7:1 Nú safnast að honum farísear og nokkrir fræðimenn, komnir frá Jerúsalem.
7:2 Þeir sáu, að sumir lærisveina hans neyttu matar með vanhelgum, það er óþvegnum höndum.
7:3 En farísear, og reyndar Gyðingar allir, eta ekki nema þeir taki áður handlaugar, og fylgja þeir svo erfðavenju forfeðra sinna.
7:4 Og ekki neyta þeir matar, þegar þeir koma frá torgi, nema þeir hreinsi sig áður. Margt annað hafa þeir gengist undir að rækja, svo sem að hreinsa bikara, könnur og eirkatla.
7:5 Farísearnir og fræðimennirnir spyrja hann: ,,Hvers vegna fylgja lærisveinar þínir ekki erfðavenju forfeðranna, heldur neyta matar með vanhelgum höndum?``
7:6 Jesús svarar þeim: ,,Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér.
7:7 Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar.
7:8 Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.``
7:9 Enn sagði hann við þá: ,,Listavel gjörið þér að engu boð Guðs, svo þér getið rækt erfikenning yðar.
7:10 Móse sagði: ,Heiðra föður þinn og móður þína.` og ,Hver sem formælir föður eða móður, skal dauða deyja.`
7:11 En þér segið: Ef maður segir við föður sinn eða móður: ,Það, sem þér hefði getað orðið til styrktar frá mér, er korban,` það er musterisfé,
7:12 þá leyfið þér honum ekki framar að gjöra neitt fyrir föður sinn eða móður.
7:13 Þannig látið þér erfikenning yðar, sem þér fylgið fram, ógilda orð Guðs. Og margt annað gjörið þér þessu líkt.``
7:14 Aftur kallaði hann til sín mannfjöldann og sagði: ,,Heyrið mig allir, og skiljið.
7:15 Ekkert er það utan mannsins, er saurgi hann, þótt inn í hann fari. Hitt saurgar manninn, sem út frá honum fer.`` [
7:16 Ef einhver hefur eyru að heyra, hann heyri!]
7:17 Þegar hann var kominn inn frá fólkinu, spurðu lærisveinar hans hann um líkinguna.
7:18 Og hann segir við þá: ,,Eruð þér einnig svo skilningslausir? Skiljið þér eigi, að ekkert, sem fer inn í manninn utan frá, getur saurgað hann?
7:19 Því að ekki fer það inn í hjarta hans, heldur maga og út síðan í safnþróna.`` Þannig lýsti hann alla fæðu hreina.
7:20 Og hann sagði: ,,Það sem fer út frá manninum, það saurgar manninn.
7:21 Því að innan frá, úr hjarta mannsins, koma hinar illu hugsanir, saurlifnaður, þjófnaður, manndráp,