11:1 Salómon konungur unni mörgum útlendum konum auk dóttur Faraós, móabítískum, ammónítískum, edómítískum, sídonskum og hetítskum _
11:2 konum af þeim þjóðum, er Drottinn hafði sagt um við Ísraelsmenn: ,Þér skuluð ekki eiga mök við þær, og þær skulu ekki eiga mök við yður. Þær munu vissulega snúa hjörtum yðar til guða sinna` _ til þeirra felldi Salómon ástarhug.
11:3 Hann átti sjö hundruð eiginkonur og þrjú hundruð hjákonur, og konur hans sneru hjarta hans afleiðis.
11:4 Og er Salómon var kominn á gamalsaldur, sneru konur hans hjarta hans til annarra guða, og hjarta hans var ekki einlægt gagnvart Drottni, Guði hans, eins og hjarta Davíðs föður hans hafði verið.
11:5 Og Salómon elti Astarte, goð Sídoninga, og Milkóm, viðurstyggð Ammóníta.
11:6 Salómon gjörði það sem illt var í augum Guðs og sýndi ekki Drottni fullkomna hlýðni, eins og gjört hafði Davíð faðir hans.
11:7 Þá reisti Salómon fórnarhæð fyrir Kamos, viðurstyggð Móabíta, á fjallinu sem liggur fyrir austan Jerúsalem, og fyrir Mólok, viðurstyggð Ammóníta.
11:8 Og svo gjörði hann fyrir allar hinar útlendu konur sínar, sem færðu goðum sínum reykelsisfórnir og sláturfórnir.
11:9 En Drottinn reiddist Salómon fyrir það, að hann sneri hjarta sínu frá Drottni, Ísraels Guði, sem þó hafði vitrast honum tvisvar
11:10 og bannað honum að elta aðra guði, en hann hafði ekki haldið það, sem Drottinn bauð honum.
11:11 Fyrir því sagði Drottinn við Salómon: ,,Sökum þess, að þú hefir farið svo að ráði þínu og eigi haldið sáttmálann við mig, né skipanir þær, er ég fyrir þig lagði, þá mun ég rífa frá þér konungdóminn og fá hann í hendur þjóni þínum.
11:12 Þó mun ég ekki gjöra það meðan þú ert á lífi, vegna Davíðs föður þíns, en frá syni þínum mun ég rífa hann.
11:13 Samt mun ég eigi rífa frá honum allt konungsríkið. Eina ættkvísl mun ég fá syni þínum í hendur, vegna Davíðs þjóns míns og vegna Jerúsalem, sem ég hefi útvalið.``
11:14 Drottinn vakti Salómon upp mótstöðumann, Hadad Edómíta. Hann var af konungsættinni í Edóm.
11:15 Þá er Davíð var að eyða Edómítum og Jóab hershöfðingi fór til þess að grafa hina föllnu og drap alla karlmenn í Edóm (
11:16 Jóab og allur Ísrael var þar sex mánuði, uns hann hafði gjöreytt öllum karlmönnum í Edóm),
11:17 þá flýði Hadad með nokkra Edómíta, er verið höfðu þjónar föður hans, og hélt til Egyptalands, en Hadad var þá unglingur.
11:18 Þeir tóku sig upp frá Midían og komu til Paran. Og þeir tóku menn með sér frá Paran og komu til Egyptalands, til Faraós Egyptalandskonungs. Hann gaf Hadad hús og fékk honum uppeldi og gaf honum land.
11:19 Hadad varð mjög þokkaður af Faraó, og gifti hann honum eldri systur Takpenes konu sinnar.
11:20 Og systir Takpenes fæddi honum Genúbat, son hans. En Takpenes ól hann upp í höll Faraós, og þannig varð Genúbat kyrr í höll Faraós meðal barna Faraós.
11:21 En er Hadad frétti til Egyptalands, að Davíð væri lagstur til hvíldar hjá feðrum sínum og að Jóab hershöfðingi væri dáinn, þá sagði Hadad við Faraó: ,,Veit mér orlof, að ég megi fara til ættlands míns.``
11:22 Faraó svaraði honum: ,,Hvers er þér vant hjá mér, fyrst þú vilt fara til ættlands þíns?`` Hadad svaraði: ,,Einskis, en veit mér þó fararleyfi.``
11:23 Og Guð vakti Salómon upp annan mótstöðumann, Resón Eljadason, er hlaupist hafði á brott frá Hadadeser, konungi í Sóba, húsbónda sínum.
11:24 Hann safnaði að sér mönnum og gjörðist foringi fyrir ránsflokki, þá er Davíð eyddi Sýrlendingum. Hann vann Damaskus, settist þar að og varð konungur í Damaskus.
11:25 Hann var mótstöðumaður Ísraels meðan Salómon var á lífi, auk þess óskunda, er Hadad gjörði. Hann hafði óbeit á Ísrael og var konungur yfir Sýrlandi.
11:26 Jeróbóam Nebatsson, Efraímíti frá Sereda, þjónn Salómons, gjörði og uppreisn gegn konungi. Móðir hans hét Serúa og var ekkja.
11:27 Þannig atvikaðist uppreisnin: Salómon var að byggja Milló og byggði fyrir skarðið, sem var á borg Davíðs föður hans.
11:28 Jeróbóam þessi var mesti dugnaðarmaður, og er Salómon sá, að þessi ungi maður var iðjumaður, setti hann hann yfir alla kvaðarmenn Jósefs ættar.
11:29 En svo bar til um þetta leyti, að Jeróbóam fór burt úr Jerúsalem, og Ahía spámaður frá Síló mætti honum á leiðinni. Ahía var klæddur nýrri yfirhöfn, og voru þeir tveir einir úti á víðavangi.
11:30 Þá þreif Ahía nýju yfirhöfnina, sem hann var í, reif hana sundur í tólf hluti
11:31 og sagði við Jeróbóam: ,,Tak þú þér tíu hluti. Því að svo segir Drottinn, Guð Ísraels: Sjá, ég ríf konungdóminn frá Salómon og gef þér tíu ættkvíslirnar,
11:32 en einni ættkvíslinni skal hann halda, sakir þjóns míns Davíðs og sakir Jerúsalem, borgarinnar, sem ég hefi útvalið af öllum ættkvíslum Ísraels,
11:33 sökum þess að þeir hafa yfirgefið mig og fallið fram fyrir Astarte, goði Sídoninga, Kamos, goði Móabíta, og Milkóm, goði Ammóníta, og eigi gengið á mínum vegum með því að gjöra það, sem rétt er í mínum augum, og halda lög mín og ákvæði, eins og gjörði Davíð faðir hans.
11:34 En eigi vil ég taka af honum allt ríkið, heldur vil ég láta hann vera þjóðhöfðingja alla ævi, sakir Davíðs þjóns míns, er ég útvaldi, en hann hélt ákvæði mín og lög.
11:35 En ég vil taka konungdóminn frá syni hans og gefa þér hann, tíu ættkvíslirnar.
11:36 En syni hans mun ég gefa eina ættkvísl, svo að þjónn minn Davíð hafi ávallt lampa fyrir augliti mínu í Jerúsalem, borginni, sem ég hefi útvalið til þess að láta nafn mitt búa þar.
11:37 En þig vil ég taka til þess að ríkja yfir öllu, sem þú girnist, og til að vera konungur yfir Ísrael.
11:38 Og ef þú hlýðir öllu, sem ég býð þér, og gengur á mínum vegum, gjörir það sem rétt er í mínum augum og heldur lög mín og boðorð, eins og Davíð þjónn minn gjörði, þá vil ég vera með þér og reisa þér stöðugt hús, eins og ég reisti Davíð, og fá þér Ísrael.
11:39 En niðja Davíðs mun ég auðmýkja sakir þessa, þó eigi um aldur og ævi.``
11:40 En Salómon leitaðist við að ráða Jeróbóam af dögum, en Jeróbóam tók sig upp og flýði til Egyptalands, til Sísaks konungs í Egyptalandi, og var hann í Egyptalandi, þar til er Salómon andaðist.
11:41 Það, sem meira er að segja um Salómon og allt það, er hann gjörði, og um speki hans, það er ritað í Annálum Salómons.
11:42 Og sá tími, er Salómon var konungur í Jerúsalem yfir öllum Ísrael, var fjörutíu ár.
11:43 Og Salómon lagðist til hvíldar hjá feðrum sínum og var jarðaður í borg Davíðs föður síns. Og Rehabeam sonur hans tók ríki eftir hann.