Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - EZEKIEL 27

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    27:1 Og orð Drottins kom til mín, svohljóðandi:

    27:2 ,,Þú mannsson, hef upp harmljóð um Týrus

    27:3 og seg við Týrus, sem liggur við víkurnar og rekur verslun við þjóðirnar til margra eylanda: Svo segir Drottinn Guð: Týrus, þú hugsaðir: ,Ég er algjör að fegurð!`

    27:4 Landsvæði þitt er úti í hafinu, þeir, er reistu þig, hafa gjört þig aðdáanlega fagra.

    27:5 Af kýprestrjám frá Senír gjörðu þeir alla innviði þína, þeir tóku sedrusvið frá Líbanon til þess að gjöra af siglutré þitt.

    27:6 Árar þínar gjörðu þeir úr eikitrjám frá Basan, þiljurnar gjörðu þeir úr buksviði frá eyjum Kitta og greyptu inn í þær fílsbein.

    27:7 Glitofið lín frá Egyptalandi var það, sem þú breiddir út, til þess að hafa það að veifu. Tjöld þín voru úr bláum og rauðum purpura frá Elísaströndum.

    27:8 Sídoningar og Arvadbúar voru hásetar hjá þér, hinir kænstu menn, sem til voru hjá þér, Týrus, voru stýrimenn þínir.

    27:9 Fyrirmenn frá Gebal og listkænir menn þaðan voru þeir, sem gjörðu við lekann á þér, öll hafskip og áhöfn þeirra kom til þín til þess að kaupa varning þinn.

    27:10 Menn frá Paras, Lúd og Pút voru í her þínum sem hermenn þínir, skjöld og hjálm festu þeir upp hjá þér, þeir gjörðu þig veglega.

    27:11 Arvadmenn og her þeirra voru umhverfis á múrum þínum og Gammadar í turnum þínum. Þeir festu skjöldu sína upp á múra þína hringinn í kring, þeir gjörðu þig aðdáanlega fagra.

    27:12 Tarsis átti kaupskap við þig, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris. Silfur, járn, tin og blý fluttu þeir á kauptorg þitt.

    27:13 Javan, Túbal og Mesek keyptu við þig, mansmenn og eirílát fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

    27:14 Tógarmamenn fluttu áburðarhesta, reiðhesta og múlasna á kauptorg þitt.

    27:15 Ródusmenn keyptu við þig, margar eyjar voru þínir kaupunautar, fílsbein og íbenvið greiddu þeir þér í skatt.

    27:16 Aram átti kaupskap við þig, sökum þess að þú áttir gnótt iðnaðarvarnings. Karbunkulrauðan purpura, glitvefnað, býssus, kóralla og jaspis fluttu þeir á kauptorg þitt.

    27:17 Júda og Ísraelsland keyptu við þig. Hveiti frá Minnít, vax, hunang, olíu og balsam fluttu þeir til kaupstefnu þinnar.

    27:18 Damaskus átti kaupskap við þig um þinn margháttaða iðnaðarvarning, af því að þú áttir gnótt alls konar kaupeyris, um vín frá Helbón og ull frá Sahar.

    27:19 Og vín frá Úsal fluttu þeir á kauptorg þitt, smíðað járn, kanelviður og ilmreyr kom til kaupstefnu þinnar.

    27:20 Dedan verslaði við þig með söðuláklæði til að ríða á.

    27:21 Arabar og allir höfðingjar Kedars voru kaupunautar þínir, þeir seldu þér lömb, hrúta og hafra.

    27:22 Kaupmenn frá Saba og Raema keyptu við þig. Hinar bestu kryddjurtir, alls konar dýrindis steina og gull fluttu þeir á kauptorg þitt.

    27:23 Haran, Kanne og Eden voru kaupunautar þínir, og Assýría og öll Medía keyptu við þig.

    27:24 Þeir versluðu við þig með skartklæði, með skikkjur úr bláum purpura og glitofnar, og með ofnar ábreiður marglitar, og með snúnar og fast undnar snúrur á sölutorgi þínu.

    27:25 Tarsis-knerrir fluttu vörur þínar, og þannig fylltir þú þig og varðst mjög hlaðin úti á hafinu.

    27:26 Þeir, er reru þér, fluttu þig út á rúmsjó. Austanvindurinn braut þig í spón úti á miðju hafi.

    27:27 Auðæfi þín, kaupeyrir þinn og vörur þínar, hásetar þínir og stýrimenn, þeir sem gjörðu við lekann á þér og þeir sem seldu vörur þínar og allir hermenn þínir, sem í þér eru, og allur mannfjöldinn, sem í þér er, munu sökkva í hafið þann dag, er þú ferst.

    27:28 Af hljóðum stýrimanna þinna munu öldudjúpin skjálfa.

    27:29 Þá munu allir þeir, er á árum halda, stíga af skipum sínum, hásetarnir, allir stýrimenn á sjónum munu ganga á land.

    27:30 Og þeir munu æpa hástöfum yfir þér og hljóða sáran og ausa moldu yfir höfuð sér, velta sér í ösku.

    27:31 Þeir munu raka á sig skalla þín vegna og gyrðast hærusekk og gráta yfir þér kvíðafullir í sárri hryggð.

    27:32 Og þeir munu hefja upp harmljóð um þig og harma þig: ,Hver var sem Týrus, er nú er í eyði lögð úti í hafinu!`

    27:33 Þegar varningur þinn kom af sjónum, mettaðir þú margar þjóðir, með gnótt auðlegðar þinnar og kaupeyris þíns auðgaðir þú konunga jarðarinnar.

    27:34 Nú liggur þú brotin á hafinu, í djúpum hafsins, varningur þinn sökk og allur mannfjöldinn, sem í þér var.

    27:35 Allir þeir, sem strandlendin byggja, eru agndofa yfir þér, og konungum þeirra blöskrar svo, að ásjónur þeirra blikna.

    27:36 Verslunarmenn þjóðanna blístra að þér, þú fórst voveiflega og ert eilíflega horfin.``

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine