Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - JOEL 2

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    2:1 Þeytið lúðurinn í Síon og æpið óp á mínu heilaga fjalli, svo að allir íbúar landsins nötri. Því að dagur Drottins kemur, já, hann er í nánd,

    2:2 dagur myrkurs og dimmu, dagur skýþykknis og skýsorta. Eins og sorti breiðist yfir fjallahnjúkana mikil og voldug þjóð. Hennar líki hefir ekki verið frá eilífð, og hennar líki mun ekki koma eftir hana allt fram á ár ókominna alda.

    2:3 Fyrir henni fer eyðandi eldur og eftir henni logi brennandi. Þótt landið fram undan henni hafi verið eins og Edensgarður, er það á bak henni sem eyðiöræfi. Enginn hlutur komst undan henni.

    2:4 Ásýndum eru þeir sem hestar að sjá, og þeir eru fráir sem riddarar.

    2:5 Eins og glamrandi vagnar stökkva þeir yfir fjallahnjúkana, eins og eldslogi, sem snarkar í hálmleggjum, eins og voldug þjóð, sem búin er til bardaga.

    2:6 Fyrir henni skjálfa þjóðirnar, öll andlit blikna.

    2:7 Þeir hlaupa sem hetjur, stíga upp á borgarvegginn sem hermenn, sérhver þeirra gengur sína leið og enginn riðlast á annars braut.

    2:8 Enginn þeirra þrengir öðrum, hver gengur sína braut, jafnvel mót skotspjótum þeytast þeir áfram án þess að stöðva ferð sína.

    2:9 Þeir ráðast inn í borgina, hlaupa á borgarvegginn, stíga upp í húsin, fara inn um gluggana sem þjófar.

    2:10 Fyrir henni nötrar jörðin, himnarnir skjálfa, sól og tungl myrkvast og stjörnurnar missa birtu sína.

    2:11 Og Drottinn lætur raust sína þruma fyrir öndverðu liði sínu. Því að herlið hans er afar mikið, því að voldugur er sá, sem framkvæmir hans boð. Já, mikill er dagur Drottins og mjög ógurlegur, hver getur afborið hann?

    2:12 En snúið yður nú til mín _ segir Drottinn _ af öllu hjarta, með föstum, gráti og kveini.

    2:13 Sundurrífið hjörtu yðar en ekki klæði yðar, og hverfið aftur til Drottins Guðs yðar, því að hann er líknsamur og miskunnsamur, þolinmóður og gæskuríkur og iðrast hins illa.

    2:14 Hver veit nema hann iðrist aftur og láti blessun eftir sig: matfórn og dreypifórn handa Drottni, Guði yðar!

    2:15 Þeytið lúðurinn í Síon, stofnið til helgrar föstu, boðið hátíðarstefnu.

    2:16 Kveðjið saman lýðinn, helgið söfnuðinn, stefnið saman gamalmennum, safnið saman börnum og brjóstmylkingum. Brúðguminn gangi út úr herbergi sínu og brúðurin út úr brúðarsal sínum.

    2:17 Milli forsals og altaris skulu prestarnir, þjónar Drottins, gráta og segja: ,,Þyrm þjóð þinni, Drottinn, og lát eigi arfleifð þína verða að spotti, svo að heiðingjarnir drottni yfir þeim. Hví skulu menn segja meðal þjóðanna: ,Hvar er Guð þeirra?```

    2:18 Þá varð Drottinn fullur umhyggju vegna lands síns, og hann þyrmdi lýð sínum.

    2:19 Drottinn tók til máls og sagði við lýð sinn: Sjá, ég sendi yður korn, vínberjalög og olíu, svo að yður skal nægja til saðnings. Og ég vil eigi láta yður verða framar að spotti meðal heiðingjanna.

    2:20 Og óvininn, sem frá norðri kemur, mun ég reka langt burt frá yður og stökkva honum út á auðnir og öræfi. Skal fararbroddur hans lenda í austurhafinu og halaflokkurinn í vesturhafinu, þar skal fýla og illur daunn upp af honum stíga, því að hann hefir unnið stórvirki.

    2:21 Óttast eigi, land! Fagna og gleðst, því að Drottinn hefir unnið stórvirki.

    2:22 Óttist eigi, þér dýr merkurinnar, því að grashagar eyðimerkurinnar grænka, því að trén bera ávöxt, fíkjutrén og víntrén gefa sinn gróða.

    2:23 Og þér Síonbúar, fagnið og gleðjist í Drottni, Guði yðar, því að hann gefur yður regn í réttum mæli og lætur skúrirnar ofan til yðar koma, haustregn og vorregn, eins og áður.

    2:24 Láfarnir verða fullir af korni, og vínberjalögurinn og olían flóa út af þrónum.

    2:25 Ég bæti yður upp árin, er átvargurinn, flysjarinn, jarðvargurinn og nagarinn átu, _ minn mikli her, er ég sendi móti yður.

    2:26 Þér skuluð eta og mettir verða og vegsama nafn Drottins, Guðs yðar, sem dásamlega hefir við yður gjört, og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.

    2:27 Og þér skuluð viðurkenna, að ég er meðal Ísraels og að ég er Drottinn, yðar Guð, og enginn annar. Og þjóð mín skal aldrei að eilífu til skammar verða.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine