31:1 Og á ellefta árinu, hinn fyrsta dag hins þriðja mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
31:2 ,,Mannsson, seg við Faraó, Egyptalandskonung, og við glæsilið hans: Hverjum ertu líkur að mikilleik?
31:3 Sjá, sedrusviður óx á Líbanon. Greinar hans voru fagrar og laufið veitti mikla forsælu, hann var hávaxinn og náði topplimið upp í skýin.
31:4 Vatnsgnóttin hafði gjört hann stóran og flóðið hávaxinn, það leiddi strauma sína umhverfis gróðurreit hans og veitti vatnsrásum sínum til allra skógartrjánna.
31:5 Fyrir því var hann hávaxnari en öll skógartrén, greinum hans fjölgaði og limar hans lengdust af hinni miklu vatnsgnótt.
31:6 Alls konar fuglar himinsins hreiðruðu sig í greinum hans og alls konar dýr merkurinnar lögðu ungum sínum undir limar hans, og allar hinar mörgu þjóðir bjuggu í forsælu hans.
31:7 Og hann var fagur sökum mikilleiks síns og vegna þess, hve greinar hans voru langar, því að rætur hans lágu við mikla vatnsgnótt.
31:8 Sedrustrén jöfnuðust ekki á við hann í aldingarði Guðs, kýprestrén höfðu ekki jafnmiklar greinar og hann, og hlynirnir höfðu ekki eins fallegar limar og hann. Ekkert tré í aldingarði Guðs var honum jafnt að fegurð.
31:9 Ég hafði prýtt hann með fjölda af greinum, og öll Edentré, sem voru í aldingarði Guðs, öfunduðu hann.
31:10 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Af því að hann varð hávaxinn og teygði topplimið upp í skýin og ofmetnaðist í hjarta af hæð sinni,
31:11 þá seldi ég hann í hendur afarmenni meðal þjóðanna, er fara skyldi með hann samkvæmt illsku sinni, uns ég hefði rekið hann burt.
31:12 Og útlendir menn, hinar grimmustu þjóðir, felldu hann og fleygðu honum. Greinar hans féllu niður á fjöllin og ofan í alla dali, og limar hans lágu sundur brotnar í öllum giljum landsins, og allar þjóðir jarðarinnar viku burt úr forsælu hans og létu hann eiga sig.
31:13 Allir fuglar himinsins sátu nú á hans fallna stofni og öll dýr merkurinnar lágu á limum hans,
31:14 til þess að engin tré við vatn skyldu verða hávaxin og eigi teygja topplim sitt upp í skýin, og til þess að stórhöfðingjar þeirra stæðu eigi hreyknir af hæð sinni, allir þeir er á vatni vökvast. Því að allir eru þeir dauðanum ofurseldir, svo að þeir verða að fara niður til undirheima, mitt á meðal mannanna, til þeirra, sem niður stignir eru í gröfina.
31:15 Svo segir Drottinn Guð: Daginn, sem hann steig niður til Heljar, lét ég flóðið sýta missi hans og hélt aftur straumum hans og hin miklu vötn hættu að renna. Ég klæddi Líbanon sorgarbúningi hans vegna og öll tré merkurinnar liðu í ómegin yfir láti hans.
31:16 Ég skelfdi þjóðirnar með þeim gný, sem varð af falli hans, er ég steypti honum niður til Heljar, til þeirra, sem eru niður stignir í gröfina. Og þá hugguðust í undirheimum öll Edentré, ágætustu og bestu tré Líbanons, öll þau er á vatni höfðu vökvast.
31:17 Þau fóru líka með honum niður til Heljar til hinna vopnbitnu, er búið höfðu í forsælu hans, mitt á meðal þjóðanna.
31:18 Við hvert á meðal Edentrjánna er unnt að jafna þér að skrauti og stærð? En þér mun verða steypt niður í undirheima með Edentrjánum, meðal óumskorinna munt þú liggja hjá hinum vopnbitnu. Þetta er Faraó og glæsilið hans, _ segir Drottinn Guð.``