3:1 Jóram, sonur Akabs, varð konungur í Samaríu yfir Ísrael á átjánda ríkisári Jósafats Júdakonungs og ríkti tólf ár.
3:2 Hann gjörði það, sem illt var í augum Drottins, þó ekki eins og faðir hans og móðir hans, því að hann tók burt Baalsmerkissteinana, sem faðir hans hafði gjöra látið.
3:3 En við syndir Jeróbóams Nebatssonar, er hann hafði komið Ísrael til að drýgja, hélt hann fast og lét ekki af þeim.
3:4 Mesa, konungur í Móab, átti miklar hjarðir. Greiddi hann Ísraelskonungi í skatt hundrað þúsund lömb og ull af hundrað þúsund hrútum.
3:5 En er Akab var dáinn, braust Móabskonungur undan Ísraelskonungi.
3:6 Lagði Jóram konungur þá af stað frá Samaríu og kannaði allan Ísrael.
3:7 Hann sendi og þegar til Jósafats Júdakonungs og lét segja honum: ,,Móabskonungur hefir brotist undan mér. Vilt þú fara með mér í hernað á móti Móabítum?`` ,,Fara mun ég,`` svaraði hann, ,,ég sem þú, mín þjóð sem þín þjóð, mínir hestar sem þínir hestar.``
3:8 Og hann sagði: ,,Hvaða leið eigum við að fara?`` Jóram svaraði: ,,Leiðina um Edómheiðar.``
3:9 Fóru þeir nú af stað, Ísraelskonungur, Júdakonungur og konungurinn í Edóm. Og er þeir höfðu farið sjö dagleiðir, hafði herinn ekkert vatn og ekki heldur skepnurnar, sem þeir höfðu með sér.
3:10 Þá sagði Ísraelskonungur: ,,Æ, Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum.``
3:11 En Jósafat mælti: ,,Er hér enginn spámaður Drottins, að vér getum látið hann ganga til frétta við Drottin?`` Þá svaraði einn af þjónum Ísraelskonungs og sagði: ,,Hér er Elísa Safatsson, sem hellt hefir vatni á hendur Elía.``
3:12 Jósafat sagði: ,,Hjá honum er orð Drottins!`` Síðan gengu þeir Ísraelskonungur, Jósafat og konungurinn í Edóm ofan til hans.
3:13 En Elísa sagði við Ísraelskonung: ,,Hvað á ég saman við þig að sælda? Gakk þú til spámanna föður þíns og til spámanna móður þinnar.`` Ísraelskonungur svaraði honum: ,,Nei, því að Drottinn hefir kallað þessa þrjá konunga til þess að selja þá í hendur Móabítum.``
3:14 Þá mælti Elísa: ,,Svo sannarlega sem Drottinn allsherjar lifir, sá er ég þjóna: Væri það ekki vegna Jósafats Júdakonungs, þá skyldi ég ekki renna til þín auga né virða þig viðlits.
3:15 En sækið þér nú hörpuleikara.`` Í hvert sinn sem hörpuleikarinn sló hörpuna, hreif hönd Drottins Elísa.
3:16 Og hann mælti: ,,Svo segir Drottinn: Gjörið gryfju við gryfju í dal þessum,
3:17 því að svo segir Drottinn: Þér munuð hvorki sjá vind né regn, og þó mun þessi dalur fyllast vatni, svo að þér megið drekka, svo og her yðar og skepnur.
3:18 En Drottni þykir þetta of lítið, hann mun og gefa Móabíta í hendur yðar.
3:19 Og þér munuð vinna allar víggirtar borgir og allar úrvalsborgir, fella öll aldintré og stemma allar vatnslindir, og öllum góðum ökrum munuð þér spilla með grjóti.``
3:20 Morguninn eftir, í það mund er matfórnin er fram borin, kom allt í einu vatn úr áttinni frá Edóm, svo að landið fylltist vatni.
3:21 En er allir Móabítar heyrðu, að konungarnir væru komnir til þess að herja á þá, var öllum boðið út, er vopnum máttu valda, og námu þeir staðar á landamærunum.
3:22 En er þeir risu um morguninn og sólin skein á vatnið, sýndist Móabítum álengdar vatnið vera rautt sem blóð.
3:23 Þá sögðu þeir: ,,Þetta er blóð! Konungunum hlýtur að hafa lent saman og þeir hafa unnið hvor á öðrum, og nú er að hirða herfangið, Móabítar!``
3:24 En er þeir komu að herbúðum Ísraels, þustu Ísraelsmenn út og börðu á Móabítum, svo að þeir flýðu fyrir þeim. Síðan brutust þeir inn í landið og unnu nýjan sigur á Móabítum.
3:25 En borgirnar brutu þeir niður, og á alla góða akra vörpuðu þeir sínum steininum hver og fylltu þá grjóti, og allar vatnslindir stemmdu þeir og öll aldintré felldu þeir, uns eigi var annað eftir en steinmúrarnir í Kír Hareset. Umkringdu slöngvumennirnir hana og köstuðu á hana.
3:26 En er Móabskonungur sá, að hann mundi fara halloka í orustunni, tók hann með sér sjö hundruð manna, er sverð báru, til þess að brjótast út þar sem Edómkonungur var fyrir, en þeir gátu það ekki.
3:27 Þá tók hann frumgetinn son sinn, er taka átti ríki eftir hann, og fórnaði honum í brennifórn á múrnum. Kom þá mikil hryggð yfir Ísrael, og héldu þeir burt þaðan og hurfu aftur heim í land sitt.