10:1 Er Adónísedek, konungur í Jerúsalem, frétti að Jósúa hefði unnið Aí og gjöreytt hana, að hann hefði farið með Aí og konung hennar eins og hann fór með Jeríkó og konung hennar, og að Gíbeonbúar hefðu gjört frið við Ísrael og byggju meðal þeirra,
10:2 þá urðu þeir mjög hræddir, því að Gíbeon var stór borg, engu minni en konungaborgirnar, og hún var stærri en Aí og allir borgarbúar hreystimenn.
10:3 Sendi Adónísedek, konungur í Jerúsalem, þá til Hóhams, konungs í Hebron, til Pírams, konungs í Jarmút, til Jafía, konungs í Lakís, og til Debírs, konungs í Eglon, og lét segja þeim:
10:4 ,,Komið til móts við mig og veitið mér fulltingi, að vér megum vinna Gíbeon, því að hún hefir gjört frið við Jósúa og Ísraelsmenn.``
10:5 Þá söfnuðust saman fimm konungar Amoríta og fóru þangað með öllu liði sínu: konungurinn í Jerúsalem, konungurinn í Hebron, konungurinn í Jarmút, konungurinn í Lakís og konungurinn í Eglon. Settust þeir um Gíbeon og tóku að herja á hana.
10:6 Gíbeonmenn sendu þá til Jósúa í herbúðirnar í Gilgal, og létu segja honum: ,,Slá ekki hendi þinni af þjónum þínum. Kom sem skjótast oss til hjálpar og veit oss fulltingi, því að allir konungar Amoríta, þeirra er búa í fjalllendinu, hafa safnast saman í móti oss.``
10:7 Þá fór Jósúa frá Gilgal með allt lið sitt og alla kappa sína.
10:8 Drottinn sagði við Jósúa: ,,Þú skalt ekki hræðast þá, því að ég mun gefa þá í þínar hendur. Enginn þeirra mun fá staðist fyrir þér.``
10:9 Jósúa kom nú að þeim óvörum, því að hann hélt áfram ferðinni alla nóttina frá Gilgal.
10:10 Og Drottinn gjörði þá felmtsfulla fyrir Ísrael og biðu þeir mikinn ósigur við Gíbeon, en hinir eltu þá í áttina til stígsins, er liggur upp að Bet Hóron, og felldu menn á flóttanum allt til Aseka og Makeda.
10:11 En er þeir flýðu fyrir Ísrael og voru á leið niður frá Bet Hóron, þá lét Drottinn stóra steina falla yfir þá af himni alla leið til Aseka, svo að þeir dóu. Voru þeir fleiri, er féllu fyrir haglsteinunum, en þeir, er Ísraelsmenn drápu með sverðseggjum.
10:12 Þá talaði Jósúa við Drottin, þann dag er Drottinn gaf Amoríta á vald Ísraelsmönnum, og hann mælti í áheyrn Ísraels: Sól statt þú kyrr í Gíbeon, og þú, tungl, í Ajalondal!
10:13 Og sólin stóð kyrr, og tunglið staðnaði, uns lýðurinn hafði hefnt sín á óvinum sínum. Svo er skrifað í Bók hinna réttlátu. Þá staðnaði sólin á miðjum himni og hraðaði sér eigi að ganga undir nær því heilan dag.
10:14 Og enginn dagur hefir þessum degi líkur verið, hvorki fyrr né síðar, að Drottinn skyldi láta að orðum manns, því að Drottinn barðist fyrir Ísrael.
10:15 Jósúa fór þá aftur til herbúðanna í Gilgal og allur Ísrael með honum.
10:16 Konungarnir fimm, er fyrr var getið, flýðu og leyndust í hellinum hjá Makeda.
10:17 Þá var Jósúa sagt svo frá: ,,Konungarnir fimm eru fundnir. Þeir leynast í hellinum hjá Makeda.``
10:18 Þá sagði Jósúa: ,,Veltið stórum steinum fyrir hellismunnann og setjið menn við hann til að gæta þeirra.
10:19 En sjálfir skuluð þér eigi staðar nema. Veitið óvinum yðar eftirför, vinnið á þeim, sem aftastir fara, og látið þá ekki komast inn í borgir sínar, því að Drottinn, Guð yðar, hefir gefið þá yður á vald.``
10:20 Er Jósúa og Ísraelsmenn höfðu unnið mikinn sigur á þeim, svo að þeir voru frá með öllu (en þeir af þeim, er undan höfðu komist, höfðu farið inn í víggirtu borgirnar),
10:21 þá sneri allt liðið aftur til Jósúa í herbúðirnar við Makeda heilu og höldnu. Þorði enginn framar orð að mæla gegn Ísraelsmönnum.
10:22 Þá sagði Jósúa: ,,Opnið hellismunnann og leiðið þessa fimm konunga út til mín úr hellinum.``
10:23 Þeir gjörðu svo og leiddu þessa fimm konunga til hans úr hellinum: konunginn í Jerúsalem, konunginn í Hebron, konunginn í Jarmút, konunginn í Lakís og konunginn í Eglon.
10:24 Og er þeir höfðu leitt konunga þessa út til Jósúa, þá kallaði Jósúa saman alla menn í Ísrael og sagði við fyrirliða hermannanna, þá er með honum höfðu farið: ,,Komið hingað og stígið fæti á háls konungum þessum!`` Þeir gengu þá fram og stigu fæti á háls þeim.
10:25 Þá sagði Jósúa við þá: ,,Óttist ekki og látið ekki hugfallast, verið hughraustir og öruggir, því að svo mun Drottinn fara með alla óvini yðar, er þér berjist við.``
10:26 Eftir það lét Jósúa drepa þá, og er hann hafði líflátið þá, lét hann hengja þá á fimm tré, og þeir héngu á trjánum allt til kvelds.
10:27 En er komið var undir sólarlag, bauð Jósúa að taka þá ofan af trjánum. Þá köstuðu þeir þeim í hellinn, sem þeir höfðu leynst í, og báru síðan stóra steina fyrir hellismunnann, og eru þeir þar enn í dag.
10:28 Þennan sama dag vann Jósúa Makeda og tók hana herskildi, og hann bannfærði konung hennar, svo og borgina og alla þá menn, sem í henni voru. Lét hann engan komast undan, og með konunginn í Makeda fór hann eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
10:29 Síðan fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Makeda til Líbna og herjaði á Líbna.
10:30 Og Drottinn gaf einnig hana í hendur Ísrael, svo og konung hennar, og hann tók hana herskildi og drap alla þá menn, er í henni voru. Lét hann þar engan komast undan, og hann fór með konung hennar eins og hann hafði farið með konunginn í Jeríkó.
10:31 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Líbna til Lakís og settist um hana og herjaði á hana.
10:32 Og Drottinn gaf Lakís í hendur Ísrael, og hann vann hana á öðrum degi og tók hana herskildi og drap alla menn, sem í henni voru, öldungis eins og hann hafði farið með Líbna.
10:33 Þá fór Hóram, konungur í Geser, til liðs við Lakís, en Jósúa felldi hann og lið hans, svo að enginn þeirra komst undan.
10:34 Því næst fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Lakís til Eglon, og þeir settust um hana og herjuðu á hana.
10:35 Og þeir unnu hana samdægurs og tóku hana herskildi, og alla menn, er í henni voru, bannfærði hann þennan sama dag, öldungis eins og hann hafði farið með Lakís.
10:36 Þá fór Jósúa og allur Ísrael með honum frá Eglon til Hebron, og þeir herjuðu á hana.
10:37 Og þeir unnu hana og tóku hana herskildi; og þeir felldu konung hennar og alla íbúana í borgunum þar umhverfis og alla menn, sem í henni voru, svo að enginn komst undan, öldungis eins og hann hafði farið með Eglon, og hann bannfærði borgina og alla menn, er í henni voru.
10:38 Þá sneri Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til Debír og herjaði á hana.
10:39 Náði hann henni og konungi hennar og öllum borgunum þar umhverfis á sitt vald; felldu þeir þá með sverðseggjum og bannfærðu alla menn, er í henni voru, svo að enginn komst undan. Eins og hann hafði farið með Hebron, svo fór hann og með Debír og konung hennar, og eins og hann hafði farið með Líbna og konung hennar.
10:40 Þannig braut Jósúa undir sig landið allt: fjalllendið, suðurlandið, láglendið og hlíðarnar _, og hann felldi alla konunga þeirra, svo að enginn komst undan, og bannfærði allt, sem lífsanda dró, eins og Drottinn, Ísraels Guð, hafði boðið honum.
10:41 Og Jósúa lagði undir sig land allt frá Kades Barnea til Gasa og allt Gósenland til Gíbeon.
10:42 Og alla þessa konunga og land þeirra vann Jósúa í einu, því að Drottinn, Ísraels Guð, barðist fyrir Ísrael.
10:43 Sneri nú Jósúa og allur Ísrael með honum aftur til herbúðanna í Gilgal.