88:1 Ljóð. Kóraíta-sálmur. Til söngstjórans. Syngist með Makalat-lagi. Hemans-maskíl Esraíta.
88:2 Drottinn, Guð minn, ég kalla um daga, um nætur hrópa ég frammi fyrir þér.
88:3 Lát bæn mína koma fyrir þig, hneig eyra að hrópi mínu,
88:4 því að sál mín er mett orðin af böli, og líf mitt nálægist Hel.
88:5 Ég er talinn með þeim, sem gengnir eru til grafar, ég er sem magnþrota maður.
88:6 Mér er fenginn bústaður með framliðnum, eins og vegnum mönnum, er liggja í gröfinni, er þú minnist eigi framar, því að þeir eru hrifnir burt úr hendi þinni.
88:7 Þú hefir lagt mig í gryfju undirheima, í myrkrið niðri í djúpinu.
88:8 Reiði þín hvílir á mér, og alla boða þína hefir þú látið skella á mér. [Sela]
88:9 Þú hefir fjarlægt frá mér kunningja mína, gjört mig að andstyggð í augum þeirra. Ég er byrgður inni og kemst ekki út,
88:10 augu mín eru döpruð af eymd. Ég ákalla þig, Drottinn, dag hvern, breiði út hendurnar í móti þér.
88:11 Gjörir þú furðuverk vegna framliðinna, eða munu hinir dauðu rísa upp til þess að lofa þig? [Sela]
88:12 Er sagt frá miskunn þinni í gröfinni, frá trúfesti þinni í undirdjúpunum?
88:13 Eru furðuverk þín kunngjörð í myrkrinu eða réttlæti þitt í landi gleymskunnar?
88:14 En ég hrópa til þín, Drottinn, og á morgnana kemur bæn mín fyrir þig.