Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - JEREMIAH 49

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    49:1 Um Ammóníta. Svo segir Drottinn: Á þá Ísrael enga sonu, eða á hann engan erfingja? Hví hefir Milkóm erft Gað og hví hefir lýður hans setst að í borgum hans?

    49:2 Sjá, þeir dagar munu koma _ segir Drottinn _ að ég læt heróp heyrast til Rabba, borgar Ammóníta, og hún skal verða að grjóthrúgu og dæturnar eyðast í eldi, og þá skal Ísrael erfa aftur erfingja sína _ segir Drottinn.

    49:3 Hljóða þú, Hesbon, yfir því að borgin er unnin! Kveinið Rabbadætur! Gyrðist hærusekk, harmið og reikið um innan fjárgirðinganna, því að Milkóm verður að fara í útlegð, prestar hans og höfðingjar hverjir með öðrum.

    49:4 Hví stærir þú þig af dölunum, af frjósemi dals þíns, fráhverfa dóttir, sem reiðir sig á fjársjóðu sína og segir: ,,Hver skyldi ráða á mig?``

    49:5 Sjá, ég læt skelfingu koma yfir þig _ segir herrann, Drottinn allsherjar _ úr öllum áttum í kringum þig, og þér skuluð verða reknir brott, hver það sem horfir, og enginn safnar þeim saman, er flýja.

    49:6 En síðar meir mun ég leiða heim aftur hina herleiddu af Ammónítum _ segir Drottinn.

    49:7 Um Edóm. Svo segir Drottinn allsherjar: Er þá engin viska framar í Teman? Eru góð ráð horfin hinum hyggnu, er viska þeirra þrotin?

    49:8 Flýið, hverfið brott, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Dedans! Því að Esaús glötun læt ég yfir hann koma, þá er ég hegni honum.

    49:9 Ef vínlestursmenn ráðast á þig, þá skilja þeir ekki neinn eftirtíning eftir. Ef þjófar koma að þér á náttarþeli, þá skemma þeir, þar til er þeim nægir.

    49:10 En af því að ég sjálfur afhjúpa Esaú, gjöri ber fylgsni hans, svo að hann getur ekki falið sig, þá verða niðjar hans unnir og frændþjóðir hans og nábúar, og úti er um hann.

    49:11 Yfirgef munaðarleysingja þína, _ ég mun halda lífinu í þeim, og ekkjur þínar mega reiða sig á mig!

    49:12 Svo segir Drottinn: Sjá, þeim sem eigi bar að drekka bikarinn, þeir urðu að drekka hann _ og þú ættir að sleppa óhegndur? Þú munt ekki sleppa óhegndur, heldur skalt þú drekka.

    49:13 Því að ég sver við sjálfan mig _ segir Drottinn _, að Bosra skal verða að skelfing, háðung, undrun og formæling, og allar borgir hennar skulu verða að eilífum rústum.

    49:14 Ég hefi fengið vitneskju frá Drottni, og boðberi er sendur meðal þjóðanna! Safnist saman og farið gegn borginni og búist til bardaga!

    49:15 Sjá, ég vil gjöra þig litla meðal þjóðanna, fyrirlitna meðal mannanna.

    49:16 Skelfingin, sem þú skaust öðrum í brjóst, og hroki hjarta þíns hafa dregið þig á tálar, þú sem átt byggð í klettaskorum, situr á háa hnúknum. Þó að þú byggðir hreiður þitt hátt, eins og örninn, þá steypi ég þér þaðan niður _ segir Drottinn.

    49:17 Edóm skal verða að skelfingu, hver sem fer þar um mun skelfast og hæðast að öllum áföllunum, er hann hefir orðið fyrir.

    49:18 Eins og Sódómu og Gómorru og nágrannaborgunum var umturnað, segir Drottinn, svo skal og enginn maður búa þar, né nokkurt mannsbarn hafast þar við.

    49:19 Sjá, eins og ljón, sem kemur út úr kjarrinu á Jórdanbökkum og stígur upp á sígrænt engið, svo mun ég skyndilega reka hann burt þaðan, og hvern þann, sem útvalinn er, mun ég setja yfir hana. Því að hver er minn líki? Hver vill stefna mér? Hver er sá hirðir, er fái staðist fyrir mér?

    49:20 Heyrið því ráðsályktun Drottins, er hann hefir gjört viðvíkjandi Edóm, og þær fyrirætlanir, er hann hefir í huga viðvíkjandi Teman-búum: Sannarlega munu þeir draga hina lítilmótlegustu úr hjörðinni burt. Sannarlega skal haglendi þeirra verða agndofa yfir þeim.

    49:21 Af dyn falls þeirra nötrar jörðin, neyðarkveinið _ ómurinn af því heyrist við Rauðahafið.

    49:22 Sjá, sem örn stígur hann upp og flýgur hingað og breiðir út vængi sína yfir Bosra, og hjarta Edóms kappa mun á þeim degi verða eins og hjarta konu, sem er í barnsnauð.

    49:23 Um Damaskus. Hamat og Arpad eru agndofa, því að þær hafa spurt ill tíðindi, þær eru hræddar, fullar af óró, eins og hafið, sem getur ekki verið kyrrt.

    49:24 Damaskus er orðin huglaus, hefir snúist á flótta, og ótti hefir gripið hana, angist og kvalir hafa altekið hana, eins og jóðsjúka konu.

    49:25 Hví var hún ekki yfirgefin, hin vegsamaða borg, ununar-borgin mín?

    49:26 Fyrir því verða nú æskumenn hennar að falla á torgunum og allir hermenn hennar að farast á þeim degi _ segir Drottinn allsherjar.

    49:27 Og ég kveiki eld við múra Damaskus, til þess að hann eyði höllum Benhadads.

    49:28 Um Kedar og konungsríki Hasórs, er Nebúkadresar Babelkonungur vann. Svo segir Drottinn: Standið upp, farið á móti Kedar og herjið á austurbyggja.

    49:29 Tjöld þeirra og sauði munu þeir taka, og tjalddúka þeirra og öll áhöld og úlfalda þeirra munu þeir flytja burt frá þeim. Þá munu menn hrópa yfir þeim: ,,Skelfing allt um kring!``

    49:30 Leggið á flótta, flýið sem hraðast, felið yður djúpt niðri, þér íbúar Hasórs _ segir Drottinn, því að Nebúkadresar Babelkonungur hefir gjört ráðsályktun gegn yður og hefir í huga ráðagjörð gegn yður.

    49:31 Af stað! Farið á móti meinlausri þjóð, sem býr örugg _ segir Drottinn _, og hvorki hefir hurðir né slagbranda. Þeir búa einir sér.

    49:32 Úlfaldar þeirra skulu verða að ránsfeng og mergð nautahjarða þeirra að herfangi, og ég mun dreifa þeim fyrir öllum vindum, þeim sem skera hár sitt við vangann, og láta ógæfu hvaðanæva yfir þá koma _ segir Drottinn.

    49:33 Hasór skal verða að sjakalabæli, að auðn um eilífð. Enginn maður mun framar búa þar og ekkert mannsbarn hafast þar við.

    49:34 Þetta birtist Jeremía spámanni sem orð Drottins um Elam í upphafi ríkisstjórnar Sedekía Júdakonungs:

    49:35 Svo segir Drottinn allsherjar: Sjá, ég brýt sundur boga Elamíta, meginstyrk þeirra.

    49:36 Og ég hleypi á Elamíta fjórum vindum úr fjórum áttum himins og tvístra þeim fyrir öllum þessum vindum, og engin skal sú þjóð til vera, að þangað komi ekki flóttamenn frá Elam.

    49:37 Ég læt Elamíta skelfast fyrir óvinum þeirra og fyrir þeim, er sækjast eftir lífi þeirra, og leiði yfir þá óhamingju, mína brennandi reiði _ segir Drottinn _ og sendi sverðið á eftir þeim, uns ég hefi gjöreytt þeim.

    49:38 Ég reisi hásæti mitt í Elam og eyði þaðan konungi og höfðingjum _ segir Drottinn.

    49:39 En þá er fram líða stundir mun ég snúa við högum Elams _ segir Drottinn.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine