13:2 Gleymið ekki gestrisninni, því að vegna hennar hafa sumir hýst engla án þess að vita.
13:3 Minnist bandingjanna, sem væruð þér sambandingjar þeirra. Minnist þeirra er illt líða, þar sem þér sjálfir eruð einnig með líkama.
13:4 Hjúskapurinn sé í heiðri hafður í öllum greinum og hjónasængin sé óflekkuð, því að hórkarla og frillulífismenn mun Guð dæma.
13:5 Sýnið enga fégirni í hegðun yðar, en látið yður nægja það, sem þér hafið. Guð hefur sjálfur sagt: ,,Ég mun ekki sleppa af þér hendinni né yfirgefa þig.``
13:6 Því getum vér öruggir sagt: Drottinn er minn hjálpari, eigi mun ég óttast. Hvað geta mennirnir gjört mér?
13:7 Verið minnugir leiðtoga yðar, sem Guðs orð hafa til yðar talað. Virðið fyrir yður, hvernig ævi þeirra lauk, og líkið eftir trú þeirra.
13:8 Jesús Kristur er í gær og í dag hinn sami og um aldir.
13:9 Látið ekki afvegaleiða yður af ýmislegum framandi kenningum. Það er gott að hjartað styrkist við náð, ekki mataræði. Þeir, sem sinntu slíku, höfðu eigi happ af því.
13:10 Vér höfum altari, og hafa þeir, er tjaldbúðinni þjóna, ekki leyfi til að eta af því.
13:11 Því að brennd eru fyrir utan herbúðirnar hræ þeirra dýra, sem æðsti presturinn ber blóðið úr inn í helgidóminn til syndafórnar.
13:12 Þess vegna leið og Jesús fyrir utan hliðið, til þess að hann helgaði lýðinn með blóði sínu.
13:13 Göngum því til hans út fyrir herbúðirnar og berum vanvirðu hans.
13:14 Því að hér höfum vér ekki borg er stendur, heldur leitum vér hinnar komandi.
13:15 Fyrir hann skulum vér því án afláts bera fram lofgjörðarfórn fyrir Guð, ávöxt vara, er játa nafn hans.
13:16 En gleymið ekki velgjörðaseminni og hjálpseminni, því að slíkar fórnir eru Guði þóknanlegar.
13:17 Hlýðið leiðtogum yðar og verið þeim eftirlátir. Þeir vaka yfir sálum yðar og eiga að lúka reikning fyrir þær. Verið þeim eftirlátir til þess að þeir geti gjört það með gleði, ekki andvarpandi. Það væri yður til ógagns.
13:18 Biðjið fyrir oss, því að vér erum þess fullvissir, að vér höfum góða samvisku og viljum í öllum greinum breyta vel.
13:19 Ég bið yður enn rækilegar um að gjöra þetta, til þess að þér fáið mig brátt aftur heimtan.
13:20 En Guð friðarins, er leiddi hinn mikla hirði sauðanna, Drottin vorn Jesú, upp frá dauðum með blóði eilífs sáttmála,
13:21 hann fullkomni yður í öllu góðu til að gjöra vilja hans og komi því til leiðar í oss, sem þóknanlegt er í hans augum, fyrir Jesú Krist. Honum sé dýrð um aldir alda. Amen.
13:22 Ég bið yður, bræður, að þér takið vel þessum áminningarorðum. Fáort hef ég ritað yður.
13:23 Vita skuluð þér, að bróðir vor Tímóteus hefur verið látinn laus og ásamt honum mun ég heimsækja yður, komi hann bráðum.
13:24 Berið kveðju öllum leiðtogum yðar og öllum heilögum. Mennirnir frá Ítalíu senda yður kveðju.