1:1 Orð Drottins, sem kom til Míka frá Móreset á dögum Jótams, Akasar og Hiskía, Júdakonunga, það er honum vitraðist um Samaríu og Jerúsalem.
1:2 Heyrið, allir lýðir! Hlusta þú, jörð, og allt sem á þér er! Og Drottinn Guð veri vottur gegn yður, Drottinn frá sínu heilaga musteri.
1:3 Sjá, Drottinn mun út fara frá bústað sínum, mun ofan stíga og ganga eftir hæðum jarðarinnar.
1:4 Fjöllin munu bráðna undan honum og dalirnir klofna sem vax fyrir eldi, sem vatn, er steypist ofan bratta hlíð.
1:5 Og allt þetta sakir misgjörðar Jakobs og sakir syndar Ísraels húss. Hver er þá misgjörð Jakobs? Er það ekki Samaría? Og hver er synd Júda? Er það ekki Jerúsalem?
1:6 Ég gjöri því Samaríu að grjótrúst á víðavangi, að gróðurekru undir víngarða, og velti steinum hennar ofan í dalinn og læt sjást í beran grundvöllinn.
1:7 Öll skurðgoð hennar skulu sundur brotin verða og allar helgigjafir hennar í eldi brenndar, og öll guðalíkneski hennar vil ég framselja til eyðingar, því að hún hefir dregið þær saman úr hórgjöldum, og að hórgjöldum skulu þær aftur verða.
1:8 Vegna þessa vil ég harma og kveina, ganga berfættur og skikkjulaus, telja mér harmatölur eins og sjakalarnir og halda sorgarkvein eins og strútsfuglarnir.
1:9 Því að ólæknandi eru sár hennar. Já, það kemur allt til Júda, nær allt að hliðum þjóðar minnar, allt að Jerúsalem.
1:10 Segið ekki frá því í Gat, grátið ekki hátt! Veltið yður í duftinu í Betleafra!
1:11 Gangið fram smánarlega naktir, þér íbúar Safír! Íbúarnir í Saanan voga sér ekki út, harmakveinið í Bet Haesel aftrar yður frá að staðnæmast þar.
1:12 Því að íbúar Marót eru kvíðandi um sinn hag, já, ógæfa stígur niður frá Drottni allt að hliðum Jerúsalem.
1:13 Beitið gæðingum fyrir vagnana, þér íbúar Lakís! Í þeirri borg kom fyrst upp synd dótturinnar Síon; já, hjá yður fundust misgjörðir Ísraels.
1:14 Fyrir því verður þú að segja skilið við Móreset Gat. Húsin í Aksíb reynast Ísraelskonungum svikul.
1:15 Enn læt ég sigurvegarann yfir yður koma, þér íbúar Maresa. Tignarmenni Ísraels munu komast allt til Adúllam.
1:16 Raka hár þitt og skegg vegna þinna ástfólgnu barna, gjör skalla þinn breiðan sem á gammi, því að þau verða að fara hernumin burt frá þér.