141:1 Davíðssálmur. Drottinn, ég ákalla þig, skunda þú til mín, ljá eyra raust minni, er ég ákalla þig.
141:2 Bæn mín sé fram borin sem reykelsisfórn fyrir auglit þitt, upplyfting handa minna sem kvöldfórn.
141:3 Set þú, Drottinn, vörð fyrir munn minn, gæslu fyrir dyr vara minna.
141:4 Lát eigi hjarta mitt hneigjast að neinu illu, að því að fremja óguðleg verk með illvirkjum, og lát mig eigi eta krásir þeirra.
141:5 Þótt réttlátur maður slái mig og trúaður hirti mig, mun ég ekki þiggja sæmd af illum mönnum. Bæn mín stendur gegn illsku þeirra.
141:6 Þegar höfðingjum þeirra verður hrundið niður af kletti, munu menn skilja, að orð mín voru sönn.
141:7 Eins og menn höggva við og kljúfa á jörðu, svo skal beinum þeirra tvístrað við gin Heljar.
141:8 Til þín, Drottinn, mæna augu mín, hjá þér leita ég hælis, sel þú eigi fram líf mitt.
141:9 Varðveit mig fyrir gildru þeirra, er sitja um mig, og fyrir snörum illvirkjanna.