Bad Advertisement?

News / Reviews:
  • World News
  • Movie Reviews
  • Book Search

    Are you a Christian?

    Online Store:
  • Visit Our eBay Store



  • ICELANDIC BIBLE - LUKE 2

    PREVIOUS CHAPTER - NEXT CHAPTER - HELP


    2:1 En það bar til um þessar mundir, að boð kom frá Ágústus keisara, að skrásetja skyldi alla heimsbyggðina.

    2:2 Þetta var fyrsta skrásetningin og var gjörð þá er Kýreníus var landstjóri á Sýrlandi.

    2:3 Fóru þá allir til að láta skrásetja sig, hver til sinnar borgar.

    2:4 Þá fór og Jósef úr Galíleu frá borginni Nasaret upp til Júdeu, til borgar Davíðs, sem heitir Betlehem, en hann var af ætt og kyni Davíðs,

    2:5 að láta skrásetja sig ásamt Maríu heitkonu sinni, sem var þunguð.

    2:6 En meðan þau voru þar, kom sá tími, er hún skyldi verða léttari.

    2:7 Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu, af því að eigi var rúm handa þeim í gistihúsi.

    2:8 En í sömu byggð voru hirðar úti í haga og gættu um nóttina hjarðar sinnar.

    2:9 Og engill Drottins stóð hjá þeim, og dýrð Drottins ljómaði kringum þá. Þeir urðu mjög hræddir,

    2:10 en engillinn sagði við þá: ,,Verið óhræddir, því sjá, ég boða yður mikinn fögnuð, sem veitast mun öllum lýðnum:

    2:11 Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.

    2:12 Og hafið þetta til marks: Þér munuð finna ungbarn reifað og lagt í jötu.``

    2:13 Og í sömu svipan var með englinum fjöldi himneskra hersveita, sem lofuðu Guð og sögðu:

    2:14 Dýrð sé Guði í upphæðum, og friður á jörðu með mönnum, sem hann hefur velþóknun á.

    2:15 Þegar englarnir voru farnir frá þeim til himins, sögðu hirðarnir sín á milli: ,,Förum beint til Betlehem að sjá það, sem gjörst hefur og Drottinn hefur kunngjört oss.``

    2:16 Og þeir fóru með skyndi og fundu Maríu og Jósef og ungbarnið, sem lá í jötu.

    2:17 Þegar þeir sáu það, skýrðu þeir frá því, er þeim hafði verið sagt um barn þetta.

    2:18 Og allir, sem heyrðu, undruðust það, er hirðarnir sögðu þeim.

    2:19 En María geymdi allt þetta í hjarta sér og hugleiddi það.

    2:20 Og hirðarnir sneru aftur og vegsömuðu Guð og lofuðu hann fyrir það, sem þeir höfðu heyrt og séð, en allt var það eins og þeim hafði verið sagt.

    2:21 Þegar átta dagar voru liðnir, skyldi umskera hann, og var hann látinn heita Jesús, eins og engillinn nefndi hann, áður en hann var getinn í móðurlífi.

    2:22 En er hreinsunardagar þeirra voru úti eftir lögmáli Móse, fóru þau með hann upp til Jerúsalem til að færa hann Drottni, _

    2:23 en svo er ritað í lögmáli Drottins: ,,Allt karlkyns, er fyrst fæðist af móðurlífi, skal helgað Drottni,`` _

    2:24 og til að færa fórn eins og segir í lögmáli Drottins, ,,tvær turtildúfur eða tvær ungar dúfur.``

    2:25 Þá var í Jerúsalem maður, er Símeon hét. Hann var réttlátur og guðrækinn og vænti huggunar Ísraels, og yfir honum var heilagur andi.

    2:26 Honum hafði heilagur andi vitrað, að hann skyldi ekki dauðann sjá, fyrr en hann hefði séð Krist Drottins.

    2:27 Hann kom að tillaðan andans í helgidóminn. Og er foreldrarnir færðu þangað sveininn Jesú til að fara með hann eftir venju lögmálsins,

    2:28 tók Símeon hann í fangið, lofaði Guð og sagði:

    2:29 ,,Nú lætur þú, Drottinn, þjón þinn í friði fara, eins og þú hefur heitið mér,

    2:30 því að augu mín hafa séð hjálpræði þitt,

    2:31 sem þú hefur fyrirbúið í augsýn allra lýða,

    2:32 ljós til opinberunar heiðingjum og til vegsemdar lýð þínum Ísrael.``

    2:33 Faðir hans og móðir undruðust það, er sagt var um hann.

    2:34 En Símeon blessaði þau og sagði við Maríu móður hans: ,,Þessi sveinn er settur til falls og til viðreisnar mörgum í Ísrael og til tákns, sem móti verður mælt,

    2:35 og sjálf munt þú sverði níst í sálu þinni. Þannig munu hugsanir margra hjartna verða augljósar.``

    2:36 Og þar var Anna spákona Fanúelsdóttir af ætt Assers, kona háöldruð. Hafði hún lifað sjö ár með manni sínum frá því hún var mær

    2:37 og síðan verið ekkja fram á áttatíu og fjögra ára aldur. Hún vék eigi úr helgidóminum, en þjónaði Guði nótt og dag með föstum og bænahaldi.

    2:38 Hún kom að á sömu stundu og lofaði Guð. Og hún talaði um barnið við alla, sem væntu lausnar Jerúsalem.

    2:39 Og er þau höfðu lokið öllu eftir lögmáli Drottins, sneru þau aftur til Galíleu, til borgar sinnar Nasaret.

    2:40 En sveinninn óx og styrktist, fylltur visku, og náð Guðs var yfir honum.

    2:41 Foreldrar hans ferðuðust ár hvert til Jerúsalem á páskahátíðinni.

    2:42 Og þegar hann var tólf ára gamall, fóru þau upp þangað eins og siður var á hátíðinni.

    2:43 Þau voru þar út hátíðisdagana. En þegar þau sneru heimleiðis, varð sveinninn Jesús eftir í Jerúsalem, og vissu foreldrar hans það eigi.

    2:44 Þau hugðu, að hann væri með samferðafólkinu, og fóru eina dagleið og leituðu hans meðal frænda og kunningja.

    2:45 En þau fundu hann ekki og sneru þá aftur til Jerúsalem og leituðu hans.

    2:46 Eftir þrjá daga fundu þau hann í helgidóminum. Þar sat hann mitt á meðal lærifeðranna, hlýddi á þá og spurði þá.

    2:47 En alla, sem heyrðu til hans, furðaði stórum á skilningi hans og andsvörum.

    2:48 Og er þau sáu hann þar, brá þeim mjög, og móðir hans sagði við hann: ,,Barn, hví gjörðir þú okkur þetta? Við faðir þinn höfum leitað þín harmþrungin.``

    2:49 Og hann sagði við þau: ,,Hvers vegna voruð þið að leita að mér? Vissuð þið ekki, að mér ber að vera í húsi föður míns?``

    2:50 En þau skildu ekki það er hann talaði við þau.

    2:51 Og hann fór heim með þeim og kom til Nasaret og var þeim hlýðinn. En móðir hans geymdi allt þetta í hjarta sér.

    2:52 Og Jesús þroskaðist að visku og vexti, og náð hjá Guði og mönnum.

    GOTO NEXT CHAPTER - BIBLE INDEX & SEARCH

    God Rules.NET
    Search 100+ volumes of books at one time. Luther Bible Search Engine. Elberfelder Bible Search Engine. German SCH Bible Search Engine