4:1 Þannig líti menn á oss svo sem þjóna Krists og ráðsmenn yfir leyndardómum Guðs.
4:2 Nú er þess krafist af ráðsmönnum, að sérhver reynist trúr.
4:3 En mér er það fyrir minnstu að verða dæmdur af yður eða af mannlegu dómþingi. Ég dæmi mig ekki einu sinni sjálfur.
4:4 Ég er mér ekki neins ills meðvitandi, en með því er ég þó ekki sýknaður. Drottinn er sá sem dæmir mig.
4:5 Dæmið því ekki fyrir tímann, áður en Drottinn kemur. Hann mun leiða það í ljós, sem í myrkrinu er hulið, og opinbera ráð hjartnanna. Og þá mun hver um sig hljóta þann lofstír af Guði, sem hann á skilið.
4:6 En þetta hef ég yðar vegna, bræður, heimfært til sjálfs mín og Apollóss, til þess að þér af okkar dæmi mættuð læra regluna: ,,Farið ekki lengra en ritað er,`` _ og til þess að enginn yðar hroki sér upp einum í vil, öðrum til niðrunar.
4:7 Því að hver gefur þér yfirburði? Og hvað hefur þú, sem þú hefur ekki þegið? En hafir þú nú þegið það, hví stærir þú þig þá eins og þú hefðir ekki fengið það að gjöf?
4:8 Þér eruð þegar orðnir mettir, þér eruð þegar orðnir auðugir, án vor eruð þér orðnir konungar. Og ég vildi óska, að þér væruð orðnir konungar, til þess að einnig vér mættum vera konungar með yður!
4:9 Mér virðist Guð hafa sett oss postulana sísta allra, eins og dauðadæmda á leiksviði, frammi fyrir öllum heiminum, bæði englum og mönnum.
4:10 Vér erum heimskir sökum Krists, en þér vitrir fyrir samfélag yðar við Krist! Vér erum veikir, en þér sterkir, þér eruð í hávegum hafðir, en vér óvirtir.
4:11 Allt til þessarar stundar þolum vér hungur, þorsta og klæðleysi, oss er misþyrmt, vér höfum engan samastað,
4:12 og vér stöndum í erfiði og verðum að vinna með eigin höndum.
4:13 Hrakyrtir blessum vér, ofsóttir umberum vér, lastaðir áminnum vér. Vér erum orðnir eins og sorp heimsins, afhrak allra allt til þessa.
4:14 Ekki rita ég þetta til þess að gjöra yður kinnroða, heldur til að áminna yður eins og elskuleg börn mín.
4:15 Enda þótt þér hefðuð tíu þúsund fræðara í Kristi, þá hafið þér þó eigi marga feður. Ég hef í Kristi Jesú fætt yður með því að flytja yður fagnaðarerindið.
4:16 Ég bið yður: Verið eftirbreytendur mínir.
4:17 Þess vegna sendi ég Tímóteus til yðar, sem er elskað og trútt barn mitt í Drottni. Hann mun minna yður á vegu mína í Kristi, eins og ég kenni alls staðar í hverjum söfnuði.
4:18 En nokkrir hafa gjörst hrokafullir, rétt eins og ég ætlaði ekki að koma til yðar,
4:19 en ég mun brátt koma til yðar, ef Drottinn vill, og mun ég þá kynna mér, ekki orð hinna stærilátu, heldur kraft þeirra.
4:20 Því að Guðs ríki er ekki fólgið í orðum, heldur í krafti.
4:21 Hvað viljið þér? Á ég að koma til yðar með hirtingarvönd eða í kærleika og hógværðar anda?