28:1 Þú skalt taka Aron bróður þinn og sonu hans með honum til þín úr sveit Ísraelsmanna, að hann þjóni mér í prestsembætti, þá Aron, Nadab og Abíhú, Eleasar og Ítamar, sonu Arons.
28:2 Þú skalt gjöra Aroni bróður þínum helg klæði til vegs og prýði.
28:3 Og þú skalt tala við alla hugvitsmenn, sem ég hefi fyllt hugvitsanda, og skulu þeir gjöra Aroni klæði, svo að hann verði vígður til að þjóna mér í prestsembætti.
28:4 Þessi eru klæðin, sem þeir skulu gjöra: Brjóstskjöldur, hökull, möttull, tiglofinn kyrtill, vefjarhöttur og belti. Þeir skulu gjöra Aroni bróður þínum og sonum hans helg klæði, að hann þjóni mér í prestsembætti,
28:5 og skulu þeir til þess taka gull, bláan purpura, rauðan purpura, skarlat og baðmull.
28:6 Þeir skulu gjöra hökulinn af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull með forkunnarlegu hagvirki.
28:7 Á honum skulu vera tveir axlarhlýrar, festir við báða enda hans, svo að hann verði festur saman.
28:8 Og hökullindinn, sem á honum er til að gyrða hann að sér, skal vera með sömu gerð og áfastur honum: af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull.
28:9 Því næst skalt þú taka tvo sjóamsteina og grafa á þá nöfn Ísraels sona:
28:10 Sex af nöfnum þeirra á annan steininn og nöfn hinna sex, er eftir verða, á hinn steininn, eftir aldri þeirra.
28:11 Þú skalt grafa nöfn Ísraels sona á báða steinana með steinskurði, innsiglisgrefti, og greypa þá inn í umgjarðir af gulli.
28:12 Og þú skalt festa báða steinana á axlarhlýra hökulsins, að þeir séu minnissteinar Ísraelsmönnum, og skal Aron bera nöfn þeirra frammi fyrir Drottni á báðum öxlum sér, til minningar.
28:13 Og þú skalt gjöra umgjarðir af gulli
28:14 og tvær festar af skíru gulli. Þú skalt gjöra þær snúnar sem fléttur, og þú skalt festa þessar fléttuðu festar við umgjarðirnar.
28:15 Þú skalt og búa til dómskjöld, gjörðan með listasmíði. Skalt þú búa hann til með sömu gerð og hökulinn; af gulli, bláum purpura, rauðum purpura, skarlati og tvinnaðri baðmull skalt þú gjöra hann.
28:16 Hann skal vera ferhyrndur og tvöfaldur, spannarlangur og spannarbreiður.
28:17 Þú skalt alsetja hann steinum í fjórum röðum: eina röð af karneól, tópas og smaragði, er það fyrsta röðin;
28:18 önnur röðin: karbunkull, safír og jaspis;
28:19 þriðja röðin: hýasint, agat og ametýst;
28:20 og fjórða röðin: krýsolít, sjóam og ónýx. Þeir skulu greyptir vera í gull, hver á sínum stað.
28:21 Steinarnir skulu vera tólf, eftir nöfnum Ísraels sona, og vera með nöfnum þeirra. Þeir skulu vera grafnir með innsiglisgrefti, og skal sitt nafn vera á hverjum þeirra, eftir þeim tólf kynkvíslum.
28:22 Þú skalt gjöra festar til brjóstskjaldarins, snúnar eins og fléttur, af skíru gulli.
28:23 Þú skalt og gjöra til brjóstskjaldarins tvo hringa af gulli og festa þessa tvo hringa á tvö horn brjóstskjaldarins.
28:24 Síðan skalt þú festa báðar gullflétturnar í þessa tvo hringa á hornum brjóstskjaldarins.
28:25 En tvo enda beggja snúnu festanna skalt þú festa við umgjarðirnar tvær og festa þær við axlarhlýra hökulsins, á hann framanverðan.
28:26 Þá skalt þú enn gjöra tvo hringa af gulli og festa þá í tvö horn brjóstskjaldarins, innanvert í þá brúnina, sem að höklinum veit.
28:27 Og enn skalt þú gjöra tvo hringa af gulli og festa þá á báða axlarhlýra hökulsins, neðan til á hann framanverðan, þar sem hann er tengdur saman, fyrir ofan hökullindann.
28:28 Nú skal knýta brjóstskjöldinn með hringum hans við hökulhringana með snúru af bláum purpura, svo að hann liggi fyrir ofan hökullindann, og mun þá eigi brjóstskjöldurinn losna við hökulinn.
28:29 Aron skal bera nöfn Ísraels sona í dómskildinum á brjósti sér, þegar hann gengur inn í helgidóminn, til stöðugrar minningar frammi fyrir Drottni.
28:30 Og þú skalt leggja inn í dómskjöldinn úrím og túmmím, svo að það sé á brjósti Arons, þegar hann gengur inn fyrir Drottin, og Aron skal ávallt bera dóm Ísraelsmanna á brjósti sér frammi fyrir Drottni.
28:31 Hökulmöttulinn skalt þú allan gjöra af bláum purpura.
28:32 Á honum skal vera hálsmál faldað með ofnum borða, eins og á brynju, svo að ekki rifni út úr.
28:33 Á faldi hans skalt þú búa til granatepli af bláum purpura, rauðum purpura og skarlati, á faldi hans allt í kring, og bjöllur af gulli í milli eplanna allt í kring,
28:34 svo að fyrst komi gullbjalla og granatepli, og þá aftur gullbjalla og granatepli, allt í kring á möttulfaldinum.
28:35 Í honum skal Aron vera, þegar hann embættar, svo að heyra megi til hans, þegar hann gengur inn í helgidóminn fram fyrir Drottin og þá er hann gengur út, svo að hann deyi ekki.
28:36 Þú skalt gjöra spöng af skíru gulli og grafa á hana með innsiglisgrefti: ,Helgaður Drottni.`
28:37 Og þú skalt festa hana á snúru af bláum purpura, og skal hún vera á vefjarhettinum. Framan á vefjarhettinum skal hún vera.
28:38 Og hún skal vera á enni Arons, svo að Aron taki á sig galla þá, er verða kunna á hinum helgu fórnum, er Ísraelsmenn fram bera, hverjar svo sem helgigjafir þeirra eru. Hún skal ætíð vera á enni hans til þess að gjöra þær velþóknanlegar fyrir Drottni.
28:39 Þú skalt tiglvefa kyrtilinn af baðmull og gjöra vefjarhött af baðmull og búa til glitofið belti.
28:40 Þú skalt og gjöra kyrtla handa sonum Arons og búa þeim til belti. Einnig skalt þú gjöra þeim höfuðdúka til vegs og prýði.
28:41 Þú skalt færa Aron bróður þinn og sonu hans með honum í það, og þú skalt smyrja þá og fylla hendur þeirra og helga þá til að þjóna mér í prestsembætti.
28:42 Þú skalt og gjöra þeim línbrækur til að hylja með blygðun þeirra. Þær skulu ná frá mjöðmum niður á læri.
28:43 Í þeim skal Aron og synir hans vera, er þeir ganga inn í samfundatjaldið eða nálgast altarið til að embætta í helgidóminum, að þeir eigi baki sér sekt og deyi. Þetta skal vera ævinlegt lögmál fyrir hann og niðja hans eftir hann.