9:1 Þegar þessu var lokið, komu höfðingjarnir til mín og sögðu: ,,Ísraelslýður og prestarnir og levítarnir hafa ekki haldið sér frá hinum heiðnu íbúum landsins, sem skylt hefði verið vegna viðurstyggða þeirra, frá Kanaanítum, Hetítum, Peresítum, Jebúsítum, Ammónítum, Móabítum, Egyptum og Amórítum,
9:2 því að þeir hafa tekið sér og sonum sínum konur af dætrum þeirra, og þannig hefir hinn heilagi ættstofn haft mök við hina heiðnu íbúa landsins, og hafa höfðingjarnir og yfirmennirnir gengið á undan í þessu tryggðrofi.``
9:3 Þegar ég heyrði þetta, reif ég kyrtil minn og yfirhöfn mína, reytti hár mitt og skegg og sat agndofa.
9:4 Þá söfnuðust til mín allir þeir, er óttuðust orð Ísraels Guðs, út af tryggðrofi hinna hernumdu, en ég sat agndofa allt til kveldfórnar.
9:5 En er að kveldfórninni var komið, stóð ég upp frá föstu minni og reif um leið enn að nýju kyrtil minn og yfirhöfn mína. Síðan féll ég á kné, fórnaði höndum til Drottins, Guðs míns,
9:6 og sagði: ,,Guð minn, ég fyrirverð mig og blygðast mín að hefja auglit mitt til þín, ó minn Guð! Því að misgjörðir vorar eru vaxnar oss yfir höfuð og sekt vor orðin svo mikil, að hún nær til himins.
9:7 Allt frá dögum feðra vorra fram á þennan dag höfum vér verið í mikilli sekt, og vegna misgjörða vorra höfum vér verið ofurseldir, konungar vorir og prestar vorir, í hendur konunga heiðinna landa, undir sverðin, til herleiðingar, til ráns og til háðungar, eins og enn í dag á sér stað.
9:8 En nú höfum vér um örskamma stund hlotið miskunn frá Drottni, Guði vorum, með því að hann lét oss eftir verða leifar, er af komust, og veitti oss bólfestu á sínum heilaga stað, til þess að Guð vor léti gleðina skína úr augum vorum og veitti oss ofurlítinn nýjan lífsþrótt í ánauð vorri.
9:9 Því að ánauðugir erum vér. Þó hefir Guð vor eigi yfirgefið oss í ánauð vorri, heldur hagað því svo, að vér fundum náð fyrir augliti Persakonunga, svo að þeir veittu oss nýjan lífsþrótt til að koma upp musteri Guðs vors og reisa það úr rústum og útvega oss umgirtan bústað í Júda og Jerúsalem.
9:10 Og hvað eigum vér nú að segja, Guð vor, eftir allt þetta? Því að vér höfum yfirgefið boðorð þín,
9:11 sem þú hefir fyrir oss lagt fyrir munn þjóna þinna, spámannanna, er þú sagðir: ,Landið, er þér haldið inn í til þess að taka það til eignar, er óhreint land vegna saurugleika hinna heiðnu landsbúa, vegna viðurstyggða þeirra, er þeir í saurgun sinni hafa fyllt það með landshornanna milli.
9:12 Fyrir því skuluð þér hvorki gefa dætur yðar sonum þeirra né taka dætur þeirra sonum yðar að konum, og um aldur og ævi skuluð þér ekki leitast við að efla farsæld þeirra og velgengni, til þess að þér eflist og fáið að njóta landsins gæða og megið láta börnum yðar það eftir í arf um aldur og ævi.`
9:13 Og eftir allt það, sem yfir oss er komið vegna vondra verka vorra og vorrar miklu sektar _ því að þú, Guð vor, hefir vægt oss og ekki hegnt oss, svo sem vér áttum skilið fyrir misgjörð vora, og veitt oss slíkar leifar _
9:14 ættum vér þá enn að nýju að brjóta boðorð þín og mægjast við þær þjóðir, sem aðhafast slíkar svívirðingar? Mundir þú eigi reiðast oss, þar til er vér værum gjöreyddir, svo að engar leifar væru eftir né nokkrir þeir, er undan hefðu komist?
9:15 Drottinn, Ísraels Guð, þú ert réttlátur! Vér erum eftir skildir sem leifar, er undan hafa komist, svo sem sjá má þann dag í dag. Sjá, vér stöndum frammi fyrir þér í sekt vorri, því að það er eigi unnt að standast fyrir þér vegna þessa.``