1:1 Jakob, þjónn Guðs og Drottins Jesú Krists, heilsar þeim tólf kynkvíslum í dreifingunni.
1:2 Álítið það, bræður mínir, eintómt gleðiefni, er þér ratið í ýmiss konar raunir.
1:3 Þér vitið, að trúarstaðfesta yðar vekur þolgæði,
1:4 en þolgæðið á að birtast í fullkomnu verki, til þess að þér séuð fullkomnir og algjörir og yður sé í engu ábótavant.
1:5 Ef einhvern yðar brestur visku, þá biðji hann Guð, sem gefur öllum örlátlega og átölulaust, og honum mun gefast.
1:6 En hann biðji í trú, án þess að efast. Sá sem efast er líkur sjávaröldu, er rís og hrekst fyrir vindi.
1:7 Sá maður, tvílyndur og reikull á öllum vegum sínum, má eigi ætla,
1:8 að hann fái nokkuð hjá Drottni.
1:9 Lágt settur bróðir hrósi sér af upphefð sinni,
1:10 en auðugur af lægingu sinni, því hann mun líða undir lok eins og blóm á engi.
1:11 Sólin kemur upp með steikjandi hita og brennir grasið, og blóm þess dettur af og fegurð þess verður að engu. Þannig mun og hinn auðugi maður visna upp á vegum sínum.
1:12 Sæll er sá maður, sem stenst freistingu, því að þegar hann hefur reynst hæfur mun hann öðlast kórónu lífsins, sem Guð hefur heitið þeim er elska hann.
1:13 Enginn má segja, er hann verður fyrir freistingu: ,,Guð freistar mín.`` Guð getur eigi orðið fyrir freistingu af hinu illa, enda freistar hann sjálfur einskis manns.
1:14 Það er eigin girnd, sem freistar sérhvers manns og dregur hann og tælir.
1:15 Þegar girndin síðan er orðin þunguð, elur hún synd, og þegar syndin er orðin fullþroskuð, fæðir hún dauða.
1:16 Villist ekki, bræður mínir elskaðir!
1:17 Sérhver góð gjöf og sérhver fullkomin gáfa er ofan að og kemur niður frá föður ljósanna. Hjá honum er engin umbreyting né skuggar, sem koma og fara.
1:18 Eftir ráðsályktun sinni fæddi hann oss með orði sannleikans, til þess að vér skyldum vera frumgróði sköpunar hans.
1:19 Vitið, bræður mínir elskaðir: Hver maður skal vera fljótur til að heyra, seinn til að tala, seinn til reiði.
1:20 Því að reiði manns ávinnur ekki það, sem rétt er fyrir Guði.
1:21 Leggið því af hvers konar saurugleik og alla vonsku og takið með hógværð á móti hinu gróðursetta orði, er frelsað getur sálir yðar.
1:22 Verðið gjörendur orðsins og eigi aðeins heyrendur þess, ella svíkið þér sjálfa yður.
1:23 Því að ef einhver er heyrandi orðsins og ekki gjörandi, þá er hann líkur manni, er skoðar andlit sitt í spegli.
1:24 Hann skoðar sjálfan sig, fer burt og gleymir jafnskjótt, hvernig hann var.
1:25 En sá sem skyggnist inn í hið fullkomna lögmál frelsisins og heldur sér við það og gleymir ekki því, sem hann heyrir, heldur framkvæmir það, hann mun sæll verða í verkum sínum.
1:26 Sá sem þykist vera guðrækinn, en hefur ekki taumhald á tungu sinni, blekkir sjálfan sig og guðrækni hans er fánýt.
1:27 Hrein og flekklaus guðrækni fyrir Guði og föður er þetta, að vitja munaðarlausra og ekkna í þrengingu þeirra og varðveita sjálfan sig óflekkaðan af heiminum.