18:1 Eigi skulu levítaprestarnir, öll kynkvísl Leví, fá hlut og óðal með Ísrael. Á eldfórnum Drottins og erfðahluta hans skulu þeir lifa.
18:2 En óðal skulu þeir eigi fá meðal bræðra sinna. Drottinn er óðal þeirra, eins og hann hefir heitið þeim.
18:3 Þessi skulu vera réttindi prestanna af hálfu lýðsins, af hálfu þeirra manna, er fórna sláturfórn, hvort heldur er nauti eða sauð: Presti skal gefa bóginn, báða kjammana og vinstrina.
18:4 Frumgróðann af korni þínu, aldinlegi þínum og olíu þinni og fyrstu ullina, sem þú klippir af sauðfé þínu, skalt þú gefa honum.
18:5 Því að Drottinn Guð þinn hefir útvalið hann af öllum kynkvíslum þínum, til þess að hann og synir hans gegni þjónustu í nafni Drottins alla daga.
18:6 Nú kemur levíti úr einhverri af borgum þínum í öllum Ísrael, þar er hann dvelur sem útlendingur _ og hann má koma eftir vild sinni _ til þess staðar, er Drottinn velur,
18:7 og má hann þá gegna þjónustu í nafni Drottins Guðs síns eins og allir bræður hans, levítarnir, er standa þar frammi fyrir Drottni.
18:8 Þeir skulu fá jafnan hlut til viðurværis, án tillits til þess, er hann fær fyrir selda séreign sína.
18:9 Þegar þú kemur inn í landið, sem Drottinn Guð þinn gefur þér, þá skalt þú ekki taka upp svívirðingar þessara þjóða.
18:10 Eigi skal nokkur finnast hjá þér, sá er láti son sinn eða dóttur ganga gegnum eldinn, eða sá er fari með galdur eða spár eða fjölkynngi, eða töframaður
18:11 eða gjörningamaður eða særingamaður eða spásagnamaður eða sá er leiti frétta af framliðnum.
18:12 Því að hver sá, er slíkt gjörir, er Drottni andstyggilegur, og fyrir slíkar svívirðingar rekur Drottinn Guð þinn þá burt undan þér.
18:13 Þú skalt vera grandvar gagnvart Drottni Guði þínum.
18:14 Því að þessar þjóðir, er þú rekur nú burt, hlýða á spásagnamenn og galdramenn, en þér hefir Drottinn Guð þinn eigi leyft slíkt.
18:15 Spámann mun Drottinn Guð þinn upp vekja meðal þín, af bræðrum þínum, slíkan sem ég er. Á hann skuluð þér hlýða.
18:16 Mun þannig fyllilega rætast það, er þú baðst Drottin Guð þinn um hjá Hóreb, daginn sem þér voruð þar saman komnir, er þú sagðir: ,,Eigi vildi ég lengur þurfa að heyra raust Drottins Guðs míns né oftar að sjá þennan mikla eld, svo að ég deyi ekki.``
18:17 Þá sagði Drottinn við mig: ,,Vel er það mælt, sem þeir segja.
18:18 Ég vil upp vekja þeim spámann meðal bræðra þeirra, slíkan sem þú ert, og ég mun leggja honum mín orð í munn, og hann skal mæla til þeirra allt það, er ég býð honum.
18:19 Og hvern þann, er eigi vill hlýða á orð mín, þau er hann mun flytja í mínu nafni, hann mun ég krefja reikningsskapar.
18:20 En sá spámaður, sem dirfist að tala í mínu nafni það, er ég hefi eigi boðið honum að tala, og sá sem talar í nafni annarra guða, sá spámaður skal deyja.
18:21 Ef þú segir í hjarta þínu: ,Hvernig fáum vér þekkt úr þau orð, er Drottinn hefir ekki talað?`