13:1 Svo mælti Drottinn við mig: Far og kaup þér línbelti og legg það um lendar þér, en lát það ekki koma í vatn.
13:2 Og ég keypti beltið eftir orði Drottins og lagði um lendar mér.
13:3 Og orð Drottins kom til mín annað sinn, svohljóðandi:
13:4 Tak beltið, sem þú keyptir og um lendar þínar er, og legg af stað og far austur að Efrat og fel það þar í bergskoru.
13:5 Og ég fór og fal það hjá Efrat, eins og Drottinn hafði boðið mér.
13:6 En er alllangur tími var um liðinn, sagði Drottinn við mig: Legg af stað og far austur að Efrat og tak þar beltið, sem ég bauð þér að fela þar.
13:7 Og ég fór austur að Efrat, gróf og tók beltið á þeim stað, sem ég hafði falið það. En sjá, beltið var orðið skemmt, til einskis nýtt framar.
13:8 Og orð Drottins kom til mín, svo hljóðandi:
13:9 Svo segir Drottinn: Þannig vil ég skemma hroka Júda og hroka Jerúsalem, þann hinn mikla.
13:10 Þessir vondu menn, sem ekki vilja hlýða orðum mínum, sem fara eftir þverúð hjarta síns og elta aðra guði til þess að þjóna þeim og falla fram fyrir þeim _ þeir skulu verða eins og þetta belti, sem til einskis er nýtt framar.
13:11 Því að eins og beltið fellir sig að lendum manns, eins hafði ég látið allt Ísraels hús og allt Júda hús fella sig að mér _ segir Drottinn _ til þess að það skyldi vera minn lýður og mér til frægðar, lofstírs og prýði, en þeir hlýddu ekki.
13:12 Mæl til þeirra þetta orð: Svo segir Drottinn, Ísraels Guð: ,,Sérhver krukka verður fyllt víni.`` En segi þeir þá við þig: ,,Vitum vér þá ekki, að sérhver krukka verður fyllt víni?``
13:13 þá seg við þá: ,,Svo segir Drottinn: Sjá, ég fylli alla íbúa þessa lands og konungana, sem sitja í hásæti Davíðs, og prestana og spámennina og alla Jerúsalembúa, svo að þeir verði drukknir,
13:14 og mola þá sundur hvern við annan, feður og sonu alla saman _ segir Drottinn. Ég tortími þeim hlífðarlaust, án nokkurrar vægðar og miskunnar.``
13:15 Heyrið og takið eftir! Verið ekki dramblátir, því að Drottinn hefir talað!
13:16 Gefið Drottni, Guði yðar, dýrðina, áður en dimmir, áður en fætur yðar steyta á rökkurfjöllum. Þér væntið ljóss, en hann mun breyta því í niðdimmu og gjöra það að svartamyrkri.
13:17 En ef þér hlýðið því ekki, þá mun ég í leyni gráta vegna hrokans og sífellt tárast, já augu mín munu fljóta í tárum, af því að hjörð Drottins verður flutt burt hertekin.
13:18 Seg við konung og við konungsmóður: ,,Setjist lágt, því að fallin er af höfðum yðar dýrlega kórónan!
13:19 Borgir Suðurlandsins eru lokaðar, og enginn opnar, Júdalýður hefur verið burt fluttur allur saman, burt fluttur með tölu.``
13:20 Hef upp augu þín og sjá, þeir koma að norðan! Hvar er hjörðin, sem þér var fengin, þínir ágætu sauðir?
13:21 Hvað munt þú segja, þegar þeir setja þá menn höfðingja yfir þig, sem þú hefir sjálf kennt að vera á móti þér? Munu ekki hviður að þér koma, eins og að jóðsjúkri konu,
13:22 er þú segir í hjarta þínu: ,Hví ber mér slíkt að höndum?` Sakir þinnar miklu misgjörðar er klæðafaldi þínum upp flett, hælar þínir með valdi berir gjörðir.
13:23 Getur blámaður breytt hörundslit sínum eða pardusdýrið flekkjum sínum? Ef svo væri munduð þér og megna að breyta vel, þér sem vanist hafið að gjöra illt.
13:24 Ég vil tvístra þeim eins og hálmleggjum, sem berast fyrir eyðimerkurvindi.
13:25 Þetta er hlutur þinn, afmældur skammtur þinn frá minni hendi _ segir Drottinn _ af því að þú hefir gleymt mér og treystir á lygi.
13:26 Fyrir því kippi ég og klæðafaldi þínum upp að framan, svo að blygðan þín verði ber.
13:27 Hórdóm þinn og losta-hví, hið svívirðilega fúllífi þitt _ á fórnarhæðunum úti á víðavangi hefi ég séð viðurstyggðir þínar. Vei þér, Jerúsalem, þú munt ekki hrein verða _ hve langt mun enn þangað til?