4:1 Jónasi mislíkaði þetta mjög, og hann varð reiður.
4:2 Og hann bað til Drottins og sagði: ,,Æ, Drottinn! Kemur nú ekki að því sem ég hugsaði, meðan ég enn var heima í mínu landi? Þess vegna ætlaði ég áður fyrr að flýja til Tarsis, því að ég vissi, að þú ert líknsamur og miskunnsamur Guð, þolinmóður og gæskuríkur og lætur þig angra hins vonda.
4:3 Tak nú, Drottinn, önd mína frá mér, því að mér er betra að deyja en lifa.``
4:4 En Drottinn sagði: ,,Er það rétt gjört af þér að reiðast svo?``
4:5 Því næst fór Jónas út úr borginni og bjóst um fyrir austan borgina. Þar gjörði hann sér laufskála og settist undir hann í forsælunni og beið þess að hann sæi, hvernig borginni reiddi af.
4:6 Þá lét Drottinn Guð rísínusrunn upp spretta yfir Jónas til þess að bera skugga á höfuð hans og til þess að hafa af honum óhuginn, og varð Jónas stórlega feginn rísínusrunninum.
4:7 En næsta dag, þegar morgunroðinn var á loft kominn, sendi Guð orm, sem stakk rísínusrunninn, svo að hann visnaði.
4:8 Og er sól var upp komin, sendi Guð brennheitan austanvind, og skein sólin svo heitt á höfuð Jónasi, að hann örmagnaðist. Þá óskaði hann sér dauða og sagði: ,,Mér er betra að deyja en lifa!``
4:9 Þá sagði Guð við Jónas: ,,Er það rétt gjört af þér að reiðast svo vegna rísínusrunnsins?`` Hann svaraði: ,,Það er rétt að ég reiðist til dauða!``
4:10 En Drottinn sagði: ,,Þig tekur sárt til rísínusrunnsins, sem þú hefir ekkert fyrir haft og ekki upp klakið, sem óx á einni nóttu og hvarf á einni nóttu.