43:24 Maðurinn fór með þá inn í hús Jósefs og gaf þeim vatn, að þeir mættu þvo fætur sína, og ösnum þeirra gaf hann fóður.
43:25 Og tóku þeir nú gjöfina fram, að hún væri til taks, er Jósef kæmi um miðdegið, því að þeir höfðu heyrt, að þeir ættu að matast þar.
43:26 Er Jósef kom heim, færðu þeir honum gjöfina, sem þeir höfðu meðferðis, inn í húsið og hneigðu sig til jarðar fyrir honum.
43:27 En hann spurði, hvernig þeim liði, og mælti: ,,Líður yðar aldraða föður vel, sem þér gátuð um? Er hann enn á lífi?``
43:28 Þeir svöruðu: ,,Þjóni þínum, föður vorum, líður vel. Hann er enn á lífi.`` Og þeir hneigðu sig og lutu honum.
43:29 Jósef hóf upp augu sín og sá Benjamín bróður sinn, son móður sinnar, og mælti: ,,Er þetta yngsti bróðir yðar, sem þér gátuð um við mig?`` Og hann sagði: ,,Guð sé þér náðugur, son minn!``
43:30 Og Jósef hraðaði sér burt, því að hjarta hans brann af ást til bróður hans, og hann vék burt til þess að gráta og fór inn í innra herbergið og grét þar.
43:31 Síðan þvoði hann andlit sitt og gekk út, og hann lét ekki á sér sjá og mælti: ,,Berið á borð!``
43:32 Og menn báru á borð fyrir hann sér í lagi og fyrir þá sér í lagi og sér í lagi fyrir þá Egypta, sem með honum mötuðust, því að ekki mega Egyptar eta með Hebreum, fyrir því að Egyptar hafa andstyggð á því.
43:33 Og þeim var skipað til sætis gegnt honum, hinum frumgetna eftir frumburðarrétti hans og hinum yngsta eftir æsku hans, og mennirnir litu með undrun hver á annan.
43:34 Og hann lét bera skammta frá sér til þeirra, en skammtur Benjamíns var fimm sinnum stærri en skammtur nokkurs hinna. Og þeir drukku með honum og urðu hreifir.