19:1 Spádómur um Egyptaland. Sjá, Drottinn ekur á léttfæru skýi og kemur til Egyptalands. Þá skjálfa goð Egyptalands fyrir honum og hjörtu Egypta bráðna í brjóstum þeirra.
19:2 Ég æsi Egypta í gegn Egyptum, svo að bróðir skal berjast við bróður, vinur við vin, borg við borg og ríki við ríki.
19:3 Hyggindi Egypta munu þá verða örþrota, og ráðagjörðir þeirra ónýti ég. Þeir munu leita frétta hjá goðum sínum, hjá galdramönnum, þjónustuöndum og spásagnaröndum.
19:4 Ég vil selja Egypta harðráðum drottnara á vald, og grimmur konungur skal ríkja yfir þeim _ segir hinn alvaldi, Drottinn allsherjar.
19:5 Vötnin í sjónum munu þverra og fljótið grynnast og þorna upp.
19:6 Árkvíslarnar munu fúlna, fljót Egyptalands þverra og þorna, reyr og sef visna.
19:7 Engjarnar fram með Níl, á sjálfum Nílarbökkunum, og öll sáðlönd við Níl þorna upp, eyðast og hverfa.
19:8 Þá munu fiskimennirnir andvarpa og allir þeir sýta, sem öngli renna í Níl, og þeir, sem leggja net í vötn, munu örvilnast.
19:9 Þeir, sem vinna hörinn, munu standa ráðþrota, kembingarkonurnar og vefararnir blikna.
19:10 Stoðir landsins skulu brotnar verða sundur, allir þeir, sem vinna fyrir kaup, verða hugdaprir.
19:11 Höfðingjarnir í Sóan eru tómir heimskingjar, ráðspekin hjá hinum vitrustu ráðgjöfum Faraós orðin að flónsku. Hvernig dirfist þér að segja við Faraó: ,,Ég er sonur vitringanna og kominn af fornkonungunum``?
19:12 Hvar eru nú vitringar þínir? Þeir ættu nú að segja þér, og mega vita, hverja fyrirætlan Drottinn allsherjar hefir með Egyptaland.
19:13 Höfðingjarnir í Sóan standa eins og afglapar, höfðingjarnir í Nóf eru á tálar dregnir. Þeir sem eru hyrningarsteinar ættkvísla Egyptalands, hafa leitt það á glapstigu.
19:14 Drottinn hefir byrlað þeim sundlunaranda, svo að þeir valda því, að Egyptaland er á reiki í öllum fyrirtækjum sínum, eins og drukkinn maður reikar innan um spýju sína.
19:15 Ekkert heppnast Egyptalandi, hvorki það sem höfuð eða hali, pálmakvistur eða sefstrá taka sér fyrir að gjöra.
19:16 Á þeim degi munu Egyptar verða sem konur, þeir munu skelfast og hræðast reidda hönd Drottins allsherjar, er hann reiðir gegn þeim.
19:17 Þá skal Egyptalandi standa ótti af Júdalandi. Í hvert sinn sem á það er minnst við þá munu þeir skelfast, vegna ráðs þess, er Drottinn allsherjar hefir ráðið gegn þeim.
19:18 Á þeim degi munu fimm borgir í Egyptalandi mæla á kanverska tungu og sverja hlýðni Drottni allsherjar. Skal ein þeirra kallast Bær réttvísinnar.
19:19 Á þeim degi mun vera altari handa Drottni í miðju Egyptalandi og merkissteinn handa Drottni við landamærin.
19:20 Það skal vera til merkis og vitnisburðar um Drottin allsherjar í Egyptalandi. Þegar þeir hrópa til Drottins undan kúgurunum, mun hann senda þeim fulltingjara og forvígismann, er frelsar þá.
19:21 Drottinn mun kunnur verða Egyptalandi, og Egyptar munu þekkja Drottin á þeim degi. Þeir munu dýrka hann með sláturfórnum og matfórnum og vinna Drottni heit og efna þau.
19:22 Og Drottinn mun slá Egyptaland, slá og græða, og þeir munu snúa sér til Drottins, og hann mun bænheyra þá og græða þá.
19:23 Á þeim degi skal vera brautarvegur frá Egyptalandi til Assýríu, og Assýringar skulu koma til Egyptalands og Egyptar til Assýríu, og Egyptar munu tilbiðja ásamt Assýringum.
19:24 Á þeim degi munu þessir þrír taka saman, Ísrael, Egyptaland og Assýría, og vera blessun á jörðinni miðri.
19:25 Drottinn allsherjar blessar þá og segir: Blessuð sé þjóð mín Egyptar, verkið handa minna Assýría og arfleifð mín Ísrael!