9:1 Nú hafði fyrri sáttmálinn líka fyrirskipanir um þjónustuna og jarðneskan helgidóm.
9:2 Tjaldbúð var gjörð, hin fremri, og í henni voru bæði ljósastikan, borðið og skoðunarbrauðin, og heitir hún ,,hið heilaga``.
9:3 En bak við annað fortjaldið var tjaldbúð, sem hét ,,hið allrahelgasta``.
9:4 Þar var reykelsisaltari úr gulli og sáttmálsörkin, sem öll var gulli búin. Í henni var gullkerið með manna í, stafur Arons, sem laufgast hafði, og sáttmálsspjöldin.
9:5 En yfir henni voru kerúbar dýrðarinnar og breiddu vængina yfir náðarstólinn. En um þetta hvað fyrir sig á nú ekki að ræða.
9:6 Þessu er þannig komið fyrir. Prestarnir ganga stöðugt inn í fremri tjaldbúðina og annast þjónustu sína.
9:7 Inn í hina innri gengur æðsti presturinn einn, einu sinni á ári, ekki án blóðs. Það ber hann fram vegna sjálfs sín og fyrir syndir lýðsins, sem drýgðar hafa verið af vangá.
9:8 Með því sýnir heilagur andi, að vegurinn til hins heilaga er enn eigi kunnur orðinn, á meðan fremri tjaldbúðin enn stendur.
9:9 Hún er ímynd þess tíma, sem nú er. Hér eru fram bornar gjafir og fórnir, sem megna ekki að færa þeim, sem innir þjónustuna af hendi, vissu um að vera fullkominn.
9:10 Þetta eru aðeins ytri fyrirmæli, ásamt reglum um mat og drykk og ýmiss konar þvotta, sem mönnum eru á herðar lagðar allt til tíma viðreisnarinnar.
9:11 En Kristur er kominn sem æðsti prestur hinna komandi gæða. Hann gekk inn í gegnum hina stærri og fullkomnari tjaldbúð, sem ekki er með höndum gjörð, það er að segja er ekki af þessari sköpun.
9:12 Ekki fór hann með blóð hafra og kálfa, heldur með eigið blóð, inn í hið heilaga í eitt skipti fyrir öll og aflaði eilífrar lausnar.
9:13 Ef blóð hafra og nauta og askan af kvígu, stráð á menn, er óhreinir hafa gjörst, helgar til ytri hreinleika,
9:14 hve miklu fremur mun þá blóð Krists hreinsa samvisku vora frá dauðum verkum, til að þjóna Guði lifanda, þar sem Kristur fyrir eilífan anda bar fram sjálfan sig sem lýtalausa fórn fyrir Guði.
9:15 Þess vegna er hann meðalgangari nýs sáttmála. Hann dó og bætti að fullu fyrir afbrotin undir fyrri sáttmálanum, til þess að hinir kölluðu mættu öðlast hina eilífu arfleifð, sem heitið var.
9:16 Arfleiðsluskrá tekur ekki gildi fyrr en sá er dáinn, er hana gjörði.
9:17 Hún er óhagganleg, þegar um látna er að ræða, en er í engu gildi meðan arfleiðandi lifir.
9:18 Þess vegna var ekki heldur hinn fyrri sáttmáli vígður án blóðs.
9:19 Þegar Móse hafði kunngjört gjörvöllum lýðnum öll boðorð lögmálsins, þá tók hann blóð kálfanna og hafranna ásamt vatni og skarlatsrauðri ull og ísópi og stökkti bæði á sjálfa bókina og allan lýðinn
9:20 og mælti: ,,Þetta er blóð sáttmálans, sem Guð lét gjöra við yður.``
9:21 Sömuleiðis stökkti hann blóðinu á tjaldbúðina og öll áhöldin við helgiþjónustuna.
9:22 Og samkvæmt lögmálinu er það nálega allt, sem hreinsast með blóði, og eigi fæst fyrirgefning án úthellingar blóðs.
9:23 Það var því óhjákvæmilegt, að eftirmyndir þeirra hluta, sem á himnum eru, yrðu hreinsaðar með slíku. En sjálft hið himneska krefst betri fórna en þessara.
9:24 Því að Kristur gekk ekki inn í helgidóm höndum gjörðan, eftirmynd hins sanna helgidóms, heldur inn í sjálfan himininn, til þess nú að birtast fyrir augliti Guðs vor vegna.
9:25 Og ekki gjörði hann það til þess að frambera sjálfan sig margsinnis, eins og æðsti presturinn gengur inn í hið heilaga á ári hverju með annarra blóð.
9:26 Þá hefði hann oft þurft að líða frá grundvöllun heims. En nú hefur hann birst í eitt skipti fyrir öll við endi aldanna til að afmá syndina með fórn sinni.
9:27 Og eins og það liggur fyrir mönnunum eitt sinn að deyja og eftir það að fá sinn dóm,
9:28 þannig var Kristi fórnfært í eitt skipti til þess að bera syndir margra, og í annað sinn mun hann birtast, ekki sem syndafórn, heldur til hjálpræðis þeim, er hans bíða.