39:1 Til söngstjórans, eftir Jedútún. Davíðssálmur.
39:2 Ég sagði: ,,Ég vil gefa gætur að vegum mínum, að ég drýgi eigi synd með tungunni, ég vil leggja haft á munn minn, meðan hinn illgjarni er í nánd við mig.``
39:3 Ég var hljóður og þagði, en kvöl mín ýfðist.
39:4 Hjartað brann í brjósti mér, við andvörp mín logaði eldurinn upp, ég sagði:
39:5 ,,Lát mig, Drottinn, sjá afdrif mín og hvað mér er útmælt af dögum, lát mig sjá, hversu skammær ég er.
39:6 Sjá, örfáar þverhendur hefir þú gjört daga mína, og ævi mín er sem ekkert fyrir þér. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
39:7 Sem tómur skuggi gengur maðurinn um, gjörir háreysti um hégómann einan, hann safnar í hrúgur, en veit eigi hver þær hlýtur.``
39:8 Hvers vona ég þá, Drottinn? Von mín er öll á þér.
39:9 Frelsa mig frá öllum syndum mínum, lát mig eigi verða heimskingjum að spotti.
39:10 Ég þegi, ég opna eigi munninn, því að þú hefir talað.
39:11 Lát plágu þína víkja frá mér, ég verð að engu fyrir krafti handar þinnar.
39:12 Þá er þú beitir hirtingu við manninn fyrir misgjörð hans, lætur þú yndisleik hans eyðast, sem mölur væri. Andgustur einn eru allir menn. [Sela]
39:13 Heyr bæn mína, Drottinn, og hlýð á kvein mitt, ver eigi hljóður við tárum mínum, því að ég er aðkomandi hjá þér, útlendingur eins og allir feður mínir.
39:14 Lít af mér, svo að hýrna megi yfir mér, áður en ég fer burt og er eigi til framar.