1:1 Opinberun Jesú Krists, sem Guð gaf honum til að sýna þjónum sínum það sem verða á innan skamms. Hann sendi engil sinn og lét hann kynna það Jóhannesi, þjóni sínum,
1:2 sem bar vitni um orð Guðs og vitnisburð Jesú Krists, um allt það er hann sá.
1:3 Sæll er sá, er les þessi spádómsorð, og þeir, sem heyra þau og varðveita það, sem í þeim er ritað, því að tíminn er í nánd.
1:4 Frá Jóhannesi til safnaðanna sjö, sem í Asíu eru. Náð sé með yður og friður frá honum, sem er og var og kemur, og frá öndunum sjö, sem eru frammi fyrir hásæti hans,
1:5 og frá Jesú Kristi, sem er votturinn trúi, frumburður dauðra, höfðinginn yfir konungum jarðarinnar. Hann elskar oss og leysti oss frá syndum vorum með blóði sínu.
1:6 Og hann gjörði oss að konungsríki og prestum, Guði sínum og föður til handa. Hans er dýrðin og mátturinn um aldir alda. Amen.
1:7 Sjá, hann kemur í skýjunum og hvert auga mun sjá hann, jafnvel þeir, sem stungu hann, og allar kynkvíslir jarðarinnar munu kveina yfir honum. Vissulega, amen.
1:8 Ég er Alfa og Ómega, segir Drottinn Guð, hann sem er og var og kemur, hinn alvaldi.
1:9 Ég, Jóhannes, bróðir yðar, sem í Jesú á hlutdeild með yður í þrengingunni, ríkinu og þolgæðinu, var á eynni Patmos fyrir sakir Guðs orðs og vitnisburðar Jesú.
1:10 Ég var hrifinn í anda á Drottins degi og heyrði að baki mér raust mikla, sem lúður gylli,
1:11 er sagði: ,,Rita þú í bók það sem þú sérð og send það söfnuðunum sjö, í Efesus, Smýrnu, Pergamos, Þýatíru, Sardes, Fíladelfíu og Laódíkeu.``
1:12 Ég sneri mér við til að sjá, hvers raust það væri, sem við mig talaði. Og er ég sneri mér við, sá ég sjö gullljósastikur,
1:13 og milli ljósastikanna einhvern, líkan mannssyni, klæddan síðkyrtli og gullbelti var spennt um bringu hans.
1:14 Höfuð hans og hár var hvítt, eins og hvít ull, eins og mjöll, og augu hans eins og eldslogi.
1:15 Og fætur hans voru líkir málmi glóandi í deiglu og raust hans sem niður margra vatna.
1:16 Hann hafði í hægri hendi sér sjö stjörnur og af munni hans gekk út tvíeggjað sverð biturt, og ásjóna hans var sem sólin skínandi í mætti sínum.
1:17 Þegar ég sá hann, féll ég fyrir fætur honum sem dauður væri. Og hann lagði hægri hönd sína yfir mig og sagði: ,,Vertu ekki hræddur, ég er hinn fyrsti og hinn síðasti
1:18 og hinn lifandi.`` Ég dó, en sjá, lifandi er ég um aldir alda, og ég hef lykla dauðans og Heljar.
1:19 Rita þú nú það er þú hefur séð, bæði það sem er og það sem verða mun eftir þetta.
1:20 Þessi er leyndardómurinn um stjörnurnar sjö, sem þú hefur séð í hægri hendi minni, og um gullstikurnar sjö. Stjörnurnar sjö eru englar þeirra sjö safnaða, og ljósastikurnar sjö eru söfnuðirnir sjö.