2:1 Hann sagði við mig: ,,Þú mannsson, statt á fætur, að ég megi tala við þig.``
2:2 Þá kom andi í mig, er hann talaði þannig til mín, sem reisti mig á fætur, og ég heyrði til þess, er við mig talaði.
2:3 Og hann sagði við mig: ,,Þú mannsson, ég ætla að senda þig til Ísraelsmanna, til hinna fráhorfnu, þeirra er mér hafa gjörst fráhverfir. Þeir og feður þeirra hafa rofið trúna við mig allt fram á þennan dag.
2:4 Ég sendi þig til þeirra, sem eru þrjóskir á svip og harðir í hjarta, og þú skalt segja við þá: ,Svo segir Drottinn Guð!`
2:5 Og hvort sem þeir hlýða á það eða gefa því engan gaum _ því að þeir eru þverúðug kynslóð _ þá skulu þeir vita, að spámaður er á meðal þeirra.
2:6 En þú, mannsson, skalt ekki hræðast þá og ekki óttast orð þeirra, þótt netlur og þyrnar séu hjá þér og þótt þú búir meðal sporðdreka. Orð þeirra skalt þú ekki óttast og ekki skelfast fyrir augliti þeirra, því að þeir eru þverúðug kynslóð.
2:7 Heldur skalt þú tala orð mín til þeirra, hvort sem þeir hlýða á þau eða gefa þeim engan gaum, því að þeir eru þverúðin einber.
2:8 En þú, mannsson, heyr þú það, er ég tala til þín! Ver þú eigi einber þverúð, eins og hin þverúðuga kynslóð. Lúk upp munni þínum og et það, er ég fæ þér.``
2:9 Ég sá þá, að hönd var út rétt móti mér. Í henni var bókrolla.
2:10 Og hann rakti hana sundur fyrir mér, og var hún rituð bæði utan og innan, og voru á hana rituð harmljóð, andvörp og kveinstafir.