8:1 Því næst sagði Drottinn við Móse: ,,Gakk fyrir Faraó og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef lýð mínum fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
8:2 En ef þú synjar honum fararleyfis, þá skal ég þjá allt þitt land með froskum.
8:3 Áin skal mora af froskum. Þeir skulu fara á land upp og skríða inn í höll þína og í svefnherbergi þitt og upp í rekkju þína, inn í hús þjóna þinna og upp á fólk þitt, í bakstursofna þína og deigtrog.
8:4 Og froskarnir skulu skríða upp á þig og fólk þitt og upp á alla þjóna þína.```
8:5 Og Drottinn sagði við Móse: ,,Seg við Aron: ,Rétt út hönd þína og hald staf þínum uppi yfir fljótunum, ánum og tjörnunum, og lát froska koma yfir Egyptaland.```
8:6 Aron rétti út hönd sína yfir vötn Egyptalands. Komu þá upp froskar og huldu Egyptaland.
8:7 En spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni og létu froska koma yfir Egyptaland.
8:8 Þá lét Faraó kalla Móse og Aron og sagði: ,,Biðjið Drottin, að hann láti þessa froska víkja frá mér og frá þjóð minni. Þá skal ég láta fólkið fara, að það megi færa Drottni fórnir.``
8:9 Móse sagði við Faraó: ,,Þér skal veitast sú virðing að ákveða, nær ég skuli biðja fyrir þér og fyrir þjónum þínum og fyrir fólki þínu, að froskarnir víki frá þér og úr húsum þínum og verði hvergi eftir nema í ánni.``
8:10 Hann svaraði: ,,Á morgun.`` Og Móse sagði: ,,Svo skal vera sem þú mælist til, svo að þú vitir, að enginn er sem Drottinn, Guð vor.
8:11 Froskarnir skulu víkja frá þér og úr húsum þínum, frá þjónum þínum og frá fólki þínu. Hvergi nema í ánni skulu þeir eftir verða.``
8:12 Síðan gengu þeir Móse og Aron burt frá Faraó og Móse ákallaði Drottin út af froskunum, sem hann hafði koma látið yfir Faraó.
8:13 Og Drottinn gjörði sem Móse beiddist, og dóu froskarnir í húsunum, í görðunum og á ökrunum.
8:14 Hrúguðu menn þeim saman í marga hauga, og varð af illur daunn í landinu.
8:15 En er Faraó sá að af létti, herti hann hjarta sitt og hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
8:16 Því næst sagði Drottinn við Móse: ,,Seg við Aron: ,Rétt út staf þinn og slá duft jarðarinnar, og skal það þá verða að mýi um allt Egyptaland.```
8:17 Þeir gjörðu svo. Rétti Aron út hönd sína og laust stafnum á duft jarðarinnar, og varð það að mýi á mönnum og fénaði. Allt duft jarðarinnar varð að mýi um allt Egyptaland.
8:18 Og spásagnamennirnir gjörðu slíkt hið sama með fjölkynngi sinni til þess að framleiða mý, en gátu ekki. En mýið lagðist bæði á menn og fénað.
8:19 Þá sögðu spásagnamennirnir við Faraó: ,,Þetta er Guðs fingur.`` En hjarta Faraós harðnaði, og hann hlýddi þeim ekki, eins og Drottinn hafði sagt.
8:20 Þá sagði Drottinn við Móse: ,,Rís upp árla á morgun og far til fundar við Faraó, er hann gengur til vatns, og seg við hann: ,Svo segir Drottinn: Gef fólki mínu fararleyfi, að þeir megi þjóna mér.
8:21 En leyfir þú eigi fólki mínu að fara, skal ég láta flugur koma yfir þig og þjóna þína, yfir fólk þitt og í hús þín, og hús Egypta skulu full verða af flugum og jafnvel jörðin undir fótum þeirra.
8:22 En á þeim degi vil ég undan taka Gósenland, þar sem mitt fólk hefst við, svo að þar skulu engar flugur vera, til þess að þú vitir, að ég er Drottinn á jörðunni.
8:23 Og ég vil gjöra aðskilnað milli míns fólks og þíns fólks. Á morgun skal þetta tákn verða.```
8:24 Og Drottinn gjörði svo. Kom þá fjöldi flugna í hús Faraós og hús þjóna hans og yfir allt Egyptaland, svo að landið spilltist af flugunum.
8:25 Þá lét Faraó kalla þá Móse og Aron og sagði: ,,Farið og færið fórnir Guði yðar hér innanlands.``
8:26 En Móse svaraði: ,,Ekki hæfir að vér gjörum svo, því að vér færum Drottni, Guði vorum, þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð. Ef vér nú bærum fram þær fórnir, sem eru Egyptum andstyggð, að þeim ásjáandi, mundu þeir þá ekki grýta oss?
8:27 Vér verðum að fara þrjár dagleiðir út á eyðimörkina til að færa fórnir Drottni, Guði vorum, eins og hann hefir boðið oss.``
8:28 Þá mælti Faraó: ,,Ég vil leyfa yður að fara burt, svo að þér færið fórnir Drottni, Guði yðar, á eyðimörkinni. Aðeins megið þér ekki fara of langt í burt. Biðjið fyrir mér!``
8:29 Móse svaraði: ,,Sjá, þegar ég kem út frá þér, vil ég biðja til Drottins, að flugurnar víki frá Faraó og frá þjónum hans og frá fólki hans á morgun. En þá má Faraó ekki oftar prettast um að leyfa fólkinu að fara burt til að færa Drottni fórnir.``
8:30 Þá gekk Móse út frá Faraó og bað til Drottins.
8:31 Og Drottinn gjörði sem Móse bað og lét flugurnar víkja frá Faraó og þjónum hans og fólki hans, svo að ekki ein varð eftir.
8:32 En Faraó herti þá enn hjarta sitt, og ekki leyfði hann fólkinu að fara.