.

    12:16 Aðeins megið þér ekki eta blóðið; þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

    12:17 Þú mátt eigi eta innan borgarhliða þinna tíund af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni, né frumburði nautgripa þinna og sauðfénaðar, né nokkuð af heitfórnum þínum, er þú hefir heitið, né sjálfviljafórnir þínar, né nokkuð, sem þú færir að fórnargjöf,

    12:18 heldur skalt þú eta það frammi fyrir Drottni Guði þínum, á þeim stað, sem Drottinn Guð þinn velur, þú og sonur þinn og dóttir þín og þræll þinn og ambátt þín og levítinn, sem er innan borgarhliða þinna, og þú skalt gleðjast frammi fyrir Drottni Guði þínum yfir öllu því, sem þú hefir aflað.

    12:19 Gæt þín, að þú setjir ekki levítana hjá alla þá daga, sem þú lifir í landi þínu.

    12:20 Þegar Drottinn Guð þinn færir út landamerki þín, eins og hann hefir heitið þér, og þú segir: ,,Ég vil eta kjöt!`` af því að þig lystir að eta kjöt, þá mátt þú eta kjöt, eins og þig lystir.

    12:21 Ef sá staður, sem Drottinn Guð þinn velur til þess að láta nafn sitt búa þar, er mjög langt í burtu frá þér, þá skalt þú slátra af nautum þínum og sauðum, sem Drottinn hefir gefið þér, eins og ég hefi fyrir þig lagt, og þú skalt eta það innan borgarhliða þinna eins og þig lystir.

    12:22 Aðeins skalt þú eta það eins og menn eta skógargeit eða hjört; bæði óhreinn maður og hreinn mega eta það.

    12:23 Þó skalt þú varast það grandgæfilega að neyta blóðsins, því að blóðið er lífið, og þú skalt ekki eta lífið með kjötinu.

    12:24 Þú skalt ekki neyta þess, þú skalt hella því á jörðina sem vatni.

    12:25 Þú skalt ekki neyta þess, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig, er þú gjörir það sem rétt er í augum Drottins.

    12:26 En helgigjafir þínar, þær er þér ber að færa, og heitfórnir þínar skalt þú taka og fara með þær til þess staðar, sem Drottinn velur.

    12:27 Og þú skalt fram bera brennifórnir þínar, kjötið og blóðið, á altari Drottins Guðs þíns, og blóðinu úr sláturfórnum þínum skal hella á altari Drottins Guðs þíns, en kjötið skalt þú eta.

    12:28 Varðveit þú og hlýð þú öllum þessum boðorðum, sem ég legg fyrir þig, svo að þér vegni vel og börnum þínum eftir þig ævinlega, er þú gjörir það, sem gott er og rétt í augum Drottins Guðs þíns.

    12:29 Þegar Drottinn Guð þinn upprætir þær þjóðir fyrir þér, er þú heldur nú til, til þess að leggja þær undir þig, og er þú hefir lagt þær undir þig og ert setstur að í landi þeirra,

    12:30 þá gæt þín, að þú freistist ekki til þess að taka upp siðu þeirra, eftir að þeir eru eyddir burt frá þér, og að þú farir ekki að spyrjast fyrir um guði þeirra og segja: ,,Hvernig dýrkuðu þessar þjóðir guði sína, svo að ég geti og farið eins að?``

    12:31 Þú skalt eigi breyta svo við Drottin Guð þinn, því að allt sem andstyggilegt er Drottni, það er hann hatar, hafa þær gjört til heiðurs guðum sínum, því að jafnvel sonu sína og dætur hafa þær brennt í eldi til heiðurs guðum sínum.

    12:32 Þér skuluð gæta þess að halda öll þau boðorð, sem ég legg fyrir yður. Þú skalt engu auka við þau né heldur draga nokkuð undan.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine