3:1 Á fimmtánda stjórnarári Tíberíusar keisara, þegar Pontíus Pílatus var landstjóri í Júdeu, en Heródes fjórðungsstjóri í Galíleu, Filippus bróðir hans í Ítúreu og Trakónítishéraði og Lýsanías í Abílene,
3:2 í æðstapreststíð Annasar og Kaífasar, kom orð Guðs til Jóhannesar Sakaríasonar í óbyggðinni.
3:3 Og hann fór um alla Jórdanbyggð og prédikaði iðrunarskírn til fyrirgefningar synda,
3:4 eins og ritað er í bók Jesaja spámanns: Rödd hrópanda í eyðimörk: Greiðið veg Drottins, gjörið beinar brautir hans.
3:5 Öll gil skulu fyllast, öll fell og hálsar lægjast. Krókar skulu verða beinir og óvegir sléttar götur.
3:6 Og allir menn munu sjá hjálpræði Guðs.
3:7 Við mannfjöldann, sem fór út til að skírast af honum, sagði hann: ,,Þér nöðru kyn, hver kenndi yður að flýja komandi reiði?
3:8 Berið þá ávexti samboðna iðruninni, og farið ekki að segja með sjálfum yður: ,Vér eigum Abraham að föður.` Ég segi yður, að Guð getur vakið Abraham börn af steinum þessum.
3:9 Öxin er þegar lögð að rótum trjánna og hvert það tré, sem ber ekki góðan ávöxt, verður upp höggvið og í eld kastað.``
3:10 Mannfjöldinn spurði hann: ,,Hvað eigum vér þá að gjöra?``
3:11 En hann svaraði þeim: ,,Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur.``
3:12 Þá komu og tollheimtumenn til að skírast. Þeir sögðu við hann: ,,Meistari, hvað eigum vér að gjöra?``
3:13 En hann sagði við þá: ,,Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt.``
3:14 Hermenn spurðu hann einnig: ,,En hvað eigum vér að gjöra?`` Hann sagði við þá: ,,Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar.``
3:15 Nú var eftirvænting vakin hjá lýðnum, og allir voru að hugsa með sjálfum sér, hvort Jóhannes kynni að vera Kristur.
3:16 En Jóhannes svaraði öllum og sagði: ,,Ég skíri yður með vatni, en sá kemur, sem mér er máttugri, og er ég ekki verður að leysa skóþveng hans. Hann mun skíra yður með heilögum anda og eldi.
3:17 Hann er með varpskófluna í hendi sér til þess að gjörhreinsa láfa sinn og safna hveitinu í hlöðu sína, en hismið mun hann brenna í óslökkvanda eldi.``
3:18 Með mörgu öðru áminnti hann og flutti lýðnum fagnaðarboðin.
3:19 Hann vítti Heródes fjórðungsstjóra vegna Heródíasar, konu bróður hans, og fyrir allt hið illa, sem hann hafði gjört.
3:20 Þá bætti Heródes einnig því ofan á allt annað, að hann varpaði Jóhannesi í fangelsi.
3:21 Er allur lýðurinn lét skírast, var Jesús einnig skírður. Þá bar svo við, er hann gjörði bæn sína, að himinninn opnaðist,
3:22 og heilagur andi steig niður yfir hann í líkamlegri mynd, eins og dúfa, og rödd kom af himni: ,,Þú ert minn elskaði sonur, á þér hef ég velþóknun.``
3:23 En Jesús var um þrítugt, er hann hóf starf sitt. Var hann, eftir því sem haldið var, sonur Jósefs, sonar Elí,