3:1 Ég gat ekki, bræður, talað við yður eins og við andlega menn, heldur eins og við holdlega, eins og við ómálga í Kristi.
3:2 Mjólk gaf ég yður að drekka, ekki fasta fæðu, því að enn þolduð þér það ekki. Og þér þolið það jafnvel ekki enn,
3:3 því að enn þá eruð þér holdlegir menn. Fyrst metingur og þráttan er á meðal yðar, eruð þér þá eigi holdlegir og hegðið yður á manna hátt?
3:4 Þegar einn segir: ,,Ég er Páls,`` en annar: ,,Ég er Apollóss,`` eruð þér þá ekki eins og hverjir aðrir menn?
3:5 Hvað er þá Apollós? Já, hvað er þá Páll? Þjónar, sem hafa leitt yður til trúar, og það eins og Drottinn hefur gefið hvorum um sig.
3:6 Ég gróðursetti, Apollós vökvaði, en Guð gaf vöxtinn.
3:7 Þannig er þá hvorki sá neitt, er gróðursetur, né sá, er vökvar, heldur Guð, sem vöxtinn gefur.
3:8 Sá, sem gróðursetur, og sá, sem vökvar, eru eitt. En sérhver mun fá laun eftir sínu erfiði.
3:9 Því að samverkamenn Guðs erum vér, og þér eruð Guðs akurlendi, Guðs hús.
3:10 Eftir þeirri náð, sem Guð hefur veitt mér, hef ég eins og vitur húsameistari lagt grundvöll, er annar byggir ofan á. En sérhver athugi, hvernig hann byggir.
3:11 Annan grundvöll getur enginn lagt en þann, sem lagður er, sem er Jesús Kristur.
3:12 En ef einhver byggir ofan á grundvöllinn gull, silfur, dýra steina, tré, hey eða hálm,
3:13 þá mun verk hvers um sig verða augljóst. Dagurinn mun leiða það í ljós, af því að hann opinberast með eldi og eldurinn mun prófa hvílíkt verk hvers og eins er.
3:14 Ef nú verk einhvers fær staðist, það er hann byggði ofan á, mun hann taka laun.
3:15 Ef verk einhvers brennur upp, mun hann bíða tjón. Sjálfur mun hann frelsaður verða, en þó eins og úr eldi.
3:16 Vitið þér eigi, að þér eruð musteri Guðs og að andi Guðs býr í yður?
3:17 Ef nokkur eyðir musteri Guðs, mun Guð eyða honum, því að musteri Guðs er heilagt, og þér eruð það musteri.
3:18 Enginn dragi sjálfan sig á tálar. Ef nokkur þykist vitur yðar á meðal í þessum heimi, verði hann fyrst heimskur til þess að hann verði vitur.
3:19 Því að speki þessa heims er heimska hjá Guði. Ritað er: Hann er sá, sem grípur hina vitru í slægð þeirra.
3:20 Og aftur: Drottinn þekkir hugsanir vitringanna, að þær eru hégómlegar.
3:21 Fyrir því stæri enginn sig af mönnum. Því að allt er yðar,
3:22 hvort heldur er Páll, Apollós eða Kefas, heimurinn, líf eða dauði, hið yfirstandandi eða hið komandi, allt er yðar.