27:1 Þú skalt gjöra altarið af akasíuviði, fimm álna langt og fimm álna breitt _ ferhyrnt skal altarið vera _ og þriggja álna hátt.
27:2 Og þú skalt gjöra hornin á því upp af fjórum hyrningum þess, _ þau horn skulu vera áföst við það _, og þú skalt eirleggja það.
27:3 Þú skalt gjöra ker undir öskuna, eldspaða þá, fórnarskálir, soðkróka og eldpönnur, sem altarinu fylgja. Öll áhöld þess skalt þú gjöra af eiri.
27:4 Þú skalt gjöra um altarið eirgrind, eins og riðið net, og setja fjóra eirhringa á netið, á fjögur horn altarisins.
27:5 Grindina skalt þú festa fyrir neðan umgjörð altarisins undir niðri, svo að netið taki upp á mitt altarið.
27:6 Og þú skalt gjöra stengur til altarisins, stengur af akasíuviði, og eirleggja þær.
27:7 Skal smeygja stöngunum í hringana, og skulu stengurnar vera á báðum hliðum altarisins, þegar það er borið.
27:8 Þú skalt gjöra altarið af borðum, holt að innan. Þeir skulu gjöra það eins og þér var sýnt uppi á fjallinu.
27:9 Þannig skalt þú gjöra forgarð tjaldbúðarinnar: Á suðurhliðinni skulu tjöld vera fyrir forgarðinum úr tvinnaðri baðmull, hundrað álna löng á þá hliðina,
27:10 og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar stólpanna og hringrandir þeirra skulu vera af silfri.
27:11 Sömuleiðis skulu að norðanverðu langsetis vera hundrað álna löng tjöld og tuttugu stólpar með tuttugu undirstöðum af eiri, en naglar í stólpunum og hringrandir á þeim skulu vera af silfri.
27:12 En á þverhlið forgarðsins að vestanverðu skulu vera fimmtíu álna löng tjöld og tíu stólpar með tíu undirstöðum.
27:13 Þverhlið forgarðsins að austanverðu, mót uppkomu sólar, skal vera fimmtíu álnir,
27:14 og skulu vera fimmtán álna tjöld annars vegar með þremur stólpum og þremur undirstöðum,
27:15 og hins vegar sömuleiðis fimmtán álna tjöld með þremur stólpum og þremur undirstöðum.
27:16 Fyrir hliði forgarðsins skal vera tuttugu álna dúkbreiða af bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull, glitofin, með fjórum stólpum og fjórum undirstöðum.
27:17 Allir stólpar umhverfis forgarðinn skulu vera með hringröndum af silfri og silfurnöglum og undirstöðurnar af eiri.
27:18 Lengd forgarðsins skal vera hundrað álnir og breiddin fimmtíu álnir og hæðin fimm álnir, úr tvinnaðri baðmull og undirstöðurnar af eiri.
27:19 Öll áhöld tjaldbúðarinnar, til hverrar þjónustugjörðar í henni sem vera skal, svo og allir hælar, sem henni tilheyra, og allir hælar, sem forgarðinum tilheyra, skulu vera af eiri.
27:20 Þú skalt bjóða Ísraelsmönnum að færa þér tæra olíu af steyttum olífuberjum til ljósastikunnar, svo að lampar verði ávallt settir upp.
27:21 Í samfundatjaldinu fyrir utan fortjaldið, sem er fyrir framan sáttmálið, skal Aron og synir hans tilreiða þá frammi fyrir Drottni, frá kveldi til morguns. Er það ævinleg skyldugreiðsla, er á Ísraelsmönnum hvílir frá kyni til kyns.