25:1 Drottinn talaði við Móse á Sínaífjalli og sagði:
25:2 ,,Tala þú til Ísraelsmanna og seg við þá: Þegar þér komið í land það, sem ég mun gefa yður, þá skal landið halda Drottni hvíld.
25:3 Sex ár skalt þú sá akur þinn og sex ár skalt þú sniðla víngarð þinn og safna gróðrinum.
25:4 En sjöunda árið skal vera helgihvíld fyrir landið, hvíldartími Drottni til handa. Akur þinn skalt þú ekki sá og víngarð þinn skalt þú ekki sniðla.
25:5 Korn það, er vex sjálfsáið eftir uppskeru þína, skalt þú eigi skera, og vínber óskorins vínviðar þíns skalt þú eigi lesa. Það skal vera hvíldarár fyrir landið.
25:6 Gróður landsins um hvíldartímann skal vera yður til fæðu, þér, þræli þínum og ambátt, kaupamanni þínum og útlendum búanda, er hjá þér dvelja.
25:7 Og fénaði þínum og villidýrunum, sem í landi þínu eru, skal allur gróður þess vera til fæðu.
25:8 Þú skalt telja sjö hvíldarár, sjö ár sjö sinnum, svo að tími þeirra sjö hvíldarára verði fjörutíu og níu ár.
25:9 Og þá skaltu í sjöunda mánuðinum, tíunda dag mánaðarins, láta hvellilúðurinn gjalla. Friðþægingardaginn skuluð þér láta lúðurinn gjalla um gjörvallt land yðar,
25:10 og helga þannig hið fimmtugasta árið og boða frelsi í landinu fyrir alla íbúa þess. Það skal vera yður fagnaðarár. Þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns, og þá skuluð þér hverfa aftur hver og einn til ættar sinnar.
25:11 Fagnaðarár skal fimmtugasta árið vera yður. Þér skuluð eigi sá og eigi uppskera það, sem vex sjálfsáið það ár, né heldur skuluð þér þá lesa vínber af óskornum vínviðum.
25:12 Því að það er fagnaðarár. Það sé yður heilagt. Skuluð þér eta af jörðinni það er á henni sprettur.
25:13 Á þessu fagnaðarári skuluð þér hverfa aftur hver og einn til óðals síns.
25:14 Þá er þú selur náunga þínum eitthvað eða þú kaupir eitthvað af náunga þínum, þá skuluð þér eigi sýna hver öðrum ójöfnuð.
25:15 Eftir því, hve mörg ár eru liðin frá fagnaðarári, skalt þú kaupa af náunga þínum, eftir því, hve uppskeruárin eru mörg, skal hann selja þér.
25:16 Því fleiri sem árin eru, því hærra skalt þú setja verðið, og því færri sem árin eru, því lægra skalt þú setja það, því að það er uppskerufjöldinn, sem hann selur þér.
25:17 Og þér skuluð eigi sýna hver öðrum ójöfnuð, heldur skalt þú óttast Guð þinn, því að ég er Drottinn, Guð yðar.
25:18 Fyrir því skuluð þér halda setningar mínar og varðveita lög mín og halda þau, svo að þér megið óhultir búa í landinu.
25:19 Þá mun landið gefa gróður sinn og þér eta yður sadda og búa óhultir í því.
25:20 Og ef þér segið: ,Hvað skulum vér eta sjöunda árið, þá er vér sáum eigi og hirðum eigi gróður vorn?`
25:21 þá vil ég senda yður blessun mína sjötta árið, og mun það leiða fram gróður til þriggja ára.
25:22 Og áttunda árið skuluð þér sá og eta af ávextinum, gamla forðanum. Til hins níunda árs, til þess er gróður þess fæst, skuluð þér eta gamla forðann.
25:23 Landið skal eigi selt fyrir fullt og allt, því að landið er mín eign, því að þér eruð dvalarmenn og hjábýlingar hjá mér.
25:24 Fyrir því skuluð þér í öllu eignarlandi yðar láta land falt til lausnar.
25:25 Ef bróðir þinn gjörist snauður og hann selur nokkuð af óðali sínu, þá skal lausnarmaður hans koma til, sá er það stendur næst, og leysa það, er bróðir hans hefir selt.
25:26 Nú hefir einhver engan lausnarmann, en er kominn svo í efni, að hann á fyrir lausnargjaldinu.
25:27 Þá skal hann telja árin frá því, er hann seldi, en það, sem yfir hefir, skal hann endurgreiða manni þeim, er hann seldi, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.
25:28 En hafi hann ekki efni til að leysa, þá skal það, er hann hefir selt, vera í höndum kaupanda til fagnaðarárs. En á fagnaðarárinu gengur það úr eigu hans, og hverfur hann þá aftur til óðals síns.
25:29 Nú selur einhver íbúðarhús í múrgirtri borg, og skal honum heimilt að leysa það í heilt ár frá því, er hann seldi. Lausnarréttur hans skal vera tímabundinn.
25:30 En sé það ekki leyst áður en fullt ár er liðið, þá skal hús í múrgirtri borg verða full eign kaupanda og niðja hans. Það skal eigi ganga úr eigu hans fagnaðarárið.
25:31 En hús í þorpum, sem eigi eru múrgirt allt í kring, skulu talin með landi sveitarinnar. Þau skal jafnan heimilt að leysa, og þau skulu ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu.
25:32 Borgir levítanna, húsin í eignarborgum þeirra, skal levítunum heimilt að leysa á hverjum tíma sem er.
25:33 Og ef einhver af levítunum leysir eigi, þá skal selt hús ganga úr eigu kaupanda á fagnaðarárinu, sé það í eignarborg hans, því að húsin í borgum levítanna eru óðalseign þeirra meðal Ísraelsmanna.
25:34 En landið, er liggur undir borgir þeirra, skal eigi selja, því að það er ævinleg eign þeirra.
25:35 Ef bróðir þinn kemst í fátækt og verður ósjálfbjarga hjá þér, þá skalt þú styðja hann sem dvalarmann og hjábýling, svo að hann geti lifað hjá þér.
25:36 Þú skalt eigi taka fjárleigu af honum né aukagjald, heldur skalt þú óttast Guð þinn, svo að bróðir þinn geti lifað hjá þér.
25:37 Þú skalt eigi ljá honum silfur þitt gegn leigu, né heldur hjálpa honum um matvæli þín gegn aukagjaldi.
25:38 Ég er Drottinn, Guð yðar, sem leiddi yður út af Egyptalandi til þess að gefa yður Kanaanland og vera Guð yðar.
25:39 Komist bróðir þinn í fátækt hjá þér og selur sig þér, þá skalt þú ekki láta hann vinna þrælavinnu.
25:40 Sem kaupamaður, sem hjábýlingur skal hann hjá þér vera. Hann skal vinna hjá þér til fagnaðarárs.
25:41 En þá skal hann fara frá þér, og börn hans með honum, og hverfa aftur til ættar sinnar, og hann skal hverfa aftur til óðals feðra sinna.
25:42 Því að þeir eru þjónar mínir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Eigi skulu þeir seldir mansali.
25:43 Þú skalt eigi drottna yfir honum með hörku, heldur skalt þú óttast Guð þinn.
25:44 Viljir þú fá þér þræla og ambáttir, þá skuluð þér kaupa þræla og ambáttir af þjóðunum, sem umhverfis yður búa.
25:45 Svo og af börnum hjábýlinga, er hjá yður dvelja, af þeim skuluð þér kaupa og af ættliði þeirra, sem hjá yður er og þeir hafa getið í landi yðar, og þau skulu verða eign yðar.
25:46 Og þér skuluð láta þá ganga í arf til barna yðar eftir yður, svo að þau verði eign þeirra. Þér skuluð hafa þau að ævinlegum þrælum. En yfir bræðrum yðar, Ísraelsmönnum, skuluð þér eigi drottna með hörku, einn yfir öðrum.
25:47 Komist dvalarmaður eða hjábýlingur í efni hjá þér, en bróðir þinn kemst í fátækt hjá honum og selur sig dvalarmanni eða hjábýlingi hjá þér eða afkomanda dvalarmanns ættar,
25:48 þá skal heimilt að leysa hann eftir að hann hefir selt sig. Heimilt skal einhverjum af bræðrum hans að leysa hann,
25:49 eða föðurbróður hans eða bræðrungi hans eða einhverjum náfrænda í ætt hans, eða komist hann sjálfur í efni, þá er honum heimilt að leysa sig.
25:50 Og við þann, sem keypti hann, skal hann reikna frá árinu, er hann seldi sig honum, til fagnaðarársins, og söluverðið skal fara eftir árafjöldanum. Skal hann vera hjá honum ákveðinn tíma, svo sem kaupamaður væri.
25:51 Ef enn eru mörg ár eftir, þá skal hann að tiltölu við árafjöldann endurgreiða lausnargjald sitt af fé því, er hann var keyptur fyrir,
25:52 en ef fá ár eru eftir til fagnaðarárs, þá skal hann og reikna honum þau. Eftir áratölunni skal hann endurgreiða lausnargjald sitt.
25:53 Skal hann sæta sömu kjörum hjá honum eins og sá, sem er kaupamaður ár eftir ár. Hann skal eigi drottna yfir honum með hörku að þér ásjáandi.
25:54 En sé hann ekki leystur með þessum hætti, þá skal hann ganga úr eigu kaupanda fagnaðarárið, hann og börn hans með honum.
25:55 Því að Ísraelsmenn eru þjónar mínir, mínir þjónar eru þeir, sem ég hefi leitt út af Egyptalandi. Ég er Drottinn, Guð yðar.