12:1 Spádómur. Orð Drottins um Ísrael, guðmæli Drottins, sem útþandi himininn, grundvallaði jörðina og myndaði andann í brjósti mannsins:
12:2 Sjá, ég gjöri Jerúsalem að vímuskál fyrir allar þjóðirnar, sem umhverfis hana eru. Jafnvel Júda mun vera með í umsátinni um Jerúsalem.
12:3 Á þeim degi mun ég gjöra Jerúsalem að aflraunasteini fyrir allar þjóðir. Hver sá, er hefur hann upp, mun hrufla sig til blóðs, og allar þjóðir jarðarinnar munu safnast gegn henni.
12:4 Á þeim degi _ segir Drottinn _ mun ég slá felmt á alla víghesta og vitfirring á þá sem ríða þeim. Á Júda húsi vil ég hafa vakandi auga, en slá alla hesta þjóðanna með blindu.
12:5 Þá munu ætthöfðingjar Júda segja með sjálfum sér: ,,Styrkur er Jerúsalembúum í Drottni allsherjar, Guði sínum.``
12:6 Á þeim degi mun ég gjöra ætthöfðingja Júda eins og glóðarker í viðarkesti og sem brennandi blys í kerfum, og þeir munu eyða til hægri og til vinstri öllum þjóðum umhverfis, en Jerúsalem mun verða kyrr á sínum stað eins og áður.
12:7 Fyrst mun Drottinn frelsa tjöld Júda, til þess að frægð Davíðs húss og frægð Jerúsalembúa verði ekki meiri en Júda.
12:8 Á þeim degi mun Drottinn halda hlífiskildi yfir Jerúsalembúum, og hinn máttfarni meðal þeirra mun á þeim degi vera eins og Davíð og Davíðs hús eins og Guð, eins og engill Drottins á undan þeim.
12:9 Á þeim degi mun ég leitast við að eyða öllum þjóðunum, er fóru í móti Jerúsalem.
12:10 En yfir Davíðs hús og yfir Jerúsalembúa úthelli ég líknar- og bænaranda, og þeir munu líta til mín, til hans, sem þeir lögðu í gegn, og harma hann eins og menn harma lát einkasonar, og syrgja hann eins og menn syrgja frumgetinn son.
12:11 Á þeim degi mun eins mikið harmakvein verða í Jerúsalem eins og Hadad-Rimmon-harmakveinið í Megiddódal.
12:12 Landið mun kveina, hver kynþáttur fyrir sig: Kynþáttur Davíðs húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Natans húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig,
12:13 kynþáttur Leví húss fyrir sig og konur þeirra fyrir sig, kynþáttur Símeíta fyrir sig og konur þeirra fyrir sig,
12:14 og eins allir hinir kynþættirnir, sem eftir eru, hver kynþáttur fyrir sig og konur þeirra fyrir sig.