29:1 Sá sem oftlega hefir ávítaður verið, en þverskallast þó, mun skyndilega knosaður verða, og engin lækning fást.
29:2 Þegar réttlátum fjölgar, gleðst þjóðin, en þegar óguðlegir drottna, andvarpar þjóðin.
29:3 Sá sem elskar visku, gleður föður sinn, en sá sem leggur lag sitt við skækjur, glatar eigum sínum.
29:4 Konungurinn eflir landið með rétti, en sá sem þiggur mútur, eyðir það.
29:5 Sá maður, sem smjaðrar fyrir náunga sínum, hann leggur net fyrir fætur hans.
29:6 Í misgjörð vonds manns er fólgin snara, en réttlátur maður fagnar og gleðst.
29:7 Réttlátur maður kynnir sér málefni hinna lítilmótlegu, en óguðlegur maður hirðir ekkert um að kynna sér það.
29:8 Spottarar æsa upp borgina, en vitrir menn lægja reiðina.
29:9 Þegar vitur maður á í þrætumáli við afglapa, þá reiðist hann og hlær, en hvíld fæst engin.
29:10 Blóðvargarnir hata hinn ráðvanda, en réttvísir menn láta sér annt um líf hans.
29:11 Heimskinginn úthellir allri reiði sinni, en vitur maður sefar hana að lokum.
29:12 Þegar drottnarinn hlýðir á lygaorð, verða allir þjónar hans bófar.
29:13 Fátæklingurinn og kúgarinn mætast, Drottinn ljær ljós augum beggja.
29:14 Sá konungur, sem dæmir hina lítilmótlegu með réttvísi, hásæti hans mun stöðugt standa að eilífu.
29:15 Vöndur og umvöndun veita speki, en agalaus sveinn gjörir móður sinni skömm.
29:16 Þegar óguðlegum fjölgar, fjölgar og misgjörðum, en réttlátir munu horfa á fall þeirra.
29:17 Aga þú son þinn, þá mun hann láta þig hafa ró og veita unað sálu þinni.
29:18 Þar sem engar vitranir eru, kemst fólkið á glapstigu, en sá sem varðveitir lögmálið, er sæll.
29:19 Þræll verður eigi agaður með orðum, því að hann skilur þau að vísu, en fer ekki eftir þeim.
29:20 Sjáir þú mann, sem er fljótfær í orðum, þá er meiri von um heimskingja en hann.
29:21 Dekri maður við þræl sinn frá barnæsku, vill hann að lokum verða ungherra.
29:22 Reiðigjarn maður vekur deilur, og bráðlyndur maður drýgir marga synd.
29:23 Hroki mannsins lægir hann, en hinn lítilláti mun virðing hljóta.
29:24 Þjófsnauturinn hatar líf sitt, hann hlýðir á bölvunina, en segir þó ekki frá.
29:25 Ótti við menn leiðir í snöru, en þeim er borgið, sem treystir Drottni.
29:26 Margir leita hylli drottnarans, en réttur mannsins kemur frá Drottni.