2:1 Vei þeim, sem hugsa upp rangindi og hafa illt með höndum í hvílurúmum sínum og framkvæma það, þegar ljómar af degi, jafnskjótt og þeir megna.
2:2 Langi þá til að eignast akra, þá ræna þeir þeim, eða hús, þá taka þeir þau burt. Þeir beita ofríki gegn húsbóndanum og húsi hans, gegn manninum og óðali hans.
2:3 Fyrir því segir Drottinn svo: Sjá, ég bý yfir óhamingju, sem ég mun senda þessari kynslóð, og þér skuluð ekki fá af yður hrundið né gengið hnarreistir undir, því að það munu verða vondir tímar.
2:4 Á þeim degi munu menn háðkvæði um yður kveða og hefja harmatölur á þessa leið: ,,Vér erum gjörsamlega eyðilagðir, landeign þjóðar minnar er úthlutað með mæliþræði, og enginn fær mér hana aftur. Ökrum vorum er skipt milli þeirra, er oss hafa hertekið!``
2:5 Fyrir því skalt þú engan hafa, er dragi mæliþráð yfir landskika í söfnuði Drottins.
2:6 ,,Prédikið ekki,`` _ svo prédika þeir. ,,Menn eiga ekki að prédika um slíkt! Skömmunum linnir ekki!``
2:7 Hvílíkt tal, Jakobs hús! Er Drottinn óþolinmóður, eða eru gjörðir hans slíkar? Eru ekki orð hans gæskurík við þá, sem breyta ráðvandlega?
2:8 En þjóð mín hefir nú þegar lengi risið upp á móti mér sem óvinur. Utan af kyrtlinum dragið þér yfirhöfnina af þeim, sem ugglausir fara um veginn, sem fráhverfir eru stríði.
2:9 Konur þjóðar minnar rekið þér út úr húsunum, sem hafa verið yndi þeirra, rænið börn þeirra prýði minni að eilífu.
2:10 Af stað og burt með yður! Því að hér er ekki samastaður fyrir yður vegna saurgunarinnar, sem veldur tjóni, og það ólæknandi tjóni.
2:11 Ef einhver, sem færi með hégóma og lygar, hræsnaði fyrir þér og segði: ,,Ég skal spá þér víni og áfengum drykk,`` það væri spámaður fyrir þessa þjóð!
2:12 Safna, já safna vil ég, Jakob, öllum þínum, færa saman leifar Ísraels eins og sauðfé í rétt, eins og hjörð í haga, og þar skal verða kliður mikill af mannmergðinni.