51:1 Hlýðið á mig, þér sem leggið stund á réttlæti, þér sem leitið Drottins! Lítið á hellubjargið, sem þér eruð af höggnir, og á brunnholuna, sem þér eruð úr grafnir!
51:2 Lítið á Abraham, föður yðar, og á Söru, sem ól yður! Því að barnlausan kallaði ég hann, en ég blessaði hann og jók kyn hans.
51:3 Já, Drottinn huggar Síon, huggar allar rústir hennar. Hann gjörir auðn hennar sem Eden og heiði hennar sem aldingarð Drottins. Fögnuður og gleði mun finnast í henni, þakkargjörð og lofsöngur.
51:4 Hlýð þú á mig, þú lýður minn, hlusta á mig, þú þjóð mín, því frá mér mun kenning út ganga og minn réttur sem ljós fyrir þjóðirnar.
51:5 Skyndilega nálgast réttlæti mitt, hjálpræði mitt er á leiðinni. Armleggir mínir munu færa þjóðunum réttlæti. Fjarlægar landsálfur vænta mín og bíða eftir mínum armlegg.
51:6 Hefjið augu yðar til himins og lítið á jörðina hér neðra. Himinninn mun leysast sundur sem reykur og jörðin fyrnast sem fat og þeir, sem á henni búa, deyja sem mý. En mitt hjálpræði varir eilíflega, og mínu réttlæti mun eigi linna.
51:7 Hlýðið á mig, þér sem þekkið réttlætið, þú lýður, sem ber lögmál mitt í hjarta þínu. Óttist eigi spott manna og hræðist eigi smánaryrði þeirra,
51:8 því að mölur mun eta þá eins og klæði og maur eta þá eins og ull. En réttlæti mitt varir eilíflega og hjálpræði mitt frá kyni til kyns.
51:9 Vakna þú, vakna þú, íklæð þig styrkleika, armleggur Drottins! Vakna þú, eins og fyrr á tíðum, eins og í árdaga! Varst það eigi þú, sem banaðir skrímslinu og lagðir í gegn drekann?
51:10 Varst það eigi þú, sem þurrkaðir upp hafið, vötn hins mikla djúps, sem gjörðir sjávardjúpin að vegi, svo að hinir endurleystu gætu komist yfir?
51:11 Hinir endurkeyptu Drottins skulu aftur hverfa og koma með fögnuði til Síonar, og eilíf gleði skal leika yfir höfði þeim. Fögnuður og gleði skal fylgja þeim, en hryggð og andvarpan flýja.
51:12 Ég, ég er sá sem huggar yður. Hver ert þú, að þú skulir hrædd vera við mennina, sem eiga að deyja, og mannanna börn, sem felld verða eins og grasið,
51:13 en gleymir Drottni, skapara þínum, sem útþandi himininn og grundvallaði jörðina, að þú óttast stöðugt liðlangan daginn heift kúgarans? Þegar hann býr sig til að gjöreyða, hvar er þá heift kúgarans?
51:14 Brátt skulu þeir, er fjötraðir eru, leystir verða, og þeir skulu eigi deyja og fara í gröfina, né heldur skal þá skorta brauð _
51:15 svo sannarlega sem ég er Drottinn, Guð þinn, sá er æsir hafið, svo að bylgjurnar gnýja. Drottinn allsherjar er nafn hans.
51:16 Ég hefi lagt mín orð í munn þér og skýlt þér undir skugga handar minnar, ég, sem gróðursetti himininn og grundvallaði jörðina og segi við Síon: ,,Þú ert minn lýður!``
51:17 Hresstu þig upp, hresstu þig upp, rístu upp, Jerúsalem, þú sem drukkið hefir reiðibikar Drottins, er hönd hans rétti að þér. Vímubikarinn hefir þú drukkið í botn!
51:18 Af öllum þeim sonum, sem hún hafði alið, var ekki nokkur einn, sem leiddi hana. Af öllum þeim sonum, sem hún hafði upp fætt, var enginn, sem tæki í hönd hennar.
51:19 Þetta tvennt henti þig _ hver aumkar þig? _ eyðing og umturnun, hungur og sverð _ hver huggar þig?
51:20 Synir þínir liðu í ómegin og lágu á öllum strætamótum, eins og antílópur í veiðigröf, fullir af reiði Drottins, af hirtingarorðum Guðs þíns.
51:21 Fyrir því heyr þú þetta, þú hin vesala, þú sem drukkin ert, og þó ekki af víni:
51:22 Svo segir Drottinn þinn alvaldur og Guð þinn, sem réttir hlut lýðs síns: Sjá, ég tek úr hendi þinni vímubikarinn, skál reiði minnar, þú skalt ekki framar á henni bergja.
51:23 Ég fæ hana í hendur þeim, sem angra þig, þeim er sögðu við þig: ,,Varpa þér niður, svo að vér getum gengið á þér!`` Og þú varðst að gjöra hrygg þinn sem gólf og að götu fyrir vegfarendur.