29:1 Á tíunda árinu, tólfta dag hins tíunda mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
29:2 ,,Mannsson, snú þér að Faraó, Egyptalandskonungi, og spá gegn honum og gegn öllu Egyptalandi.
29:3 Tala og seg: Svo segir Drottinn Guð: Sjá, ég skal finna þig, Faraó, Egyptalandskonungur, þú mikli krókódíll, sem liggur milli árkvíslanna og segir: ,Fljótið er mitt, ég hefi sjálfur búið það til!`
29:4 Og ég skal setja króka í kjálka þína og láta fiskana í fljótum þínum loða á hreistri þínu og draga þig upp úr fljótum þínum, ásamt öllum fiskunum í fljótum þínum, þeim er loða á hreistri þínu.
29:5 Og ég skal varpa þér út á eyðimörk, þér og öllum fiskunum í fljótum þínum. Þú skalt falla úti á bersvæði, þú munt ekki verða tekinn upp né jarðaður. Ég gef þig dýrum jarðarinnar og fuglum himinsins til fæðslu.
29:6 Þá skulu allir íbúar Egyptalands viðurkenna, að ég er Drottinn, af því að þú ert Ísraelsmönnum ekki annað en stafur úr sefreyr.
29:7 Þegar þeir grípa um þig með hendinni, þá brotnar þú og fleiðrar alla höndina á þeim, og þegar þeir styðjast við þig, þá brestur þú í sundur og linar þá í öllum mjöðmunum.
29:8 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég skal láta sverðið koma yfir þig og gjöreyða hjá þér mönnum og fénaði.
29:9 Og Egyptaland skal verða að auðn og öræfum, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn. Af því að þú hefir sagt: ,Fljótið er mitt og ég hefi búið það til!`
29:10 sjá, fyrir því skal ég finna þig og árkvíslar þínar og gjöra Egyptaland að öræfum, að eyðiöræfum frá Migdól til Sýene og allt að landamerkjum Blálands.
29:11 Enginn maður skal stíga þar fæti sínum og engin skepna skal stíga þar fæti sínum, og það skal vera óbyggt í fjörutíu ár.
29:12 Og ég skal gjöra Egyptaland að auðn innan um eyðilönd, og borgir þess skulu liggja í eyði innan um borgir, sem liggja í rústum, í fjörutíu ár, og ég mun tvístra Egyptum meðal þjóðanna og dreifa þeim út um löndin.
29:13 Svo segir Drottinn Guð: Þegar fjörutíu ár eru liðin, mun ég saman safna Egyptum frá þeim þjóðum, þangað sem þeim var tvístrað,
29:14 og ég mun snúa við högum Egyptalands og flytja þá aftur inn í landið Patrós, landið þar sem þeir eru upprunnir, og þar munu þeir vera lítilfjörlegt ríki.
29:15 Það mun verða lítilfjörlegra en hin ríkin og ekki framar hefja sig upp yfir þjóðirnar, og ég gjöri þá fámenna, til þess að þeir geti ekki drottnað yfir þjóðunum.
29:16 Þá mun Egyptaland ekki framar vera Ísraelsmönnum traust, er minni á misgjörð þeirra, er þeir leita bandalags við það, og þeir munu viðurkenna, að ég er Drottinn Guð.``
29:17 En á tuttugasta og sjöunda árinu, hinn fyrsta dag hins fyrsta mánaðar, kom orð Drottins til mín, svohljóðandi:
29:18 ,,Mannsson, Nebúkadresar konungur í Babýlon hefir látið herlið sitt vinna mikið verk á Týrus. Höfuð allra manna hans eru orðin hárlaus og axlir þeirra gnúnar, og þó hefir hvorki hann né herlið hans fengið nein laun frá Týrus fyrir það verk, er hann hefir á henni unnið.
29:19 Fyrir því segir Drottinn Guð svo: Sjá, ég gef Nebúkadresar Babelkonungi Egyptaland. Hann skal flytja burt auðæfi þess og fara þar með rán og rifs, það skulu vera launin handa herliði hans.
29:20 Sem endurgjald handa því, er það hefir unnið fyrir, gef ég því Egyptaland, _ segir Drottinn Guð.
29:21 Á þeim degi vil ég láta Ísraels húsi horn vaxa, og þá mun ég gefa þér að upp ljúka munni þínum meðal þeirra, til þess að þeir viðurkenni, að ég er Drottinn.``