2:1 Drottinn talaði við Móse og Aron og sagði:
2:2 ,,Sérhver Ísraelsmanna skal tjalda hjá merki sínu, við einkenni ættar sinnar. Skulu þeir tjalda gegnt samfundatjaldinu hringinn í kring.
2:3 Að austanverðu, gegnt upprás sólar, skulu þeir tjalda undir merki Júda herbúða, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Júda sona sé Nakson Ammínadabsson.
2:4 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 74.600.
2:5 Næst honum skal tjalda ættkvísl Íssakars, og höfuðsmaður Íssakars sona sé Netanel Súarsson.
2:6 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 54.400.
2:7 Enn fremur ættkvísl Sebúlons, og höfuðsmaður Sebúlons sona sé Elíab Helónsson.
2:8 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 57.400.
2:9 Allir taldir liðsmenn í Júda herbúðum voru 186.400, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp fyrstir.
2:10 Að sunnanverðu skal merki Rúbens herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður Rúbens sona sé Elísúr Sedeúrsson.
2:11 Hersveit hans og taldir liðsmenn hans voru 46.500.
2:12 Næst honum skal tjalda ættkvísl Símeons, og höfuðsmaður Símeons sona sé Selúmíel Súrísaddaíson.
2:13 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 59.300.
2:14 Enn fremur ættkvísl Gaðs, og höfuðsmaður Gaðs sona sé Eljasaf Degúelsson.
2:15 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 45.650.
2:16 Allir taldir liðsmenn í Rúbens herbúðum voru 151.450, eftir hersveitum þeirra. Skulu þeir taka sig upp næstir hinum fyrstu.
2:17 Þá skal samfundatjaldið taka sig upp ásamt búðum levítanna, í miðjum hernum. Eins og þeir tjalda, svo skulu þeir taka sig upp, hver á sínum stað, eftir merkjum sínum.
2:18 Að vestanverðu skal merki Efraíms herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Efraíms sonum sé Elísama Ammíhúdsson.
2:19 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 40.500.
2:20 Næst honum ættkvísl Manasse, og höfuðsmaður yfir Manasse sonum sé Gamlíel Pedasúrsson.
2:21 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 32.200.
2:22 Enn fremur ættkvísl Benjamíns, og höfuðsmaður yfir Benjamíns sonum sé Abídan Gídeóníson.
2:23 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 35.400.
2:24 Allir taldir liðsmenn í Efraíms herbúðum voru 108.100, eftir hersveitum þeirra. Og þeir skulu hefja ferð sína hinir þriðju.
2:25 Að norðanverðu skal merki Dans herbúða vera, eftir hersveitum þeirra, og höfuðsmaður yfir Dans sonum sé Akíeser Ammísaddaíson.
2:26 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 62.700.
2:27 Næst honum tjaldi ættkvísl Assers, og höfuðsmaður yfir Assers sonum sé Pagíel Ókransson.
2:28 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 41.500.
2:29 Enn fremur ættkvísl Naftalí, og höfuðsmaður yfir Naftalí sonum sé Akíra Enansson.
2:30 Hersveit hans og taldir liðsmenn þeirra voru 53.400.
2:31 Allir taldir liðsmenn í Dans herbúðum voru 157.600. Skulu þeir hefja ferð sína síðastir, eftir merkjum sínum.``
2:32 Þessir eru taldir liðsmenn Ísraelsmanna eftir ættum þeirra. Allir taldir liðsmenn í herbúðunum eftir hersveitum þeirra voru 603.550.
2:33 En levítarnir voru ekki taldir meðal Ísraelsmanna, svo sem Drottinn hafði boðið Móse.