10:1 Eftir Abímelek reis upp Tóla Púason, Dódóssonar, maður af Íssakar, til að frelsa Ísrael. Hann bjó í Samír á Efraímfjöllum,
10:2 og var hann dómari í Ísrael í tuttugu og þrjú ár. Síðan andaðist hann og var grafinn í Samír.
10:3 Eftir hann reis upp Jaír Gíleaðíti og var dómari í Ísrael í tuttugu og tvö ár.
10:4 Hann átti þrjátíu sonu, sem riðu á þrjátíu ösnufolum, þeir áttu þrjátíu borgir. Eru þær kallaðar Jaírs-þorp allt fram á þennan dag. Þær liggja í Gíleaðlandi.
10:5 Síðan andaðist Jaír og var grafinn í Kamón.
10:6 Ísraelsmenn gjörðu enn að nýju það, sem illt var í augum Drottins, og dýrkuðu Baala og Astörtur, guði Arams, guði Sídonar, guði Móabs, guði Ammóníta og guði Filista, og yfirgáfu Drottin og dýrkuðu hann ekki.
10:7 Þá upptendraðist reiði Drottins gegn Ísrael, og hann seldi þá í hendur Filistum og í hendur Ammónítum.
10:8 Og þeir þjáðu og þjökuðu Ísraelsmenn það ár. Í átján ár þjökuðu þeir alla Ísraelsmenn, sem bjuggu hinumegin Jórdanar í landi Amoríta, þá er bjuggu í Gíleað.
10:9 Enn fremur fóru Ammónítar yfir Jórdan til þess að herja einnig á Júda, Benjamín og Efraíms hús, svo að Ísrael komst í miklar nauðir.
10:10 Þá hrópuðu Ísraelsmenn til Drottins og sögðu: ,,Vér höfum syndgað móti þér, því að vér höfum yfirgefið Guð vorn og dýrkað Baala.``
10:11 En Drottinn sagði við Ísraelsmenn: ,,Hafa ekki Egyptar, Amorítar, Ammónítar, Filistar,
10:12 Sídoningar, Amalekítar og Midíanítar kúgað yður? Þá hrópuðuð þér til mín og ég frelsaði yður úr höndum þeirra.
10:13 En þér hafið yfirgefið mig og dýrkað aðra guði. Fyrir því vil ég eigi framar hjálpa yður.
10:14 Farið og hrópið til guða þeirra, er þér hafið kjörið. Hjálpi þeir yður, þegar þér eruð í nauðum.``
10:15 Þá sögðu Ísraelsmenn við Drottin: ,,Vér höfum syndgað. Gjör við oss rétt sem þér líkar, frelsa oss aðeins í dag.``
10:16 Síðan köstuðu þeir burt frá sér útlendu guðunum og dýrkuðu Drottin. Eirði hann þá illa eymd Ísraels.
10:17 Þá var Ammónítum stefnt saman, og settu þeir herbúðir sínar í Gíleað. Og Ísraelsmenn söfnuðust saman og settu herbúðir sínar í Mispa.
10:18 En lýðurinn, höfðingjarnir í Gíleað sögðu hver við annan: ,,Hver er sá maður, er fyrstur vill hefja ófrið við Ammóníta? Hann skal vera höfðingi yfir öllum Gíleaðbúum!``