6:1 Bræður! Ef einhver misgjörð kann að henda mann, þá leiðréttið þér, sem andlegir eruð, þann mann með hógværð. Og haf gát á sjálfum þér, að þú freistist ekki líka.
6:2 Berið hver annars byrðar og uppfyllið þannig lögmál Krists.
6:3 Sá sem þykist vera nokkuð, en er þó ekkert, dregur sjálfan sig á tálar.
6:4 En sérhver rannsaki breytni sjálfs sín og þá mun hann hafa hrósunarefni í samanburði við sjálfan sig, en ekki miðað við aðra,
6:5 því að sérhver mun verða að bera sína byrði.
6:6 En sá, sem uppfræðist í orðinu, veiti þeim, sem uppfræðir, hlutdeild með sér í öllum gæðum.
6:7 Villist ekki! Guð lætur ekki að sér hæða. Það sem maður sáir, það mun hann og uppskera.
6:8 Sá sem sáir í hold sjálfs sín, mun af holdinu uppskera glötun, en sá sem sáir í andann, mun af andanum uppskera eilíft líf.
6:9 Þreytumst ekki að gjöra það sem gott er, því að á sínum tíma munum vér uppskera, ef vér gefumst ekki upp.
6:10 Þess vegna skulum vér, meðan tími er til, gjöra öllum gott og einkum trúbræðrum vorum.
6:11 Sjáið, með hversu stórum stöfum ég skrifa yður með eigin hendi.
6:12 Allir þeir, sem vilja líta vel út að holdinu til, það eru þeir, sem eru að þröngva yður til að láta umskerast, einungis til þess að þeir verði eigi ofsóttir vegna kross Krists.
6:13 Því að ekki halda einu sinni sjálfir umskurnarmennirnir lögmálið, heldur vilja þeir að þér látið umskerast, til þess að þeir geti stært sig af holdi yðar.
6:14 En það sé fjarri mér að hrósa mér af öðru en krossi Drottins vors Jesú Krists. Sakir hans er ég krossfestur heiminum og heimurinn mér.
6:15 Umskurn eða yfirhúð skipta engu, heldur að vera ný sköpun.
6:16 Og yfir öllum þeim, sem þessari reglu fylgja, sé friður og miskunn, og yfir Ísrael Guðs.
6:17 Enginn mæði mig héðan í frá, því að ég ber merki Jesú á líkama mínum.